Ása Sigríður Þórisdóttir 20. sep. 2021

Mannslíf í húfi

Grein birtist í Skoðun á Visir.is 18. september 2021.

  • Halla Þorvaldsdóttir
    Halla Þorvaldsdóttir er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands

Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi getur bjargað að minnsta kosti 6 mannslífum á ári og fækkað þannig umtalsvert þeim 28 dauðsföllum sem verða að meðaltali á hverju ári hér á landi hjá fólki á aldrinum 50 - 74 ára.

Hér á landi teygjum við okkur mjög langt til að bjarga mannslífum. Eitt af því sem hér hefur verið gert er að bjóða upp á skimanir fyrir brjósta- og leghálskrabbameini. Það hefur verið gert í áratugi, með mjög góðum árangri. Áætlað er að skimun fyrir leghálskrabbameini hafi komið í veg fyrir dauðsföll 430 kvenna á árunum 1972 - 2018.

Því miður skortir á að við teygjum okkur nægilega langt til að koma í veg fyrir krabbamein í ristli og endaþarmi. Í nýrri grein sérfræðinga Krabbameinsfélagsins og fleiri í Læknablaðinu er farið yfir hvernig skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi mun lækka nýgengi þessara meina og fækka dauðsföllum. Með skimun fyrir þessum meinum er hægt að bjarga að minnsta kosti 6 mannslífum á ári og fækka þannig umtalsvert þeim 28 dauðsföllum sem verða að meðaltali á hverju ári hér á landi hjá fólki á aldrinum 50 – 74 ára. Að auki léttir skimunin krabbameinsmeðferð margra.

Öll Norðurlöndin nema Færeyjar hafa þegar innleitt þessa skimun. Hún hefur verið til umræðu, að því er virðist ágreiningslaust á Alþingi í 20 ár. Fjármagni hefur verið veitt til verkefnisins en samt er skimunin ekki hafin.

Svör stjórnvalda hafa í mörg ár verið á þann veg að verið sé að undirbúa skimunina og hún sé alveg að fara í gang. Engar fréttir berast af framgangi málsins og við fyrirspurnum Krabbameinsfélagsins til heilbrigðisráðuneytisins berast engin svör.

Krabbameinum mun fjölga um 28% á næstu 15 árum, fyrst og fremst vegna þess að þjóðin er að eldast. Krabbameinsmeðferð krefst mikils af þeim sem veikjast og aðstandendum þeirra og er kostnaðarsöm fyrir samfélagið. Ekki þarf að orðlengja frekar að til mjög mikils er að vinna að nýta allar leiðir til að vinna gegn krabbameinum.

Skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi er mjög brýnt verkefni sem einfaldlega er ekki hægt að bíða með lengur. Fjöldi mannslífa er í húfi.


Halla Þorvaldsdóttir,
framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

  • Grein birtist í Skoðun á Visir.is 18. september 2021.

 


Fleiri nýjar fréttir

21. okt. 2021 : Fjölsótt málþing skorar á heil­brigðis­yfir­völd að setja brjósta­heilsu í for­gang

Málþing um brjóstakrabbamein fór fram miðvikudaginn 20. október að viðstöddu fjölmenni. Auk þess var fylgst með dagskránni í gegnum streymisveitu Krabbameinsfélagsins á ríflega 100 stöðum um land allt.

Lesa meira

21. okt. 2021 : Tengsl milli mataræðis á unglingsárum og brjóstakrabbameins

Nýverið birtist íslensk vísindagrein í American Journal of Epidemiology um áhrif vaxtarhraða á unglingsárunum á áhættuna að greinast með krabbamein í brjóstum og í blöðruhálskirtli síðar á ævinni.

Lesa meira

15. okt. 2021 : Bleiki dagurinn er í dag

Við finnum fyrir mikilli stemmningu í samfélaginu fyrir deginum og til að mynda hafa fjölmörg fyrirtæki komið við hjá okkur og keypt slaufur, sokka, fánalengjur, blöðrur og servíettur fyrir Bleika kaffið.

Lesa meira

14. okt. 2021 : VERUM TIL - mál­þing um brjósta­krabba­mein

Bleikt málþing um brjóstakrabbamein fer fram miðvikudaginn 20. október kl. 17:00-18:15 á vegum Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna,Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. 

Lesa meira
Halla Þorvaldsdóttir

14. okt. 2021 : Lífið breytir um lit

Bleikur október er runninn upp. Það er táknrænt að skipta um lit í október, í mánuðinum sem helgaður er krabbameinum hjá konum, því oftar en ekki er það líkast því að lífið skipti um lit þegar fólk greinist með krabbamein.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?