Jóhanna Eyrún Torfadóttir 12. nóv. 2019

Margfaldur ávinningur af jurtafæði - málþing næsta föstudag

15. nóvember í Veröld, húsi Vigdísar frá kl. 15:00 til 16:40. Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Einn af hverjum fjórum telur að ekkert sé hægt að gera til að koma í veg fyrir krabbamein samkvæmt árlegri skoðanakönnun sem Félag bandarískra krabbameinslækna lætur framkvæma meðal almennings (um 4000 þátttakendur). Rannsóknir síðustu áratuga sýna þó að þetta er ekki rétt og vitað er að hægt er að koma í veg fyrir 30-50% krabbameina með lífsstíl.

Nýleg heilbrigðiskönnun á vegum Gallup sýnir 80% Íslendinga hafa mikinn eða nokkurn áhuga á að breyta lifnaðarháttum á komandi ári. Þegar spurt var hvað viðkomandi myndi helst vilja gera ef aðeins ætti að gera eina breytingu á lifnaðarháttum kom í ljós að 42% vilja hreyfa sig meira og 30% vilja betra mataræði.

Ráðleggingar um mataræði á vegum Embættis landlæknis hafa það að markmiði að landsmenn fái öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast. Ef við fylgjum þessum ráðleggingunum þá minnkum við einnig líkur á mörgum lífsstílsjúkdómum. Í grunninn snúast þessar ráðleggingar um að borða meira úr jurtaríkinu, þ.e. grænmeti, ávexti, baunir, linsur og heilkornavörur eins og hafra, rúg, bygg og heilhveiti. Á móti er mælt með að takmarka neyslu á rauðu kjöti og þá sérstaklega unnum kjötvörum.

Fæðumynstur „flexitarian“ sem getur haft jákvæð áhrif

Nýverið birtist grein í Lancet eftir alþjóðlegan vísindahóp sem kallast EAT. Þessi hópur hefur á undanförnum 3 árum unnið að því að reikna út hvernig þjóðir heims geta tekist á við aðkallandi vandamál tengd fæðuframboði, kolefnisfótspori matvælaframleiðslu, mataræðistengdum lífsstílsjúkdómum og ótímabærum dauðsföllum (þ.e. að látast fyrir 75 ára aldur). Á Íslandi er staðan núna þannig að krabbamein er algengasta orsök ótímabærra dauðsfalla.

Áðurnefndur EAT-hópur hefur sett fram tillögu að fæðumynstri sem getur haft jákvæð áhrif á þær áskoranir sem við stöndum nú frammi fyrir hvað varðar mataræði og heilsu og einnig til að draga úr losun gróðurhúslofttegunda. Þetta fæðumynstur, þar sem lögð er enn ríkari áhersla en áður á að minnka kjötneyslu og auka á móti verulega neyslu á fæðutegundum úr jurtaríkinu, kallast „flexitarian“.

Könnun á áhrifaþáttum krabbameina – kjöt, ávextir og grænmeti

Lengi hefur verið vitað að neysla á rauðu kjöti eykur líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi. Það sama á við um litla neyslu á ávöxtum, grænmeti og öðru trefjaríku fæði. Svo virðist sem að margir séu ekki upplýstir um þessa staðreynd.

Í könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Krabbameinsfélagið í apríl á þessu ári meðal tilviljunarkennds úrtaks úr Þjóðskrá (840 svarendur) kom fram að einungis 17% töldu að mikil neysla á rauðu kjöti hafi áhrif á líkurnar á krabbameini. Mun fleiri eða 44% töldu að þessi áhrif væru lítil. Einnig voru 12% þátttakenda sem töldu að mikil neysla á rauðu kjöti hefði engin áhrif á líkurnar að fá krabbamein.

Nokkuð svipað var uppá teningnum þegar spurt var hvort viðkomandi teldi að lítil neysla á ávöxtum og grænmeti hefði áhrif á líkurnar á að fá krabbamein en einungis um 19% þátttakenda töldu að lítil neysla hefði mikil áhrif á líkurnar á krabbameini.

Málþing næsta föstudag – 15. nóvember í Veröld, húsi Vigdísar kl. 15:00

Föstudaginn 15. nóvember verður haldið málþing á vegum Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands þar sem sérfræðingar munu fjalla um næringartengda nýsköpun. Markmiðið með málþinginu er fjalla um stöðu mála og finna leiðir til að stuðla að breytingum sem eru jákvæðar bæði fyrir heilsu og okkar og fyrir umhverfið.

Aðgangur á málþingið er ókeypis. Allir velkomnir. Skráning fer fram hér.


Fleiri nýjar fréttir

27. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023

Gullsmiðirnir Lovísa Halldórsdóttir (by lovisa) og Unnur Eir Björnsdóttir (EIR) eru hönnunarteymið á bak við Bleiku slaufuna í ár. Það er óhætt að segja að þeim hafi tekist ætlunarverk sitt, en slaufan í ár er sú bleikasta sem við höfum séð lengi

Lesa meira

26. sep. 2023 : "Mikilvægt að segja líka frá því sem gengur vel"

Styttri legutími, skjótari bati, lægri dánartíðni og betri lifun. Ný aðferðafræði við skurðaðgerðir við lungnakrabbameini var tekin upp nærri því á einni nóttu og hefur gefið reglulega góða raun í baráttunni gegn lungnakrabbameini. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir og Viktor Ásbjörnsson læknanemi segja hér frá byltingarkenndri þróun í skurðaðgerðum við lungnakrabbameini og mikilvægi rannsókna og stuðnings við þær fyrir framþróun í málaflokkinum. 

Lesa meira

26. sep. 2023 : Takk fyrir komuna

Nýafstaðið málþing í tilefni af alþjóðadegi krabbameinsrannsókna vakti greinilega forvitni margra, því húsfyllir var í Skógarhlíðinni auk þess sem fjölmargir fylgdust með í streymi. Krabbameinsfélagið vill koma á framfæri kærum þökkum til allra sem tóku þátt.

Lesa meira
Elísa Dögg Björnsdóttir frá TVG-Zimsen, Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður markaðsmála og  fjáröflunar hjá Krabbameinsfélaginu og Magnús Ingi Guðmundsson frá IDÉ House of brands, sem sér um framlei

25. sep. 2023 : Nú er það bleikt!

Að baki átaki eins og Bleiku slaufunni búa fjölmörg handtök og undirbúningur hefst mörgum mánuðum áður en afurðin berst landsmönnum í hendur og hjörtu. Það er því alltaf stór stund þegar við fáum sjálfa slaufuna í hús og niðurtalningin fyrir upphaf átaksins hefst formlega.

Lesa meira

12. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023: Komdu að leika

Krabbameinsfélagið leitar að fólki til að hjálpa okkur að búa til auglýsinguna fyrir Bleiku Slaufuna 2023. Auglýsingin er með stærra sniði í ár og þurfum við því aðstoð sem allra flestra.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?