Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 25. sep. 2020

Maður þarf ekki að vera fagaðili til að geta hjálpað

Þegar manneskja greinist með krabbamein fer veröldin á hvolf og svo margt breytist. Ekki bara hjá hinum nýgreinda heldur líka hjá aðstandendum. 

Áherslurnar verða aðrar og nærsamfélagið getur gert ýmislegt til að létta undir með hinum nýgreinda og fjölskyldu hans. 

Krabbameinsfélagið hefur síðustu misseri eflt faglega þjónustu á landsbyggðinni í samstarfi við aðildarfélög, bæjarfélög og heilbrigðisstofnanir. Nú er ráðgjöf veitt á fjórum stöðum á landinu auk höfuðborgarsvæðisins: Akureyri, Austurlandi, Selfossi og á Suðurnesjum. 

„Maður þarf ekki að vera fagaðili til þess að geta hjálpað. Litlu hlutirnir geta skipt alveg ótrúlega miklu máli,“ segir Eva Íris Eyjólfsdóttir, sérfræðingur í málefnum aðildarfélaga Krabbameinsfélagsins. Hún bendir á bæklinginn Léttu þér lífið ílyfjameðferð sem hefur að geyma góð ráð til þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. 

Bæklingurinn er að erlendri fyrirmynd, tekinn saman af sérfræðingum Krabbameinsfélagsins en byggist einnig á reynslu Íslendinga. Eva Íris Eyjólfsdóttir, sérfræðingur í málefnum aðildarfélaga Krabbameinsfélagsins. Bæklingurinn liggur frammi hjá félaginu og aðildarfélögum um allt land en hann má einnig finna á heimasíðu félagsins krabb.is. 

„Ef spurningar vakna hvet ég fólk til að hafa samband og fá ráðgjöf um hvernig hver og einn getur orðið að liði. Með stuðningi vina og ættingja er oft hægt að minnka þörf fyrir sérhæfðari aðstoð,“ segir Eva. 

Aðildarfélög Krabbameinsfélagsins starfa um allt land í þeim tilgangi að styðja við fólk í heimabyggð sinni. Sum eru með blómlegt starf þar sem sjúklingar og fjölskyldur þeirra hittast. Önnur einbeita sér að því að veita fjárhagslegan stuðning þegar sjúklingar þurfa til dæmis að ferðast langa leið í krabbameinsmeðferðir. 

„Margt smátt gerir eitt stórt og saman getum við gert þessi erfiðu ár örlítið einfaldari fyrir fjölskyldur sem þurfa að takast á við krabbamein,“ segir Eva að lokum.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021.Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?