Anna Margrét Björnsdóttir 9. maí 2023

Með hjartað á réttum stað

  • Frá vinstri: Bjarni Leó Sævarsson, Auður Bríet Rúnarsdóttir, Embla Karen Sverrisdóttir, Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður markaðsmála og fjáröflunar hjá Krabbameinsfélaginu, Arnar Daníel Aðalsteinsson og Adolf Daði Birgisson.

Nemendur í frumkvöðlafræði við Fjölbrautaskólann í Garðabæ komu færandi hendi með 110.000 krónur sem þau söfnuðu til styrktar Krabbameinsfélaginu. Styrktarféð var ágóði skólaverkefnis sem var liður í Fyrirtækjasmiðju á vegum Ungra frumkvöðla - JA Iceland.

„Upprunalega vorum við með aðra viðskiptaáætlun sem gekk síðan ekki upp hjá okkur. Þá kom þessi hugmynd um að nýta tímasetninguna, Mottumars, og láta ágóðann af verkefninu renna til Krabbameinsfélagsins,“ segir Arnar Daníel Aðalsteinsson, einn af frumkvöðlunum sem stóðu að verkefninu.

Flestir úr hópnum eru að útskrifast nú í vor og hafa þau setið frumkvöðlaáfanga í FG. Markmiðið með áfanganum er þátttaka í fyrirtækjasmiðju JA Iceland, sem sameinar framhaldsskólanemendur á landsvísu í keppni um bestu viðskiptahugmyndina. Afraksturinn er síðan sýndur á vörumessum í Reykjavík, á Ísafirði og Akureyri.

Hópurinn lét framleiða armbönd í Mottumarslitunum og seldi, m.a. á vörumessunni í Smáralind og til vina og vandamanna. Ágóðinn af sölunni, 110.000 krónur, rann óskiptur til Krabbameinsfélagsins og kemur að góðum notum í starfi félagsins. Það er vert að taka fram að það var ekki skilyrði verkefnisins að ágóðinn rynni til góðra verka, heldur val hópsins.

Framtíðin er heldur betur björt þegar unga fólkið okkar sýnir hlýhug og stuðning í verki og við færum þeim hjartans þakkir fyrir framlag sitt.


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?