Kolbrún Silja Ásgeirsdóttir 1. jún. 2017

Neysla á feitum fiski veitir vernd gegn myndun brjóstakrabbameins

Fjölmenni var á fundi í Háaloftum í Hörpu í hádeginu í dag þar sem skýrslan Tengsl sjávarfangs við minnkaða áhættu krabbameina var formlega kynnt.

Í nýrri skýrslu Krabbameinsfélagsins sem kynnt var í Háaloftum í Hörpu í hádeginu í dag kemur fram að fiskneysla, sérstaklega þegar borðað er mikið af feitum fiski, virðist veita vernd gegn myndun brjóstakrabbameins, algengasta krabbameins íslenskra kvenna. Ekki eru vísbendingar um að hún hindri myndun krabbameins í blöðruhálskirtli sem er algengasta krabbamein íslenskra karla. Engu að síður virðast einstaklingar sem hafa greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli eða brjóstum geta bætt lífshorfur sínar með því að borða feitan fisk reglulega samhliða hollu og fjölbreyttu mataræði, sérstaklega ef það var til staðar áður en viðkomandi greindist með krabbamein. 

Jóhanna E. Torfadóttir, löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum við Miðstöð lýðheilsuvísinda Háskóla Íslands sem tók skýrsluna saman segir: „Sömuleiðis geta fæðubótarefni sem innihalda langar ómega–3 fitusýrur og D– vítamín verið verndandi fyrir krabbamein í brjóstum og blöðruhálskirtli, ásamt því að auka lífshorfur þeirra sem greinst hafa með þessi mein. Ofurskammta af ómega–3 fitusýrum eða D–vítamíni skal þó varast að taka inn því það getur mögulega haft neikvæð áhrif á heilsu og framgang krabbameina. Einnig skal varast að borða mikið af ránfiskum á borð við hákarl, stórlúðu og túnfisk, því þessar fisktegundir geta innihaldið mikið magn kvikasilfurs.“

Erindi Jóhönnu E. Torfadóttur má nálgast hér.

Heilsusamlegir lífshættir draga úr líkum á krabbameini

Valgerður Sigurðardóttir, krabbameinslæknir og formaður stjórnar Krabbameinsfélags Íslands segir að hugmyndin að gerð skýrslunnar hafi kviknað í samstarfi Krabbameinsfélagsins og Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi (SFS) í fræðslu- og forvarnarmálum. Valgerður lagði áherslu á að Krabbameinsfélagið héldi áfram kraftmiklu starfi í fræðslu og forvörnum og geri almenningi kleift að nálgast aðgengilegar og faglegar upplýsingar. Að sögn Valgerðar er fjölbreytt og hollt mataræði undirstaða góðrar heilsu og er talið geta verndað okkur gegn krabbameinum. Í dag greinist þriðji hver Íslendingur með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og talið er að hægt sé að koma í veg fyrir næstum helming þeirra með hollu mataræði, reglubundinni hreyfingu, reykleysi, engri eða hóflegri áfengisneyslu, góðum svefni og sólarvörnum, svo dæmi séu tekin. 

 

Erindi Valgerðar Sigurðardóttur má nálgast hér.

Minnkuð áhætta brjóstakrabbameins hjá konum sem borða mikið af fiski 

Álfheiður Haraldsdóttir, lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum kynnti niðurstöður úr doktorsverkefni sínu, um áhrif íslensks mataræðis á áhættu á brjóstakrabbameini. Rannsókn Álfheiðar byggir á gögnum Hjartaverndar þar sem þátttakendur sem ólust upp í sjávarþorpum fyrstu tuttugu árin á fyrri hluta tuttugustu aldar voru síður að greinast með krabbamein í brjóstum borið saman við þá sem ólust upp á höfuðborgarsvæðinu. Einnig sýndi rannsóknin að konur sem sögðust borða fisk oftar en fjórum sinnum í viku á miðjum aldri (40-50 ára) voru síður að greinast með krabbamein í brjóstum seinna á ævinni. 

Erindi Álfheiðar Haraldsdóttur má nálgast hér.

Skýrsluna Tengsl sjávarfangs við minnkaða áhættu krabbameina er að finna hér.

Nánari upplýsingar veita:
 

Valgerður Sigurðardóttir, krabbameinslæknir og formaður stjórnar Krabbameinsfélags Íslands í síma 825 5018 eða valgersi@landspitali.is  

Jóhanna Torfadóttir, löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum við Miðstöð lýðheilsuvísinda Háskóla Íslands í síma 699 2405 eða jet@hi.is

Kolbrún Silja Ásgeirsdóttir, kynningar- og fjáröflunarstjóri Krabbameinsfélags Íslands í síma 663 9995 eða á kolbrun@krabb.is


Fleiri nýjar fréttir

15. ágú. 2019 : Aukaskoðun í Vestmannaeyjum 22. og 23. ágúst

Afar dræm þátttaka var í skimun fyrir brjóstakrabbameini í Vestmannaeyjum í vor og kom í ljós að mistök höfðu átt sér stað í póstsendingu boðsbréfa sem ekki bárust öllum konum sem komið var að í skimun.

Lesa meira

12. ágú. 2019 : Opið fyrir umsóknir í vísindasjóð norrænu krabbameinssamtakanna

Vakin er athygli á því að opið er fyrir umsóknir í vísindasjóð NCU (Norrænu krabbameinssamtakanna). Umsóknarfrestur er til og með 2. september næstkomandi.

Lesa meira
Brjóstaskoðun á Leitarstöð

9. ágú. 2019 : Mikil eftirspurn eftir tímum í skimun

Aldrei hafa jafnmargar tímapantanir í skimun beðið starfsfólks Leitarstöðvarinnar að loknum sumarleyfum og nú. Um 800 tölvupóstar biðu afgreiðslu og er nú unnið að því að bæta við tímum til að anna eftirspurn. 

Lesa meira

29. júl. 2019 : Hleypur fyrir pabba og frænda ... af því hún getur það

Berglind Alda Ástþórsdóttir hleypur 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Krabbameinsfélaginu. Berglind hefur sterka tengingu við krabbamein, en faðir hennar hefur síðustu tvö ár glímt við nýrnakrabbamein og 14 ára gamall frændi er með krabbamein í eitlum. 

Lesa meira
Arnar Pétursson og Berglind Alda Ástþórsdóttir

27. júl. 2019 : Þú þarft ekki að vera maraþonhlaupari til að minnka líkur á krabbameini

Krabbameinsfélagið hvetur landsmenn til reglulegrar hreyfingar, því í henni felst góð forvörn gegn krabbameinum. Félagið hvetur hlaupara í Reykjavíkurmaraþoni til dáða með því að gefa bönd með slagorðinu „Ég hleyp af því ég get það.“

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?