Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 11. des. 2018

Notkun ljósabekkja fer enn minnkandi

Ný könnun samstarfshóps um ljósabekkjanotkun á Íslandi leiðir í ljós að verulega hefur dregið úr notkun ljósabekkja á tímabilinu 2004 til dagsins í dag. 

Capacent-Gallup hefur árlega framkvæmt kannanir fyrir hópinn sem skipaður er fulltrúum frá Embætti Landlæknis, Geislavörnum ríkisins, húðlæknum og Krabbameinsfélaginu.

Á þessu tímabili hefur dregið mjög verulega úr notkun ljósabekkja. Árið 2004 höfðu um 30% fullorðinna notað ljósabekki í einhverjum mæli síðustu 12 mánuði, en frá árinu 2013 hefur þessi tala verið um 10% og virðist fara lækkandi. Sama þróun á sér stað hjá ungmennum. Árið 2004 höfðu 38% aðspurðra ungmenna á aldrinum 12-14 ára notað ljósabekki í einhverjum mæli síðustu 12 mánuði. Árið 2018 hafði um 13% aðspurðra 18-24 ára ungmenna notað ljósabekki.

„Þetta er virkilega ánægjuleg þróun, sérstaklega í ljósi þess að rannsóknir sýna að notkun ljósabekkja í fegrunarskyni hefur valdið aukinni tíðni húðkrabbameina. Að forðast ljósabekki er því mikilvæg forvörn gegn sortuæxlum og öðrum húðkrabbameinum,“ segir Guðlaug Birna Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins, sem situr í samstarfshópnum fyrir hönd Krabbameinsfélags Íslands.

Tafla-um-ljosabekkjanotkun

Í skýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem kom út í fyrra segir að notkun ljósabekkja til sólbaða í fegrunarskyni undanfarna áratugi hafi valdið aukinni tíðni húðkrabbameina. Einnig hefur aldur þeirra sem fá slík krabbamein í fyrsta sinn lækkað. Notkun ljósabekkja er talin valda meira en 10 þúsund tilfellum af sortuæxlum árlega og meira en 450 þúsund tilfellum af öðrum húðkrabbameinum í Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu samanlagt. Skaðleg áhrif ljósabekkja eru þannig vel þekkt og því er nauðsynlegt að takmarka notkun þeirra sem mest.

Í skýrslunni er fjallað um ýmsar aðgerðir sem aðildarríkin hafa gripið til í þeim tilgangi að takmarka notkun ljósabekkja. Þar má nefna innleiðingu aldursmarka og ýmsar kröfur sem gerðar eru til þeirra sem reka sólbaðsstofur.  Áhersla er lögð á fræðslu og margvíslega miðlun upplýsinga um skaðleg áhrif af notkun ljósabekkja í fegrunarskyni.

Krabbameinsfélagið hefur frá árinu 2004 verið í samstarfi við Geislavarnir ríkisins, Embætti landlæknis og húðlækna. Hópurinn hefur starfað undir átaksheitinu „Hættan er ljós“ og vann upphaflega fyrst og fremst að því að upplýsa foreldra og forráðamenn fermingarbarna um að börn ættu ekki að fara í ljós. Stefna hópsins er að stuðla að skynsamlegri hegðun lands­manna í sól og að draga enn frekar úr almennri notkun ljósabekkja.

 


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?