Guðmundur Pálsson 20. apr. 2022

„Manna­mál”: Nám­skeið sem þátt­takendur mæla hik­laust með

Vel heppnuðu námskeiði fyrir karla sem eru með krabbamein eða hafa fengið krabbameinsmeðferð er nýlokið. Tólf þátttakendur tóku þátt og var upplifun þeirra mjög jákvæð.

Tilgangur námskeiðsins er að karlar fái tækifæri til að hitta aðra karla í svipuðum sporum, samhliða því að fá fræðslu og kynningu á ýmsum bjargráðum sem gætu verið hagnýt fyrir karla við þessar aðstæður.

Þetta var í fyrsta sinn sem námskeiðið, sem bar heitið „Mannamál - Karlar og krabbamein” var haldið en það fór fram í tengslum við Mottumars; árlegt átak Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum.

Fyrirmynd námskeiðsins er námskeiðið „Mín leið að lokinni meðferð við brjóstakrabbameini” sem hefur boðist konum undanfarin ár.

Námskeiðið, sem hófst 7. mars, var vikulega í fjögur skipti og tóku tólf karlar þátt. Umsjón með námskeiðinu hafði Þorri Snæbjörnsson sálfræðingur en ásamt honum komu margir leiðbeinendur að námskeiðinu.

Góð viðbrögð þátttakenda

Í lok námskeiðsins voru þátttakendur beðnir um að leggja mat á námskeiðið. Þar kom m.a. fram að þeim þótti gagnlegt að hitta menn sem höfðu gengið í gegnum svipaða hluti, gott hefði verið að deila sinni reynslu og gagnlegt að heyra af reynslu annarra.

Einnig var það mat þátttakenda að námskeiðið hefði í heildina verið gott og upplýsingar og stuðningur sem veittur var hafi verið góður.

Takk fyrir gott námskeið, mæli hiklaust með þessu námskeiði fyrir aðra í svipuðum sporum. (Umsögn þátttakanda).

Bláalónsferð í bónus

Bláa lónið hefur verið dyggur bakhjarl Krabbameinsfélagsins í fjölmörgum verkefnum á undanförnum árum og svo var einnig nú. Í lok námskeiðsins voru allir þátttakendur leystir út með veglegum gjafapakka frá Bláa lóninu sem innihélt margvíslegar húðvörur úr þeirra einstöku vörulínu sem innihalda m.a. lífvirk efni úr lóninu.

Að þeirri afhendingu lokinni var haldið í sannkallaða ævintýraferð í lónið sjálft. Þar var tekið á móti hópnum með pompi og prakt og boðið upp á allt það besta sem staðurinn hefur upp á að bjóða. Heimsóknin endaði svo í magnaðri sælkeraupplifun í einstöku umhverfi Lava Restaurant.

Færum við Bláa lóninu bestu kveðjur og þakklæti fyrir að reka svona notalegt smiðshögg á námskeiðið.

Matur_1650460869718

Hér má sjá hluta hópsins sitja að snæðingi í einstöku umhverfi Lava Restaurant.


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?