Anna Margrét Björnsdóttir 23. mar. 2023

Margverðlaunuð motta

Viðtal við Jón Baldur Bogason, þátttakanda í Skeggkeppni Mottumars og stjórnarformann Skeggfjelags Reykjavíkur og nágrennis. Söfnunarsíðuna hans í Skeggkeppni Mottumars má nálgast hér.

Mottumars er í fullum gangi og þátttaka í Skeggkeppni Mottumars hefur verið vonum framar. Jón Baldur Bogason skartaði fegurstu mottunni í Skeggkeppni Mottumars árið 2022 að mati dómara, en það má segja að skeggrækt sé sérlegt áhugamál hans. Undir formerkjum Skeggfjelags Reykjavíkur og nágrennis stendur Jón Baldur ásamt fleirum fyrir fyrsta Íslandsmeistaramótinu í skeggvexti laugardaginn 25. mars næstkomandi á Gauknum og rennur allur ágóði af viðburðinum til Krabbameinsfélagsins og Krafts. Við fengum hann til að segja okkur frá skeggheiminum og hvers vegna það er honum hjartans mál að taka þátt í Mottumars með þessum hætti.

Persónuleg tenging við málefnið

„Þetta byrjaði allt með því að bróðir minn greindist með krabbamein 2010. Það var í maí, rétt eftir fyrsta Mottumarsinn,“ segir Jón Baldur. Ingi Björn, bróðir Jóns Baldurs, var með krabbamein í heila og lifði með sjúkdómnum í tíu ár. „Þegar einhver í kringum mann greinist með krabbamein veit maður ekki alveg hvað maður getur gert til að hjálpa. Ég er ekki læknir, en ég get safnað skeggi og safnað áheitum í gegnum Skeggkeppni Mottumars, svo það er það sem ég gerði. Þar byrjaði þetta og svo vatt þetta aðeins upp á sig.“

Það varð úr að Jón Baldur skráði sig til leiks þegar keppnin var haldin í annað sinn og hefur verið árlegur þátttakandi síðan þá. „Bróður mínum fannst þetta geggjað og ætlaði sjálfur að vera með í fyrstu keppninni. Ég hef tekið þátt á hverju ári síðan 2011 og í fyrra hlaut ég titilinn ‚Fegursta mottan‘. Ég rammaði viðurkenninguna inn og hún hangir upp á vegg heima.“ Viðurkenningin er þar í góðum félagsskap, því þar heldur Jón Baldur til haga fjölmörgum verðlaunum sem hann hefur hlotið fyrir að taka þátt í skeggkeppnum um allan heim.

Langaði alltaf að skarta yfirvaraskeggi

Fyrsta skeggkeppnin sem Jón Baldur tók þátt í var í Austin, Texas. „Það var stærsta heimsmeistaramót sem hefur verið haldið. Það er auðvitað allt stærra í Texas og skeggin líka.“ Því næst fór Jón Baldur til Glasgow, Antwerpen og Chicago. Í fyrra gerði hann sér lítið fyrir og sigraði í sínum flokki í skeggkeppni í Bretlandi. „Það er líklega besti árangurinn sem ég hef náð, því þar sigraði ég þann sem vann heimsmeistaramótið í Antwerpen í sama flokki.“ Jón Baldur stefnir því á sigur á heimsmeistaramótinu í Burghausen í sumar. „Ef ég klæði mig rétt gæti ég náð fyrsta sætinu, en verð sáttur með að hafna í einu af þremur efstu sætunum.“

Þótt Mottumars afmarkist við einn mánuð ársins, blundaði í Jóni Baldri áhugi á að skarta mottunni allan ársins hring. „Innst inni langaði mig alltaf að vera með yfirvaraskegg, en ég þorði því ekki. Ég hafði áhyggjur af því að fólk myndi dæma mig. Ég vildi ekki vera skrítni kallinn með yfirvaraskegg, en svo er ég bara orðinn sá gaur,“ segir Jón Baldur og hlær. „Það eru líka kannski ennþá smá fordómar sem fylgja skeggræktinni. Margir eru þeirrar skoðunar að það sé snyrtilegra að halda skegginu í styttri kantinum. Vel hirt skegg eiga hins vegar fullan rétt á sér og eru mjög snyrtileg.“

