Kolbrún Silja Ásgeirsdóttir 1. jún. 2017

Neysla á feitum fiski veitir vernd gegn myndun brjóstakrabbameins

Fjölmenni var á fundi í Háaloftum í Hörpu í hádeginu í dag þar sem skýrslan Tengsl sjávarfangs við minnkaða áhættu krabbameina var formlega kynnt.

Í nýrri skýrslu Krabbameinsfélagsins sem kynnt var í Háaloftum í Hörpu í hádeginu í dag kemur fram að fiskneysla, sérstaklega þegar borðað er mikið af feitum fiski, virðist veita vernd gegn myndun brjóstakrabbameins, algengasta krabbameins íslenskra kvenna. Ekki eru vísbendingar um að hún hindri myndun krabbameins í blöðruhálskirtli sem er algengasta krabbamein íslenskra karla. Engu að síður virðast einstaklingar sem hafa greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli eða brjóstum geta bætt lífshorfur sínar með því að borða feitan fisk reglulega samhliða hollu og fjölbreyttu mataræði, sérstaklega ef það var til staðar áður en viðkomandi greindist með krabbamein. 

Jóhanna E. Torfadóttir, löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum við Miðstöð lýðheilsuvísinda Háskóla Íslands sem tók skýrsluna saman segir: „Sömuleiðis geta fæðubótarefni sem innihalda langar ómega–3 fitusýrur og D– vítamín verið verndandi fyrir krabbamein í brjóstum og blöðruhálskirtli, ásamt því að auka lífshorfur þeirra sem greinst hafa með þessi mein. Ofurskammta af ómega–3 fitusýrum eða D–vítamíni skal þó varast að taka inn því það getur mögulega haft neikvæð áhrif á heilsu og framgang krabbameina. Einnig skal varast að borða mikið af ránfiskum á borð við hákarl, stórlúðu og túnfisk, því þessar fisktegundir geta innihaldið mikið magn kvikasilfurs.“

Erindi Jóhönnu E. Torfadóttur má nálgast hér.

Heilsusamlegir lífshættir draga úr líkum á krabbameini

Valgerður Sigurðardóttir, krabbameinslæknir og formaður stjórnar Krabbameinsfélags Íslands segir að hugmyndin að gerð skýrslunnar hafi kviknað í samstarfi Krabbameinsfélagsins og Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi (SFS) í fræðslu- og forvarnarmálum. Valgerður lagði áherslu á að Krabbameinsfélagið héldi áfram kraftmiklu starfi í fræðslu og forvörnum og geri almenningi kleift að nálgast aðgengilegar og faglegar upplýsingar. Að sögn Valgerðar er fjölbreytt og hollt mataræði undirstaða góðrar heilsu og er talið geta verndað okkur gegn krabbameinum. Í dag greinist þriðji hver Íslendingur með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og talið er að hægt sé að koma í veg fyrir næstum helming þeirra með hollu mataræði, reglubundinni hreyfingu, reykleysi, engri eða hóflegri áfengisneyslu, góðum svefni og sólarvörnum, svo dæmi séu tekin. 

 

Erindi Valgerðar Sigurðardóttur má nálgast hér.

Minnkuð áhætta brjóstakrabbameins hjá konum sem borða mikið af fiski 

Álfheiður Haraldsdóttir, lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum kynnti niðurstöður úr doktorsverkefni sínu, um áhrif íslensks mataræðis á áhættu á brjóstakrabbameini. Rannsókn Álfheiðar byggir á gögnum Hjartaverndar þar sem þátttakendur sem ólust upp í sjávarþorpum fyrstu tuttugu árin á fyrri hluta tuttugustu aldar voru síður að greinast með krabbamein í brjóstum borið saman við þá sem ólust upp á höfuðborgarsvæðinu. Einnig sýndi rannsóknin að konur sem sögðust borða fisk oftar en fjórum sinnum í viku á miðjum aldri (40-50 ára) voru síður að greinast með krabbamein í brjóstum seinna á ævinni. 

Erindi Álfheiðar Haraldsdóttur má nálgast hér.

Skýrsluna Tengsl sjávarfangs við minnkaða áhættu krabbameina er að finna hér.

Nánari upplýsingar veita:
 

Valgerður Sigurðardóttir, krabbameinslæknir og formaður stjórnar Krabbameinsfélags Íslands í síma 825 5018 eða valgersi@landspitali.is  

Jóhanna Torfadóttir, löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum við Miðstöð lýðheilsuvísinda Háskóla Íslands í síma 699 2405 eða jet@hi.is

Kolbrún Silja Ásgeirsdóttir, kynningar- og fjáröflunarstjóri Krabbameinsfélags Íslands í síma 663 9995 eða á kolbrun@krabb.is


Fleiri nýjar fréttir

19. ágú. 2022 : Enn styrkist þekkingargrunnurinn sem undirstrikar mikilvægi forvarna gegn krabbameinum

Niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birtust í Lancet tímaritinu í vikunni benda til þess að í næstum helmingi tilfella dauðsfalla af völdum krabbameina megi rekja orsök meinanna til áhættuþátta sem koma mætti í veg fyrir. Á meðal þessara áhættuþátta eru þeir þrír helstu tóbaksreykingar, áfengisneysla og of mikil líkamsþyngd.

Lesa meira
Gunnar Ármannsson hlaupari

18. ágú. 2022 : Heilsufarsávinningur fyrir þig og leið til að styðja góð málefni - það gerist varla betra!

Í gegnum áratugina hefur Reykjavíkurmaraþonið verið hvati margra til að fara að stunda regluleg hlaup og göngur sem er sannarlega frábært því að þeir sem stunda reglulega hreyfingu draga úr líkum á krabbameinum og fjölda annarra sjúkdóma.

Lesa meira

10. ágú. 2022 : Meðvera ný samskiptagátt bætir þjónustu við krabbameinssjúklinga

Krabbameinsfélagið er afar stolt af því að hafa átt þátt í að koma þessu þarfa verkefni á laggirnar. Það var brýnt að finna nýjar og nútímalegri leiðir til að tryggja og efla samskipti milli fagfólks og þeirra sem eru í krabbameinsmeðferð.

Lesa meira

9. ágú. 2022 : Embætti landlæknis og Krabbameinsfélagið endurnýja þjónustusamning um Krabbameinsskrá

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins segir það mikið ánægjuefni að gengið hafi verið frá áframhaldandi samkomulagi um rekstur skrárinnar sem hefur verið starfrækt hjá félaginu af mikilli fagmennsku í nærri 70 ár. Það er trú okkar að með því að hún sé hluti af Rannsókna- og skráningarsetri félagsins séu bæði gæði og hagnýting skrárinnar sem best tryggð“ segir Halla.

Lesa meira

12. júl. 2022 : Slökkviliðsstörf eru krabbameinsvaldandi

Alþjóðlega krabbameinsrannsóknarstofnunin (IARC), hefur breytt hættu­flokk­un starfs slökkviliðsmanna í staðfest krabba­meinsvald­andi varðandi krabbamein í fleiðru og krabbamein í þvagblöðru.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?