Ása Sigríður Þórisdóttir 12. ágú. 2020

Landspítali á hrós skilið fyrir að tæma biðlista

  • Guðrún Birgisdóttir, geislafræðingur, í brjóstamyndatöku á Leitarstöð 2019.

Krabbameinsfélagið fagnar því að ekki er lengur biðlisti hjá Landspítala eftir klínískum brjóstaskoðunum. Mikilvægt er að tryggja að þessari stöðu verði haldið og biðlistinn myndist ekki aftur.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala hefur tekist að vinna niður þann langa biðlista sem hafði myndast eftir klínískum brjóstaskoðunum hjá brjóstamiðstöð Landsspítalans sem Krabbameinsfélagið ásamt Brjóstaheill vakti athygli á í haust.

Sérskoðanir fara fram í framhaldi af skimun þegar upp kemur grunur um krabbamein eða þegar konur hafa einkenni og er vísað til brjóstamiðstöðvar spítalans. Langur biðlisti hefur verið einn af þeim þáttum í ferlinu sem reynst hefur konum hvað erfiðastur.

„Þetta er afar ánægjulegt og Landspítali á hrós skilið fyrir að tæma þennan biðlista. Nú er mikilvægt að tryggja að þessari stöðu verði haldið og biðlistinn myndist ekki aftur“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, sviðsstjóri Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins.

„Eins og um flesta sjúkdóma gildir hér að því fyrr sem gripið er inn í, því meiri líkur eru á lækningu. Það er því afar mikilvægt að tryggja að ekki sé óþarfa bið eftir nauðsynlegum rannsóknum“ segir Ágúst.

Niðurstöður úr skimunum hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins berast konum rafrænt inn á island.is um það bil tveimur vikum eftir að skimun fer fram. Þar koma fram upplýsingar um skimunarsögu kvenna og niðurstöður úr skimun. Þar kemur einnig fram hvort frekari skoðunar er þörf hjá brjóstamiðstöð Landspítalans.

Árlega greinast um 210 konur með brjóstakrabbamein á Íslandi og er það algengasta krabbamein sem greinist hjá konum hér á landi. Meðalaldur við greiningu er um 62 ár, en um 10 konur greinast árlega undir fertugu. Mun óalgengara er að karlar fái brjóstakrabbamein eða 1 karl á móti hverjum 100 konum. Horfur sjúklinga með brjóstakrabbamein hafa farið batnandi og í dag eru 5 ára lífshorfur um 90%.

„Okkur er mikið í mun að tryggja að árangur af starfi Krabbameinsfélagsins við skimanir fyrir krabbameinum hér á landi haldi áfram. Héðan í frá, sem hingað til er félagið málsvari þeirra sem greinast með krabbamein og við munum fylgja því eftir að sú þjónusta sem nauðsynleg er til að ná góðum árangri í baráttunni gegn krabbameinum sé í samræmi við það sem best gerist“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Krabbameinsfélagið hvetur stjórnvöld til að standa vörð um hag krabbameinssjúklinga og tryggja bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Um áramót færast brjóstaskimanir frá félaginu til Landspítala og þá skiptir máli að vandað sé til verka.


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?