Ása Sigríður Þórisdóttir 15. sep. 2022

Meðferðarkjarninn rís - vandi krabbameinsdeildar er óleystur

Grein birtist í Skoðun á Visir.is 15. september 2022

Krabbameinsfélagið heldur áfram að vekja athygli á þessu mikilvæga málið þangað til það verður leyst! 

Húsnæðismál Landspítala voru til umræðu á Morgunvaktinni á Rás 1 í síðustu viku. Nýr meðferðarkjarni er farinn að rísa upp úr grunninum og eðlilegt að telja að mjög styttist í að húsnæðisvandi Landspítala verði úr sögunni og aðstaða verði til fyrirmyndar.

Nýr meðferðarkjarni leysir hins vegar ekki öll mál.

Hann leysir til dæmis ekki húsnæðisvanda dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga þar sem flest þeirra sem greinast með illkynja blóðsjúkdóma og krabbamein fá lyfjameðferð. Meðferð sem í mörgum tilvikum reynir mjög á bæði sjúklinga og aðstandendur, fólk sem oft er að takast á við eitt erfiðasta verkefni lífs síns.

Húsnæði deildarinnar er löngu sprungið. Plássið er allt of lítið. Engin aðstaða er fyrir aðstandendur, ekki aðstaða til að matast og sjúklingar hafa takmarkaða möguleika á að eiga trúnaðarsamtöl í næði við heilbrigðisstarfsfólk. Aðgengi að snyrtingum er stórlega ábótavant. Starfsfólki er illmögulegt að sinna sínum störfum og annast um fólk með þeim hætti sem ætlast er til.

Þessi deild verður ekki hluti af nýja meðferðarkjarnanum sem nú rís.

Bjargast þetta ekki eins og hingað til?

Nei, þetta bjargast ekki, það verður að koma aðstöðunni í lag. Spár um fjölgun krabbameinstilvika hér á landi gera ráð fyrir að krabbameinstilvikum muni fjölga um 40% til ársins 2035. Sífellt meiri árangur er af meðferð, sem þýðir bæði að fleiri læknast af krabbameinum og lifa með krabbamein sem langvinna sjúkdóma. Það kallar hins vegar oft á áframhaldandi þjónustu.

Krabbameinsfélagið hefur ítrekað vakið athygli á bráðri nauðsyn þess að leysa húsnæðisvanda deildarinnar til að tryggja sjúklingum bestu þjónustu sem möguleg er og starfsfólki aðstæður sem eru til þess fallnar að það þrífist vel í starfi. Félagið gekk svo langt að lofa fjármagni til byggingar nýrrar deildar til að flýta fyrir. Því miður skilaði það ekki tilætluðum árangri.

Í svörum stjórnvalda við fyrirspurnum Krabbameinsfélagsins hefur komið fram að skýrsla um ástandsmat á byggingum Landspítala er forsenda ákvarðana um framtíðarhúsnæði deildarinnar. Skýrslan átti að liggja fyrir í lok júní sl. en er væntanleg á næstu dögum.

Krabbameinsfélagið bindur vonir við að með skýrslunni verði lögð fram tímasett áætlun um nýja dagdeild þar sem mögulegt er að mæta þeim verkefnum sem við blasa nú þegar og fram á veginn. Það einfaldlega þolir ekki bið.

 

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

  • Grein birtist í Skoðun á Visir.is 15. september 2022 (https://www.visir.is/g/20222311457d/med-ferdar-kjarninn-ris-vandi-krabba-meins-deildar-er-o-leystur).

 


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?