Ása Sigríður Þórisdóttir 20. sep. 2021

Mannslíf í húfi

Grein birtist í Skoðun á Visir.is 18. september 2021.

  • Halla Þorvaldsdóttir
    Halla Þorvaldsdóttir er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands

Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi getur bjargað að minnsta kosti 6 mannslífum á ári og fækkað þannig umtalsvert þeim 28 dauðsföllum sem verða að meðaltali á hverju ári hér á landi hjá fólki á aldrinum 50 - 74 ára.

Hér á landi teygjum við okkur mjög langt til að bjarga mannslífum. Eitt af því sem hér hefur verið gert er að bjóða upp á skimanir fyrir brjósta- og leghálskrabbameini. Það hefur verið gert í áratugi, með mjög góðum árangri. Áætlað er að skimun fyrir leghálskrabbameini hafi komið í veg fyrir dauðsföll 430 kvenna á árunum 1972 - 2018.

Því miður skortir á að við teygjum okkur nægilega langt til að koma í veg fyrir krabbamein í ristli og endaþarmi. Í nýrri grein sérfræðinga Krabbameinsfélagsins og fleiri í Læknablaðinu er farið yfir hvernig skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi mun lækka nýgengi þessara meina og fækka dauðsföllum. Með skimun fyrir þessum meinum er hægt að bjarga að minnsta kosti 6 mannslífum á ári og fækka þannig umtalsvert þeim 28 dauðsföllum sem verða að meðaltali á hverju ári hér á landi hjá fólki á aldrinum 50 – 74 ára. Að auki léttir skimunin krabbameinsmeðferð margra.

Öll Norðurlöndin nema Færeyjar hafa þegar innleitt þessa skimun. Hún hefur verið til umræðu, að því er virðist ágreiningslaust á Alþingi í 20 ár. Fjármagni hefur verið veitt til verkefnisins en samt er skimunin ekki hafin.

Svör stjórnvalda hafa í mörg ár verið á þann veg að verið sé að undirbúa skimunina og hún sé alveg að fara í gang. Engar fréttir berast af framgangi málsins og við fyrirspurnum Krabbameinsfélagsins til heilbrigðisráðuneytisins berast engin svör.

Krabbameinum mun fjölga um 28% á næstu 15 árum, fyrst og fremst vegna þess að þjóðin er að eldast. Krabbameinsmeðferð krefst mikils af þeim sem veikjast og aðstandendum þeirra og er kostnaðarsöm fyrir samfélagið. Ekki þarf að orðlengja frekar að til mjög mikils er að vinna að nýta allar leiðir til að vinna gegn krabbameinum.

Skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi er mjög brýnt verkefni sem einfaldlega er ekki hægt að bíða með lengur. Fjöldi mannslífa er í húfi.


Halla Þorvaldsdóttir,
framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

  • Grein birtist í Skoðun á Visir.is 18. september 2021.

 


Fleiri nýjar fréttir

1. mar. 2024 : Við erum að kalla þig út, kall!

Við fögnum framförum í greiningu og meðferð en best er auðvitað ef hægt er að koma í veg fyrir krabbamein. Vísindin vísa okkur leiðina og rannsóknir sýna að 30 til 40% krabbameina tengjast lífsstíl. Það þýðir að ýmsar lífsvenjur, t.d. tóbaksnotkun, áfengisneysla, hreyfingarleysi, mataræði og fleiri þættir geta haft áhrif á líkurnar á ákveðnum tegundum krabbameina.

Lesa meira

29. feb. 2024 : Köllum kalla þessa lands út!

Mottumars, árlegt árvekni- og fjáröflunarátak tileinkað krabbameinum hjá körlum hefst í dag. Kallaútkall er yfirskrift átaksins í ár þar sem lögð er áhersla á forvarnargildi hreyfingar. Regluleg hreyfing dregur úr hættunni á krabbameinum, en allt of margir karlmenn hreyfa sig ekki nóg til að njóta þessara verndandi áhrifa. Það þarf ekki nema örfáar mínútur af hreyfingu á dag til að ná fram jákvæðum áhrifum.

Lesa meira

28. feb. 2024 : Upp með sokkana og í Mottumarshlaupið 2024

Komdu með í fyrsta Mottumarshlaup Krabbameinsfélagsins sem haldið verður á hlaupársdeginum 29. febrúar. Við lofum stuði og stemmningu um leið og við hreyfum okkur til stuðnings góðum málstað!

Lesa meira

27. feb. 2024 : Sjöunda árið í röð fær forsetinn fyrsta parið

Forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni hefur frá árinu 2018 verið afhent fyrsta parið af Mottumarssokkunum sem seldir eru til styrktar Krabbameinsfélaginu í Mottumars, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki sem tileinkað er krabbameinum hjá körlum. Forsetinn hefur sýnt verkefninu ómetanlegan stuðning í gegnum árin.

Lesa meira

27. feb. 2024 : Mottumarssokkarnir hannaðir af AS WE GROW

Það eru þær Gréta Hlöðversdóttir, Snæfríð Þorsteins og Kamilla Henriau sem eru hugmyndasmiðirnir og hönnuðirnir á bakvið sokkana sem eru einstaklega fallegir. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?