Lætur af störfum eftir 31 ár við smásjána
Auður Eiríksdóttir, lífeindafræðingur, lét af störfum fyrir Krabbameinsfélagið í gær, en hún hefur starfað við frumurannsóknir hjá félaginu í 31 ár og skoðað vel á 200.000 leghálssýni.
Auður vann sem deildarstjóri frumurannsóknarstofunnar í 17 ár. Hún ákvað fyrir nokkrum árum að hætta á 69. aldursárinu og hóf þá að draga smám saman úr ábyrgð sinni. Hún hætti sem deildarstjóri árið 2017 og við starfinu tók Þorbjörg Jónsdóttir, en hún hefur unnið við hlið Auðar í mörg ár.
„Það hefur verið heiður að fá að starfa með Auði öll þessi ár. Hún hefur viðamikla þekkingu á öllu sem við kemur leghálssýnum og hefur með kennarahæfileikum sínum miðlað þeirri þekkingu til samstarfsfólks síns. Hún hefur einnig staðið með okkur í lífins ólgusjó sem er ómetanlegt,“ segir Þorbjörg og bætir við að á frumurannsóknarstofunni hafi ríkt góður starfsandi og starfsmannavelta hafi verið lítil: „Þökk sé Auði.“
Dagurinn í gær var stór dagur í lífi Auðar sem vann sinn síðasta vinnudag, en segist þó muni heimsækja Skógahlíðina reglulega.
„Það er hins vegar óneitanlega skrýtin tilfinning sem bærist innra með manni þegar maður er að hætta störfum, sérstaklega þegar maður hefur starfað svona lengi á sama vinnustað,“ segir Auður sem mun þó ekki sitja auðum höndum eftir starfslokin, því fjöldi verkefna bíða hennar í tengslum við heimili og fjölskyldu.
Krabbameinsfélagið þakkar Auði ómetanlegt starf í þágu skimana fyrir leghálskrabbameini og óskar henni alls hins besta í framtíðinni.

Á myndinni er Auður í hópi samstarfsfólks á Frumurannsóknarstofunni. Frá vinstri Hrafnhildur Óttarsdóttir, Auður Eiríksdóttir, Ingibjörg Guðmundsdóttir, Guðný Ása Þorsteinsdóttir, Þorbjörg Jónsdóttir, Herdís J. Guðjónsdóttir, Hafdís Hafsteinsdóttir og Þórdís Björg Kristinsdóttir.