Björn Teitsson 25. feb. 2021

Mataræði skiptir máli - uppskrift að dýrindis þorskrétti og eftirrétti í kaupbæti

  • Thorskflok-i-pistuskel

Sigríður Gunnarsdóttir er höfundur fjölda matreiðslubóka og þekktur matgæðingur. Hún er búsett í Antony, í úthverfi Parísar, og leggur ávallt áherslu á hollan og bragðgóðan mat úr úrvalshráefnum. 

Sigríður ólst upp á Hjarðarfelli á Snæfellsnesi, fór í Menntaskólann á Laugarvatni og útskrifaðist síðan úr frönsku við Háskóla Íslands. Hún hefur búið í Frakklandi í 50 ár en þar segist hún hafa lært að elda mat. Í Frakklandi snýst lífið líka um mat, um að verja tíma með vinum og vandamönnum, að setjast niður og njóta þess besta sem náttúran hefur að bjóða á hverjum tíma. Því er mikilvægt að velja hráefni eftir árstíð, velja grænmeti og ávexti eftir uppskerutíma þeirra og það prótein sem er ferskast hverju sinni. 

Á heimili Sigríðar í Antony er borðað mikið af grænmeti og ávöxtum en einnig er reynt að borða fisk eins oft og hægt er. Kjöt er borðað hóflega og til hátíðarbrigða. Fyrir þau sem eru áhugasöm þá má finna fleiri uppskriftir og skemmtilegan fróðleik um franska menningu frá Sigríði í verðlaunabókunum Sælkeraferð um Frakkland (2007), Sælkeragöngur um París (2009) og Sælkeragöngur um Provence (2013). Allar bækurnar eru dásamlega myndskreyttar af Silju Sallé, ljósmyndara, sem er einmitt dóttir Sigríðar. 

Saelkerabaekur-thrjar-frabaerar-matreidslubaekur-a-adeins-3-490-kr-fullt-verd-14

Sigríður kann hvergi betur við sig en í garðinum sínum í Antony sem sér henni fyrir blómum, apríkósum, eplum, valhnetum og fleira góðgæti, nú eða á æskuslóðunum á Hjarðarfelli. Þangað hefur hún komið hvert einasta sumar frá því að hafa flutt til Frakklands, ef frá er skilið Covid-árið 2020. 


Sigga

Sigríður sendi okkur vetraruppskriftir, þorskrétt með pistúhjúp, sem er einkennandi fyrir frönsk áhrif í eldhúsinu með einfaldleika og góð hráefni í fyrirrúmi. En tengingin við heimahagana er aldrei langt undan. Í eftirrétt fáum við uppskrift að einföldum grjónagraut, sem þótti heldur betur dagamunur á uppvaxtarárunum að Hjarðarfelli. 


Fiskur með pistou-hjúp. 


Þetta er einfaldur réttur sem allir geta auðveldlega útbúið. Hann er frá Provence, en pistú (pistou) er einkennissósa héraðsins sem er ein helsta matarkista Frakklands. Pistú er ekki ósvipað hinu norður-ítalska pestó, sem mætti einnig nota í uppskriftina. Grunnefnin í pistú eru ólífuolía, hvítlaukur og ferskt basil, sem hljómar nokkuð kunnuglega. 

Poisson en croûte de pistou

Fyrir 4

Undirbúningur 20 mín, bakstur um það bil 20 mín við 200°.

800 g fiskflök, eftir vali,

1 hvítlauksrif,

1 dl pístú ,

3 msk smátt skornar möndlur

30 g lint smjör,

4 msk brauðmylsna,

3 msk ólífuolía,

2 msk kapersber,

Pipar og salt.

Hitið bökunarofninn í 200°. Roðflettið flökin, penslið eldfast fat með olíu, leggið flökin í fatið, penslið þau, saltið, piprið, dreifið kapers yfir.

Blandið saman brauðmylsnu, möndlum, krömdum hvítlauknum, smjörinu og pístúinu. Dreifið yfir fiskinn. Bakið þar til skelin verður fallega brún og stökk. Berið strax fram með hrísgrjónum.

Thorskflok-i-pistuskel

Hrísgrjónagrautur

Riz au lait

Fyrir 6-8

Undirbúningur og suða 40 mín, nokkrum klst fyrirfram.

1 lítri mjólk,

150 g sykur,

180 g hrísgrjón,

2 egg,

Vanillustöng eða 1/2 dl appelsínublómadropar,

Salt, svolítið smjör,

Berjasaft.

Takið fram stóran pott, setjið í hann mjólkina, saltið, klofna vanillustöngina og hrísgrjónin. Sjóðið í rúman hálftíma. Smakkið, sjóðið lengur ef þarf. Á meðan þeytið þið eggin með sykrinum. Takið grautinn af plötunni, veiðið vanillustöngina upp úr, hellið eggjahrærunni varlega saman við. Smyrjið litlar skálar, fyllið með graut. Kælið í nokkrar klst.

Hvolfið grautnum á kökudiska eða súpudiska. Gott er að bera fram berjasósu eða saft með honum.

Hindberjasaft:

500 g hindber. Upplagt er að nota freðin hindber

150 g sykur

1 dl appelsínusafi

Safi úr hálfri sítrónu.

Maukið.


Hrisgrjonagrautur


Fleiri nýjar fréttir

KRA_MM2020_krabb-is_banner-hreyfing_1000x538_at2x

8. apr. 2021 : Mottumarsherferðin frá 2020 tilnefnd til Lúðursins

Mottumarsherferðin frá 2020, þar sem Laddi hvatti þjóðina til að hreyfa sig með dyggri aðstoð góðra manna, hefur verið tilnefnd til Lúðursins í flokki kvikmyndaðra auglýsinga í flokki samfélagsauglýsinga. 

Lesa meira
Silla

7. apr. 2021 : „Þetta er ekki aðeins til hins verra.“ Jens Pétur Jensen í Segðu mér á Rás 1

Jens Pétur Jensen fór að finna fyrir óvenjulegum verkjum en hugsaði ekki mikið út í þá. Hann fór sjaldan til læknis og kveinkaði sér aldrei. En þetta var krabbamein. Frá greiningu hefur Jens hins vegar sett sér ákveðin markmið og ákvað að sjá ljósið í myrkrinu. 

Lesa meira
Skógarhlíð

6. apr. 2021 : Covid-19 og nýgengi krabbameina - grein í Læknablaðinu

Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins má finna grein sem er meðal annarra skrifuð af sérfræðingum sem starfa við rannsókna -og skráningarsetur Krabbameinsfélagsins. 

Lesa meira
Screen-Shot-2021-03-31-at-11.18.46

31. mar. 2021 : Mataræði skiptir máli - frábær Mexíkó-fiskréttur frá Sigurveigu

Sigurveig Káradóttir er landsþekkt fyrir fádæma góðan smekk og tilþrif við matreiðslu. Hún var svo væn að leyfa okkur að fá afar girnilega uppskrift að Mexíkó-fiskrétti sem væri frábær á föstudaginn langa. 

Lesa meira

28. mar. 2021 : Kastað í lag til stuðnings starfi Krabba­meins­félagsins

„Mig langar til að láta gott af mér leiða og leggja mitt af mörkum til að styðja öflugt starf Krabbameinsfélagsins“ segir Kristján R. Guðnason sem var að gefa út lagið „Lífsins ljós” sem tileinkað er félaginu og starfi þess.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?