Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 31. jan. 2020

Leitarstöð Krabbameinsfélagsins hættir

  • Halla Þorvaldsdóttir er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að færa framkvæmd skimana frá Krabbameinsfélaginu í árslok 2020 til ríkisins; til heilsugæslunnar (fyrir leghálskrabbameinum) og til Landspítala (fyrir brjóstakrabbameinum). 

Ekki liggur fyrir ákvörðun um fyrirkomulag á utanumhaldi um gagnagrunn, boðunum í skimanir, uppgjöri þeirra og hvar frumurannsóknarstofu verði fyrir komið. Ákvarðanir ráðherra byggja að hluta til á tillögum skimunarráðs sem skilað var snemma árs og minnisblaði Embættis landlæknis, en eru að hluta til aðrar. 

Umræða um að færa skimunina til opinberra stofnana hefur skapað aukna óvissu í rekstri verkefnisins og valdið starfsfólki Krabbameinsfélagsins miklu álagi. Við skimanirnar starfar sérhæft fagfólk sem sinnir verkefninu af miklum metnaði og hollustu, þrátt fyrir mikla óvissu um framtíðina. 

Mikilvægt að skimanir verði ein eining 

„Krabbameinsfélagið leggst ekki gegn því að starfsemin verði flutt til opinberra stofnana. Félagið hefur hins vegar talað fyrir því að starfsemin verði ekki aðskilin, heldur rekin áfram í einni einingu sem skapar mikla þekkingarlega samlegð, er hagkvæm rekstrarlega og að auki eingöngu með fókus á skimanir,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. 

Sérstaða Leitarstöðvarinnar 

Á hverju ári koma á Leitarstöðina um 2000 konur sem eiga lögheimili á landsbyggðinni í skimun fyrir leghálskrabbameini og um 3000 konur sem eiga lögheimili á landsbyggðinni í skimun fyrir brjóstakrabbameini. Talsverður hluti kvenna sem tekur þátt í skimun fyrir brjóstakrabbameini, eða 30%, nýtir sér að geta farið í skimun fyrir leghálskrabbameini í sömu heimsókn. 

Þátttaka í skimun hefur aukist 

Krabbameinsfélagið hefur sinnt skimunum fyrir ríkið af metnaði. Þjónustukönnun sem Maskína vann fyrir Leitarstöðina síðastliðið vor leiddi í ljós að 94% kvenna þótti viðmót starfsfólk mjög gott eða fremur gott, 90% kvenna sögðu almenna upplifun sína af komu á Leitarstöðina mjög góða eða frekar góða, 91% kvenna taldi sig fá mjög eða fremur fullnægjandi svör við spurningum sínum hjá starfsfólki Leitarstöðvar, 87% kvenna þótti aðstaðan á Leitarstöðinni mjög góð eða frekar góð og 96% kvenna þótti tími heimsóknar á Leitarstöðina hæfilegur. 

Þungar áhyggjur af bið á Brjóstamiðstöð Landspítalans

Áskorun um styttingu biðtíma Þátttakendur á málþingi Krabbameinsfélagsins um brjóstakrabbamein í október 2019 sendu framkvæmdastjórn Landspítala og heilbrigðisráðherra áskorun um að finna lausn á óviðunandi bið kvenna í framhaldsskoðun komi upp grunur um brjóstakrabbamein. Biðtíminn er að meðaltali 35 dagar hér á landi eða sjö sinnum lengri biðtími en alþjóðleg viðmið segja til um sem eru fimm dagar. 

„Landspítalinn hefur alfarið séð um þessar sérskoðanir í þrjú ár, eftir að ráðherra tók ákvörðun um að færa verkefnið þangað. Þetta er algerlega óviðunandi staða og sannarlega víti til varnaðar í fyrirhuguðum breytingum. Við heyrum ítrekað fréttir af gríðarlegu álagi og jafnvel samdrætti í þjónustu Landspítalans. Spyrja má hvort hægt sé að bæta skimunum fyrir brjóstakrabbameinum á spítala sem er í þeirri stöðu að geta vart annað öðru starfi, fyrir utan áhyggjur okkar af því að fjármagnið sem fylgir skimunum muni ekki duga til. Spítalinn á varla mikla varasjóði til að bæta upp á þar sem á vantar,“ segir Halla.

„Það verður að tryggja að vandað sé til undirbúnings á tilfærslu verkefna og þar duga góðar hugmyndir skammt. Nægilegar fjárveitingar verða að vera til staðar, mannauður og aðstaða, áður en lagt er af stað, því annars er betur heima setið,“ segir Halla. 

Krabbameinsfélagið telur mikilvægt að þær stofnanir sem taka við jafn viðamiklu verkefni og skimanir í landinu eru, kynni markmið sín og sýni fram á þær geti tryggt aðgengi að skimun, sem stenst alþjóðleg gæðaviðmið. 

Þátttaka í brjóstaskimun í Evrópu hefur minnkað 

Í nýlegri samantekt á þátttöku kvenna í skipulagðri hópleit hjá 17 Evrópuþjóðum kemur fram að þátttaka í brjóstaskimun hefur lækkað á tímabilinu 2004 til 2014 á meðan þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini hefur haldist nokkuð stöðug. Mikilvægt er að fylgjast vel og reglulega með því í hverju landi hvaða þættir skipta máli til að hvetja til þátttöku í skipulagðri skimun.

 Í könnun sem Maskína gerði fyrir Krabbameinsfélagið kemur fram að kostnaður og biðtími eftir skimun skipti nokkuð miklu máli og fyrir konur á landsbyggðinni skipti máli að skimunin sé sem næst heimabyggð. 

Könnun Maskínu gefur vísbendingar um að langstærstur hluti kvenna sem koma í skimun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins er ánægður með viðmót starfsfólks og upplifun af heimsókninni er mjög eða nokkuð góð hjá flestum. Einnig virðist vera ánægja með svör starfsfólks við spurningum, aðstöðu Leitarstöðvarinnar og tímalengd skimunarinnar.

Tilgangur skimana fyrir krabbameinum er að fækka dauðsföllum af völdum sjúkdómanna. Í dag mæla alþjóðastofnanir með skimunum fyrir brjóstakrabbameinum, þar sem reynt er að finna sjúkdómana á byrjunarstigi, fyrir leghálskrabbameinum og krabbameinum í ristli og endaþarmi, þar sem í báðum tilfellum er skimað fyrir forstigum krabbameinanna.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins 2020.


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?