Sigrún Elva Einarsdóttir 4. feb. 2019

#2 - Þekkjum einkennin: Óvenjuleg blæðing, viðvarandi verkir

Vissir þú að þessi einkenni geta verið til marks um krabbamein?

Óvenjuleg blæðing eða viðvarandi verkir

  • Óvenjuleg blæðing, til dæmis frá endaþarmi, kynfærum, geirvörtu, í hráka eða þvagi
  • Viðvarandi verkir án þess að orsök sé ljós

Þó að einkennin geti vakið grun um krabbamein geta þau einnig verið til marks um aðra sjúkdóma. Alltaf ætti að bregðast við einkennum og panta tíma há lækni. 

Eger-banner-blar

Johanna-250pxMikilvægi trefja gegn ristilkrabbameini

Hvert og eitt okkar getur minnkað líkur á krabbameinum og dauðsföllum af völdum krabbameina um allt að 40% með lífsstíl, þekkingu á einkennum krabbameina, snemmgreiningu og með krabbameinsmeðferðum. Mataræði er hluti af þeim þáttum sem skipta máli til að draga úr líkum á krabbameinum og öðrum sjúkdómum. Hér skiptir til að mynda máli fyrir heilsuna að borða vel af trefjum.

Trefjar eru í heilkornavörum eins og heilkornabrauði, rúgbrauði (helst ósætt), haframjöli, byggi, heilhveitipasta og hýðishrísgrjónum. Trefjar eru einnig að finna í ávöxtum, grænmeti, baunum, hnetum og fræjum.

Í tilefni af Alþjóðlega krabbameinsdeginum, 4. febrúar, leggur Krabbameinsfélagið áherslu á að miðla fræðslu um forvarnir og einkenni krabbameina. Tilgangur dagsins er að vekja athygli á þeim vanda sem fylgir krabbameinum og hvetja til umbóta og eflingar á sviði forvarna, greiningar og meðferðar gegn krabbameinum.

Af hverju skipta trefjar máli?

Trefjar eru vatnsleysanlegar eða óvatnsleysanlegar og gegna mismunandi hlutverki í líkamanum. Því er mikilvægt að borða fjölbreytta fæðu til þess að fá nóg af öllum gerðum trefja. Neysla þeirra stuðlar að betri þarmaflóru í ristlinum. Sjálf getum við ekki brotið niður trefjar en bakteríur í ristilinum geta nýtt trefjarnar til að mynda stuttar fitusýrur sem nýtast líkamanum vel. Helstu kostir þess að innbyrða trefjar daglega er að hægðir verða reglulegri og líkur á ristilkrabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum minnka. Trefjar binda hluta af kólesterólinu í meltingarveginum og skila því út með hægðunum. Þegar við borðum trefjaríkt fæði erum við einnig lengur að melta fæðuna. Því lengur sem við erum södd, því minni líkur eru á að við borðum meira en við þurfum og  þyngjumst einnig síður. Auk þess fara næringarefni eins og glúkósi hægar útí blóðrásina eftir máltíð sem er rík af trefjum. Það er jákvætt af því að þá þurfum við minna insúlín til að koma sykrinum í frumur líkamans.

Embætti landlæknis mælir með því að borða heilkornavörur að minnsta kosti tvisvar sinnum á dag. Fyrir eldri en tveggja ára er einnig mælt með 500 grömmum af ávöxtum og grænmeti. Með þessu tryggjum við nægt magn af trefjum og öðrum nauðsynlegum vatnsleysanlegum vítamínum og steinefnum. Ef kornvörur eru merktar með græna skráargatinu innihalda þær ríflega af trefjum.

Krabbamein í ristli og endaþarmi

Krabbamein í ristli og endaþarmi er þriðja algengasta krabbameinið í heiminum. Að meðaltali greinast 165 manns á ári á Íslandi með þennan sjúkdóm og 67 látast af völdum hans.

Samkvæmt fjölda rannsókna er hægt að minnka líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi með því að hreyfa sig reglulega, borða trefjaríkt fæði, kalkríkar vörur, lítið af rauðu kjöti og unnum kjötvörum og drekka hóflega af áfengi eða sleppa því. Einnig eru vísbendingar um að góður D-vítamínbúskapur geti minnkað líkur á krabbameininu.

Helstu einkenni ristilkrabbameins geta verið breytingar á hægðum eins og niðurgangur og hægðartregða sem varir yfir nokkrar vikur, blóð í hægðum, stöðugur kviðverkur og óútskýrt þyngdartap. Í tilvikum sem þessum er ráðlagt að panta tíma hjá lækni.

Með góðu aðgengi að hollum fæðutegundum, til dæmis með því að niðurgreiða hollari valkosti, getum við fækkað krabbameinstilfellum.

Jóhanna E. Torfadóttir, næringar- og lýðheilsufræðingur og sérfræðingur í forvörnum hjá Krabbameinsfélagi Íslands

 


Fleiri nýjar fréttir

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?