Kolbrún Silja Ásgeirsdóttir 2. mar. 2017

Mottumars: Átak gegn tóbaksnotkun

Mottumars er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. Markmið átaksins í ár er að auka þekkingu á skaðsemi tóbaksnotkunar og hvetja þá karla sem nota tóbak til að hætta.

Tóbaksnotkun veldur flestum krabbameinum á Íslandi sem og í heiminum. Árlega greinast að meðaltali um 140 karlar með krabbamein sem rekja má til tóbaksnotkunar og um 90 látast. Þrátt fyrir góðan árangur í tóbaksforvörnum eru enn 14% karla sem reykja, 9% reykja daglega og 5% sjaldnar en daglega. Tíðni munntóbaksnotkunar fer vaxandi, sérstaklega meðal ungra karla en 24% karla á aldrinum 18-24 ára notar munntóbak daglega. Auk þess hafa rafsígarettur skotið rótum í skólum þar sem tóbaksnotkun var áður hverfandi. Rúmlega fjórðungur barna í 10. bekk grunnskóla hafa notað rafsígarettur og helmingur ungmenna í framhaldsskólum á meðan einungis 5% fullorðinna hafa notað rafsígarettur. 

„Þú veist betur“ er yfirskrift herferðar Mottumars í ár

Í herferðinni sjáum við dæmi um fjölbreytt atriði sem áður fyrr þóttu sjálfsagður hlutur en í dag vitum við betur. Við setjum tóbaksnotkun í það samhengi og sjáum að tóbaksnotkun er tímaskekkja. Í dag vitum við betur.

Með samhentu átaki í fræðslu og forvörnum höfum við Íslendingar náð miklum árangri í fækkun dauðsfalla vegna tóbaksnotkunar. Við getum gert betur því öll tóbaksneysla er skaðleg heilsu og skapar fíkn sem leiðir til vanlíðunar. Í Mottumars verður dreift fræðsluefni um skaðsemi sígaretta, munntóbaks og rafsígaretta.

  • Fræðslumyndbönd um sígarettur, munntóbak og rafsígarettur
  • Létt sjálfspróf með fróðleik um tóbak
  •  „Hættu nú alveg keppnin“ þar sem tóbaksnotendur geta skráð sig til keppni Krabbameinsfélagsins og Reyksímans og fengið stuðning og hvatningu sérmenntaðra hjúkrunarfræðinga til að hætta. Veglegir vinningar verða í boði fyrir þá sem komast í pottinn og eru enn tóbakslausir þann 2. maí nk., en þá verða þátttakendur búnir að vera tóbakslausir í fimm vikur. Aðalvinningur er lengra og betra líf en einnig þyrluferð frá Þyrluþjónustunni Helo, flugmiðar fyrir tvo til Evrópu frá Wow, gisting og matur á Hótel Rangá og fleira.
  • Á mottumars.is er hægt að nálgast fræðsluefni um tóbak og leiðir til að hætta að nota tóbak.

Stuðningur við forvarnarstarf

Óskað er eftir stuðningi  almennings og fyrirtækja við öflugt forvarnar- og fræðslustarf Krabbameinsfélagsins sem miðar að því að fækka þeim sem greinast með krabbamein, fjölga þeim sem lifa og bæta lífsgæði þeirra sem greinast.

Hægt er að styðja við forvarnar- og fræðslustarf Krabbameinsfélagsins með því að senda SMS-ið MOTTA í styrktarnúmerið 1900 og styrkja átakið um 1900 krónur, einnig er hægt að kaupa ýmsar Mottuvörur í vefverslun Krabbameinsfélagsins, greiða valkröfu eða gerast velunnari .

Framlag okkar allra skiptir miklu máli. Við getum haft áhrif vegna þess að rannsóknir sýna að koma má í veg fyrir allt að helmingi krabbameina með fræðslu og forvörnum. 

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS eru aðalstyrktaraðili Mottumars og hafa að leiðarljósi að efla fræðslu og forvarnir og hvetja til heilbrigðra lífshátta meðal starfsmanna fyrirtækja samtakanna.

Á vefsíðunni mottumars.is eru upplýsingar um átakið og einnig er þar margvíslegt fræðsluefni um karla og krabbamein. Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins veitir ráðgjöf í síma 800 4040 alla virka daga. 


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?