Samfélag sem lætur gott af sér leiða

Í skeggheiminum safnast saman fólk alls staðar að úr heiminum sem er á sama máli og á skeggkeppnum ríkir alveg einstök stemning. Þar hefur Jón Baldur kynnst öðrum áhugamönnum um skeggræktun sem eiga margt annað sameiginlegt heldur en bara skeggvöxtinn. „Á keppninni í Chicago kynntist ég til dæmis fullt af öðrum samkynhneigðum, skeggjuðum mönnum sem héldu hópinn og var mikið með þeim. Ég hef ekki passað neitt sérstaklega inn í aðrar senur og fattaði ekki alveg þegar annað fólk var að tala um að finna sitt samfélag. En svo bara fann ég mig svolítið í þessum skeggheimi og fattaði að þetta er það sem fólk er að leitast eftir.“

Fyrir utan samfélagið og stemninguna sem ríkir á keppnum erlendis, er markmiðið með keppnunum líka að leggja góðu málefni lið. „Þegar ég komst að því að fólk væri að keppa í skeggvexti og fór að kynna mér málið, áttaði ég mig á því að þetta er líka góðgerðarstarfsemi. Allar þær keppnir sem ég veit um safna fé sem rennur til málaflokka sem tengjast karlmönnum með einum eða öðrum hætti.“ Jón Baldur telur brýnt að tala til karla með þeim hætti sem gert er í Mottumars og víðar. „Já, við erum svo þrjóskir, það er dálítið mikið vandamálið. Það þarf að breyta því og það tekur svo ótrúlega langan tíma, en við bara höfum ekki þann tíma.“

Íslandsmeistaramótið í skeggvexti

Nú langar Jóni Baldri að efla skeggmenningu Íslendinga og nýta kraftinn sem felst í samfélagi af þessu tagi til góðra verka hérlendis með Íslandsmeistaramóti í skeggvexti. „Stefnan er að þetta verði árlegur viðburður. Keppt verður í fjórum flokkum, sem er aðeins minna en gengur og gerist erlendis. Við viljum auðvitað hafa fleiri flokka, en til að byrja með ætlum við að hafa þetta einfalt.“ Áhuginn er sannarlega til staðar, en 20 keppendur hafa skráð sig til þátttöku, þar af þrjár konur sem keppa í flokknum Skegg með frjálsri aðferð. Sjálfur ætlar Jón Baldur að öllum líkindum að gegna hlutverki kynnis. „Ég er auðvitað að halda keppnina og þekki þar af leiðandi alla dómarana, svo það gengi ekki alveg upp að vera líka þátttakandi.“

Flottasta mottan

Áður en við kveðjum Jón Baldur er ekki úr vegi að hlera hjá honum hver skarti flottustu mottunni í bransanum. „Tom Selleck er auðvitað klassískt svar, en ég vil vekja athygli á Jeff Bittner frá New Jersey. Hann er tónlistarmaður og hljómsveitarstjórnandi og skartar algjörlega brjálaðri mottu. Ég væri alveg til í að vera með jafn flotta mottu og hann.“

Krabbameinsfélagið þakkar Jóni Baldri fyrir viðtalið og stuðninginn í gegnum árin, en söfnunarsíðuna hans í Skeggkeppni Mottumars má nálgast hér. Fjölmennum á Íslandsmeistaramótið í skeggvexti laugardaginn 25. mars á Gauknum, hvetjum flottustu mottur landsins til dáða og styrkjum gott málefni í leiðinni!


Fleiri nýjar fréttir

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?