Ása Sigríður Þórisdóttir 20. sep. 2021

Mannslíf í húfi

Grein birtist í Skoðun á Visir.is 18. september 2021.

  • Halla Þorvaldsdóttir
    Halla Þorvaldsdóttir er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands

Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi getur bjargað að minnsta kosti 6 mannslífum á ári og fækkað þannig umtalsvert þeim 28 dauðsföllum sem verða að meðaltali á hverju ári hér á landi hjá fólki á aldrinum 50 - 74 ára.

Hér á landi teygjum við okkur mjög langt til að bjarga mannslífum. Eitt af því sem hér hefur verið gert er að bjóða upp á skimanir fyrir brjósta- og leghálskrabbameini. Það hefur verið gert í áratugi, með mjög góðum árangri. Áætlað er að skimun fyrir leghálskrabbameini hafi komið í veg fyrir dauðsföll 430 kvenna á árunum 1972 - 2018.

Því miður skortir á að við teygjum okkur nægilega langt til að koma í veg fyrir krabbamein í ristli og endaþarmi. Í nýrri grein sérfræðinga Krabbameinsfélagsins og fleiri í Læknablaðinu er farið yfir hvernig skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi mun lækka nýgengi þessara meina og fækka dauðsföllum. Með skimun fyrir þessum meinum er hægt að bjarga að minnsta kosti 6 mannslífum á ári og fækka þannig umtalsvert þeim 28 dauðsföllum sem verða að meðaltali á hverju ári hér á landi hjá fólki á aldrinum 50 – 74 ára. Að auki léttir skimunin krabbameinsmeðferð margra.

Öll Norðurlöndin nema Færeyjar hafa þegar innleitt þessa skimun. Hún hefur verið til umræðu, að því er virðist ágreiningslaust á Alþingi í 20 ár. Fjármagni hefur verið veitt til verkefnisins en samt er skimunin ekki hafin.

Svör stjórnvalda hafa í mörg ár verið á þann veg að verið sé að undirbúa skimunina og hún sé alveg að fara í gang. Engar fréttir berast af framgangi málsins og við fyrirspurnum Krabbameinsfélagsins til heilbrigðisráðuneytisins berast engin svör.

Krabbameinum mun fjölga um 28% á næstu 15 árum, fyrst og fremst vegna þess að þjóðin er að eldast. Krabbameinsmeðferð krefst mikils af þeim sem veikjast og aðstandendum þeirra og er kostnaðarsöm fyrir samfélagið. Ekki þarf að orðlengja frekar að til mjög mikils er að vinna að nýta allar leiðir til að vinna gegn krabbameinum.

Skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi er mjög brýnt verkefni sem einfaldlega er ekki hægt að bíða með lengur. Fjöldi mannslífa er í húfi.


Halla Þorvaldsdóttir,
framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

  • Grein birtist í Skoðun á Visir.is 18. september 2021.

 


Fleiri nýjar fréttir

27. mar. 2023 : Stuðningur í verki

Viðtal við hjónin Hildi Ýr Kristinsdóttur og Helga Rúnar Bragason, þátttakanda í Skeggkeppni Mottumars og heiðursfélaga Round Table Ísland. Söfnunarsíðu Helga Rúnars í Skeggkeppni Mottumars má nálgast hér.

Lesa meira

27. mar. 2023 : Krabbameinsfélagið á ferð og flugi

Eitt af verkefnum Krabbameinsfélagsins er að sinna fræðslu og forvarnarstarfi, en vinnustöðum og fyrirtækjum stendur til boða að fá fræðsluerindi fyrir starfsmannahópa frá sérfræðingum félagsins. 

Lesa meira

25. mar. 2023 : Svona nýtist þinn stuðningur

Krabbameinsfélaginu er ekkert óviðkomandi þegar kemur að krabbameinum. Starfsemi og þjónusta félagsins er fyrir alla en í Bleiku slaufunni í október er athyglinni beint að krabbameinum hjá konum og í Mottumars að krabbameinum hjá körlum með áherslu á forvarnir og fræðslu af ýmsu tagi.

Lesa meira

25. mar. 2023 : Örþing Krabba­meins­félags­ins í tilefni Mottumars

Á Mottudeginum 31. mars stendur Krabbameinsfélagið fyrir málþingi sem ber yfirskriftina „Ekki humma fram af þér heilsuna!“ 

Lesa meira

24. mar. 2023 : Einstakrar konu minnst

Í dag er kvödd frá Hallgrímskirkju Gunnhildur Óskarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið HÍ og stofnandi samtakanna Göngum saman. Með Gunnhildi er gengin einstök kona sem skildi mikið eftir sig. Það er mikill sjónarsviptir að Gunnhildi víða í samfélaginu en mestur er auðvitað missir fjölskyldu Gunnhildar. Hjá Krabbameinsfélaginu er Gunnhildar minnst með mikilli hlýju og virðingu og aðstandendum Gunnhildar sendir félagið innilegar samúðarkveðjur.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?