Lára G. Sigurðardóttir læknir og fræðslustjóri KÍ 4. feb. 2016

Við getum haft áhrif. Við getum-ég get.

  • Lára G. Sigurðardóttir læknir og fræðslustjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Í dag er alþjóðlegi krabbameinsdagurinn sem hefur þann tilgang að auka þekkingu okkar á krabbameini með fræðslu ásamt því að hvetja til rannsókna og forvarna. Að þessu sinni erum við minnt á að hvert og eitt okkar getur haft áhrif, því talið er að hægt sé að koma í veg fyrir að minnsta kosti helming krabbameins.
Um þriðji hver greinist einhvern tíma með krabbamein. Í lok árs 2014 voru tæplega 13 þúsund Íslendingar á lífi sem greinst hafa með krabbamein. Tíðni krabbameins hefur farið stöðugt hækkandi á heildina litið, óháð fólksfjölgun og hækkandi meðalaldri, og gerðu spár ráð fyrir að þróunin yrði áfram í sömu átt. Andstætt spám byrjaði tíðnin á Íslandi að lækka upp úr aldamótum, bæði nýgengi og dánartíðni. Stór þáttur í þessari jákvæðu þróun er sú staðreynd að reykingamönnum fer stöðugt fækkandi.

Fleiri konur en karlar

Sígarettureykingar eru þekktur áhættuþáttur fjórtán tegunda krabbameina og eru tengsl þeirra við lungnakrabbamein einna best rannsökuð. Á heimsvísu reykja mun fleiri karlar en konur, hér á landi reykja nú daglega fleiri konur en karlar. Samkvæmt skýrslu Landlæknisembættisins reyktu 13% kvenna og 12% karla árið 2014. Þessi þróun skilar sér beint í tíðni lungnakrabbameins. Frá því að skráning krabbameins hófst hér á landi fyrir 60 árum hefur lungnakrabbamein verið algengara meðal karla en kvenna en tíðnin hjá körlunum byrjaði að lækka um síðustu aldamót og síðustu ár hafa fleiri konur en karlar greinst hér á landi.

Besta fjárfestingin

Sígarettureykingar eru eitt skýrasta dæmið um það hve mikil áhrif við getum haft á tíðni krabbameins. Fleiri mikilvægir þættir koma til, eins og að neyta áfengis í hófi ef maður drekkur á annað borð, sjá til þess að maður fái nægilega hreyfingu dagsdaglega og að borða fjölbreyttan og næringarríkan mat. Einnig að fara varlega í sólinni og gæta þess að brenna ekki, stunda öruggt kynlíf og mæta í krabbameinsleit, svo nokkur dæmi séu tekin. Það þarf engar öfgar til að lifa hófsömu og heilbrigðu lífi. Ætli það sé ekki einmitt besta fjárfestingin? Líf okkar er það eina sem við getum verið viss um að muni fylgi okkur alla ævi.

Samfélagsleg ábyrgð

Stjórnvöld bera einnig mikla ábyrgð á heilsu okkar því við sem einstaklingar höfum takmarkað vald yfir samfélagslegum aðstæðum. Þar spila stórt hlutverk stjórnvaldsaðgerðir eins og skattlagning á áfengi og tóbak og að takmarka aðgengi að þessum vörutegundum. Jafnframt að auka aðgengi okkar að hollum mat og að lækka gjöld á ávexti og grænmeti. Eins þurfum við að geta haft möguleika á að ferðast á milli staða á annan hátt en í bíl og þar eru góðir göngu- og hjólreiðastígar grundvallarforsendur.

Svo er það ábyrgð kaupmanna og annarra að bjóða upp á hollan mat. Við höfum öll veikleika sem er að missa vald á sjálfsstjórn okkar, einkum þegar líður á daginn. Eftir langan dag erum við líklegri til að fá okkur súkkulaðistykkið við búðarkassann þrátt fyrir að hafa verið búin að ákveða að gera það ekki. Kaupmenn bera þannig ábyrgð á að bjóða upp á næringarríkt snarl við búðarkassa en ekki sælgæti eins og oft vill vera svo dæmi sé tekið. Margar matvörubúðir hafa lagt metnað í að hafa hollt snarl við búðarkassa og eiga hrós skilið. Auk þess hafa nokkrar matvörubúðir sýnt gott fordæmi með því að bjóða upp á ókeypis ávöxt fyrir börn sem eru með foreldrunum að versla. Íþróttafélögin þurfa að taka sig á og hætta að bjóða börnunum upp á sælgæti og gos.

