Ása Sigríður Þórisdóttir 15. sep. 2022

Meðferðarkjarninn rís - vandi krabbameinsdeildar er óleystur

Grein birtist í Skoðun á Visir.is 15. september 2022

Krabbameinsfélagið heldur áfram að vekja athygli á þessu mikilvæga málið þangað til það verður leyst! 

Húsnæðismál Landspítala voru til umræðu á Morgunvaktinni á Rás 1 í síðustu viku. Nýr meðferðarkjarni er farinn að rísa upp úr grunninum og eðlilegt að telja að mjög styttist í að húsnæðisvandi Landspítala verði úr sögunni og aðstaða verði til fyrirmyndar.

Nýr meðferðarkjarni leysir hins vegar ekki öll mál.

Hann leysir til dæmis ekki húsnæðisvanda dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga þar sem flest þeirra sem greinast með illkynja blóðsjúkdóma og krabbamein fá lyfjameðferð. Meðferð sem í mörgum tilvikum reynir mjög á bæði sjúklinga og aðstandendur, fólk sem oft er að takast á við eitt erfiðasta verkefni lífs síns.

Húsnæði deildarinnar er löngu sprungið. Plássið er allt of lítið. Engin aðstaða er fyrir aðstandendur, ekki aðstaða til að matast og sjúklingar hafa takmarkaða möguleika á að eiga trúnaðarsamtöl í næði við heilbrigðisstarfsfólk. Aðgengi að snyrtingum er stórlega ábótavant. Starfsfólki er illmögulegt að sinna sínum störfum og annast um fólk með þeim hætti sem ætlast er til.

Þessi deild verður ekki hluti af nýja meðferðarkjarnanum sem nú rís.

Bjargast þetta ekki eins og hingað til?

Nei, þetta bjargast ekki, það verður að koma aðstöðunni í lag. Spár um fjölgun krabbameinstilvika hér á landi gera ráð fyrir að krabbameinstilvikum muni fjölga um 40% til ársins 2035. Sífellt meiri árangur er af meðferð, sem þýðir bæði að fleiri læknast af krabbameinum og lifa með krabbamein sem langvinna sjúkdóma. Það kallar hins vegar oft á áframhaldandi þjónustu.

Krabbameinsfélagið hefur ítrekað vakið athygli á bráðri nauðsyn þess að leysa húsnæðisvanda deildarinnar til að tryggja sjúklingum bestu þjónustu sem möguleg er og starfsfólki aðstæður sem eru til þess fallnar að það þrífist vel í starfi. Félagið gekk svo langt að lofa fjármagni til byggingar nýrrar deildar til að flýta fyrir. Því miður skilaði það ekki tilætluðum árangri.

Í svörum stjórnvalda við fyrirspurnum Krabbameinsfélagsins hefur komið fram að skýrsla um ástandsmat á byggingum Landspítala er forsenda ákvarðana um framtíðarhúsnæði deildarinnar. Skýrslan átti að liggja fyrir í lok júní sl. en er væntanleg á næstu dögum.

Krabbameinsfélagið bindur vonir við að með skýrslunni verði lögð fram tímasett áætlun um nýja dagdeild þar sem mögulegt er að mæta þeim verkefnum sem við blasa nú þegar og fram á veginn. Það einfaldlega þolir ekki bið.

 

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

  • Grein birtist í Skoðun á Visir.is 15. september 2022 (https://www.visir.is/g/20222311457d/med-ferdar-kjarninn-ris-vandi-krabba-meins-deildar-er-o-leystur).

 


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

2. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?