Lára G. Sigurðardóttir læknir og fræðslustjóri KÍ 31. ágú. 2016

Líkamsfita eykur hættu á krabbameini í 13 líffærum

Af íbúum jarðar eru um 640 milljónir fullorðnir offeitir og 110 milljónir barna og unglinga (tölur frá árinu 2014), þ.e. eru með líkamsþyngdarstuðul (BMI, Body-Mass Index) 30 og yfir. Líkamsþyndarstuðull er reiknaður sem líkamsþyngd deilt með hæð í öðru veldi. Tíðni offitu hefur sexfaldast síðan 1975 eða á 40 árum og hefur orsök offitufaraldsins verið rakin til sykurbættra gosdrykkja og sætinda ásamt hreyfingarleysi.

Í vísindaheiminum er tiltölulega stutt síðan of mikil líkamsfita var tengd við krabbamein, enda þurfa oft tugi ára að líða frá því að krabbameinsfrumur byrja að myndast og þangað til hægt er að greina það. Það var svo árið 2002 að Alþjóðakrabbameinsrannsóknarstofnunin (IARC) gaf út yfirlýsingu um að of mikil líkamsfita væri ein af þekktum orsökum krabbameina í fimm líffærum. Stóra fréttin er sú að í síðustu viku bættust átta líffæri í hópinn þannig að nú er of mikil líkamsfita þekkt orsök krabbameina í þrettán líffærum: ristli, vélinda, nýr­um, brjóst­um eft­ir tíðahvörf, legi, maga, lif­ur, gall­blöðru, briskirtli, eggja­stokkum, skjald­kirtli, mer­gæxlum og himnuæxlum í heila. Niðurstöðurnar voru byggðar á yfir eitt þúsund faraldsfræðirannsóknum.

Þeir sem lifa mjög heilbrigðu lífi geta einnig greinst

Mikilvægt er samt að átta sig á því að margir sem lifa fullkomlega heilbrigðu lífi geta einnig greinst með krabbamein og það er aldrei hægt að yfirfæra þessar niðurstöður á einstakling. Við getum sjaldnast sagt til um af hverju ákveðinn einstaklingur greindist með krabbamein en ekki annar, heldur eru þessar rannsóknir einungis skoðaðar út frá líkindum hjá hópum sem eru með misháan líkamsþyngdarstuðul. Eins er, að þó svo að fólk með háan líkamsþyngdarstuðul sé í aukinni hættu þá eru flestir sem greinast ekki með þessi krabbamein.

Að nálgast tóbaksreykingar

Með þessari frétt er offita að nálgast tóbaksreykingar sem er þekkt orsök í sautján líffærum. Ekki er þó hægt að setja ofþyngd og offitu í sama flokk og reykingar hvað varðar áhættu á krabba·meini, því um sjötíu krabba­meinsvald­andi efni finnast í síga­rett­ur·eyk en sam·band offitu og krabba­meins er flókn­ara og áhrif·in oft­ast væg­ari. Við offitu truflast efnaskipta- og innkirtlastarfsemi líkamans. Sem dæmi þá framleiðir fituvefur hjá konum eftir tíðahvörf estrógen sem tengist áhættu á krabbameini í legi og brjóstakrabbameini eftir barneignaaldur. Við of mikla líkamsfitu myndast bólguástand í líkamanum og er það talið eiga þátt í myndun krabbameina.

Nauru-íbúar og vestrænt fæði

En hvað er til ráða? Það erum við samfélagið sem sköpum þessar aðstæður í flestum tilfellum. Gosdrykkir, sælgætisát, skyndibitafæði og hreyfingaleysi er helsta ástæða offitufaralds í vestrænum löndum. Gott dæmi um það er eyjan Nauru í Kyrrahafi. Íbúar Nauru voru við góða heilsu fyrir árið 1980, þeir lifðu á sjávarfangi, ávöxtum og rótargrænmeti ásamt því að vera duglegir í garðrækt. Eftir að efnahagurinn vænkaðist fluttu þeir inn í auknum mæli vestrænt skyndibitafæði og tóku upp kyrrsetulífsstíl. Nú eru 94,5% íbúa of þungir eða of feitir og 31% með áunna sykursýki.

Samfélagið þarf að vinna saman

Það er enginn einn sem breytir þróun offitufaraldsins og áhættu okkar á að fá krabbamein en við sem samfélag getum skapað umhverfi sem gerir okkur auðveldara að taka ákvarðanir sem leiða til heilbrigðs lífs og hjálpar þeim sem veikst hafa að ná aftur heilsu. Það er meðal efnis sem rætt verður á Fundi fólksins í Norræna húsinu föstudaginn 2. september kl.13:30. Allir velkomnir.

Sjá frétt á mbl og fróðleik um krabbamein á vef Krabbameinsfélagsins.


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?