Getum komið í veg fyrir helming krabbameins

Ljóst er að krabbamein snertir okkur öll á einhvern hátt, með beinum eða óbeinum hætti. Það er alltaf þannig með þennan sjúkdóm að stór hluti þeirra sem greinast hefur lifað eðlilegu og heilbrigðu lífi og oft er engar skýringar að finna af hverju sumir sem lifa heilbrigðu lífi greinast með krabbamein.
Engu að síður eiga lífshættir okkar stóran þátt í myndun krabbameins hjá stórum hluta hópsins því talið er að hægt sé að koma í veg fyrir um helming allra krabbameina með heilbrigðum lífsháttum.

Setjum okkur í forgang

Eitt mikilvægasta atriði í þessu samhengi er að muna að ásaka engan fyrir óheilbrigt líferni og síst af öllu að ásaka sjálfan sig. Það leiðir einungis til fordóma sem hjálpa engum. Oft er eins og lífshættirnir velji okkur frekar en við veljum þá. Því er samt sem betur fer hægt að snúa við en það kostar tíma og undirbúning. Setjum líf okkar í meiri forgang, því þá fyrst förum við að hafa áhrif á líf okkar. Hvert og eitt okkar getur lagt mikið af mörkum til að minnka tíðni krabbameins og vera betur undir það búin ef við veikjumst.


Að lokum fögnum við því að í dag opnar Krabbameinsfélagið nýja vefsíðu þar sem hægt er að viða að sér fróðleik ( krabb.is ). Einnig minnum við á að hægt er að leita sér upplýsinga hjá símaráðgjöf Krabbameinsfélagsins sem er opin alla virka daga kl. 13-15, símanúmerið 800 4040 er gjaldfrjálst.


Fleiri nýjar fréttir

20. des. 2019 : Jóladagatal: Kjöt og krabbamein

Sagt er að þegar íslensku jólasveinarnir komi til byggða leiti þeir einna helst í eldhús og búr. Ketkrókur og Bjúgnakrækir næla sér í kjötbita á meðan Stúfur hirðir agnirnar sem hafa brunnið við pönnuna. En eru tengsl milli kjötneyslu og krabbameins?

Lesa meira

16. des. 2019 : Jóladagatal: Gómsætar fiskuppskriftir í aðdraganda jóla

Þar sem kjöt er ómissandi þáttur jólahalds hjá mörgum Íslendingum er upplagt síðustu vikurnar fyrir jól að borða vel af fiski og jurtafæði. Ríkuleg neysla af heilkornavörum, grænmeti, ávöxtum, baunum og linsubaunum dregur úr líkum á krabbameini. Lax í mangó eða pönnusteikt rauðspretta? Fáðu uppskriftirnar!

Lesa meira

13. des. 2019 : Jóladagatal: Hreyfum okkur í desember

Hreyfing minnkar líkur á krabbameini og flestir hafa gott af því að hreyfa sig meira og sitja minna. Þó jólasveinarnir séu miklir matarunnendur þá hreyfa þeir sig líka mikið, milli fjalla, sveita og bæja. Hér eru hugmyndir að hreyfingu sem hægt er að gera heima og í heimabyggð, sóttar í smiðju jólasveinanna.

Lesa meira

13. des. 2019 : Hamingjan á erfiðum tímum

Anna Lóa Ólafsdóttir, sérfræðingur og atvinnutengill hjá Virk og stofnandi Hamingjuhornsins, sagði okkur eitt og annað um hamingjuna.

Lesa meira
Hlaðvarp

12. des. 2019 : Nýtt: Hlaðvarp Krabbameinsfélagsins

Hlaðvarp Krabbameinsfélagsins hefur göngu sína í dag. Þættirnir verða sendir út vikulega og munu fjalla um ýmislegt sem tengist betri heilsu og líðan.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?