Kolbrún Silja Ásgeirsdóttir 1. jún. 2017

Neysla á feitum fiski veitir vernd gegn myndun brjóstakrabbameins

Fjölmenni var á fundi í Háaloftum í Hörpu í hádeginu í dag þar sem skýrslan Tengsl sjávarfangs við minnkaða áhættu krabbameina var formlega kynnt.

Í nýrri skýrslu Krabbameinsfélagsins sem kynnt var í Háaloftum í Hörpu í hádeginu í dag kemur fram að fiskneysla, sérstaklega þegar borðað er mikið af feitum fiski, virðist veita vernd gegn myndun brjóstakrabbameins, algengasta krabbameins íslenskra kvenna. Ekki eru vísbendingar um að hún hindri myndun krabbameins í blöðruhálskirtli sem er algengasta krabbamein íslenskra karla. Engu að síður virðast einstaklingar sem hafa greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli eða brjóstum geta bætt lífshorfur sínar með því að borða feitan fisk reglulega samhliða hollu og fjölbreyttu mataræði, sérstaklega ef það var til staðar áður en viðkomandi greindist með krabbamein. 

Jóhanna E. Torfadóttir, löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum við Miðstöð lýðheilsuvísinda Háskóla Íslands sem tók skýrsluna saman segir: „Sömuleiðis geta fæðubótarefni sem innihalda langar ómega–3 fitusýrur og D– vítamín verið verndandi fyrir krabbamein í brjóstum og blöðruhálskirtli, ásamt því að auka lífshorfur þeirra sem greinst hafa með þessi mein. Ofurskammta af ómega–3 fitusýrum eða D–vítamíni skal þó varast að taka inn því það getur mögulega haft neikvæð áhrif á heilsu og framgang krabbameina. Einnig skal varast að borða mikið af ránfiskum á borð við hákarl, stórlúðu og túnfisk, því þessar fisktegundir geta innihaldið mikið magn kvikasilfurs.“

Erindi Jóhönnu E. Torfadóttur má nálgast hér.

Heilsusamlegir lífshættir draga úr líkum á krabbameini

Valgerður Sigurðardóttir, krabbameinslæknir og formaður stjórnar Krabbameinsfélags Íslands segir að hugmyndin að gerð skýrslunnar hafi kviknað í samstarfi Krabbameinsfélagsins og Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi (SFS) í fræðslu- og forvarnarmálum. Valgerður lagði áherslu á að Krabbameinsfélagið héldi áfram kraftmiklu starfi í fræðslu og forvörnum og geri almenningi kleift að nálgast aðgengilegar og faglegar upplýsingar. Að sögn Valgerðar er fjölbreytt og hollt mataræði undirstaða góðrar heilsu og er talið geta verndað okkur gegn krabbameinum. Í dag greinist þriðji hver Íslendingur með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og talið er að hægt sé að koma í veg fyrir næstum helming þeirra með hollu mataræði, reglubundinni hreyfingu, reykleysi, engri eða hóflegri áfengisneyslu, góðum svefni og sólarvörnum, svo dæmi séu tekin. 

 

Erindi Valgerðar Sigurðardóttur má nálgast hér.

Minnkuð áhætta brjóstakrabbameins hjá konum sem borða mikið af fiski 

Álfheiður Haraldsdóttir, lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum kynnti niðurstöður úr doktorsverkefni sínu, um áhrif íslensks mataræðis á áhættu á brjóstakrabbameini. Rannsókn Álfheiðar byggir á gögnum Hjartaverndar þar sem þátttakendur sem ólust upp í sjávarþorpum fyrstu tuttugu árin á fyrri hluta tuttugustu aldar voru síður að greinast með krabbamein í brjóstum borið saman við þá sem ólust upp á höfuðborgarsvæðinu. Einnig sýndi rannsóknin að konur sem sögðust borða fisk oftar en fjórum sinnum í viku á miðjum aldri (40-50 ára) voru síður að greinast með krabbamein í brjóstum seinna á ævinni. 

Erindi Álfheiðar Haraldsdóttur má nálgast hér.

Skýrsluna Tengsl sjávarfangs við minnkaða áhættu krabbameina er að finna hér.

Nánari upplýsingar veita:
 

Valgerður Sigurðardóttir, krabbameinslæknir og formaður stjórnar Krabbameinsfélags Íslands í síma 825 5018 eða valgersi@landspitali.is  

Jóhanna Torfadóttir, löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum við Miðstöð lýðheilsuvísinda Háskóla Íslands í síma 699 2405 eða jet@hi.is

Kolbrún Silja Ásgeirsdóttir, kynningar- og fjáröflunarstjóri Krabbameinsfélags Íslands í síma 663 9995 eða á kolbrun@krabb.is


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2019 : Hvernig nennirðu þessu?

Í dag er alþjóðadagur sjálfboðaliða og Árni Einarsson formaður Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins skrifar:

Lesa meira

4. des. 2019 : Stuðningur við fagaðila sem vinna með börn eftir foreldramissi

Krabbameinsfélagið undirbýr nú opnun fræðslu- stuðnings- og handleiðslumiðstöðvar sem ætluð er fagaðilum sem vinna í nærumhverfi barna sem misst hafa foreldri. Samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands má gera ráð fyrir að um 100 börn missi foreldri ár hvert.

Lesa meira

4. des. 2019 : Ljósabekkjanotkun helst óbreytt milli ára

Árlegri könnun á notkun ljósabekkja á Íslandi er nýlega lokið. Könnunin er framkvæmd af Gallup fyrir hönd samstarfshóps Geislavarna, Embættis Landlæknis, húðlækna og Krabbameinsfélagsins.

Lesa meira

2. des. 2019 : Rautt eða hvítt?

Aðventan er sá tími árs þegar margir leggja áherslu á að halda í ýmis konar hefðir, yfirleitt í hópi vina eða fjölskyldu. Hefðirnar eru af ýmsum toga svo sem jólahlaðborð og jólatónleikar svo eitthvað sé nefnt og oft er vín haft um hönd.

Lesa meira

29. nóv. 2019 : Býður hjúkrunarfræðingum í Bláa Lónið

Bergljót Inga Kvaran, yfirhjúkrunarfræðingur á Heilsugæslunni Höfða, var dregin út í vinkonuleik Krabbameinsfélagsins og Bleiku slaufunnar í ár og hlaut í verðlaun dekur fyrir 6 á Retreat Spa í Bláa Lóninu og óvissuferð á Lava Restaurant. Bergljót kom og sótti vinninginn í Skógarhlíðina í dag.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?