Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 6. sep. 2019

Kynningarátak um erfðagjafir

Krabbameinsfélagið hefur tekið höndum saman við sex góðgerðarfélög til að vekja athygli almennings á erfðagjöfum. Yfirskrift átaksins er „Gefðu framtíðinni forskot.“

Erfðagjafir eru vinsæll valkostur víða um heim þegar kemur að ráðstöfun eigna að lífshlaupi loknu, en þær felast í að ánafna hluta af eigum sínum eftir sinn dag til góðgerðafélags sem viðkomandi er annt um. Hér á landi hefur lítið verið rætt um erfðagjafir en góðgerðafélög fá reglulega fyrirspurnir um þennan valkost. Þá gerir nýleg lagabreyting það að verkum að erfðagjafir eru nú undanþegnar erfðafjárskatti.

Almannaheill eru í forsvari fyrir átakið og félögin sem standa að átakinu auk Krabbameinsfélagsins eru Blindrafélagið, Rauði krossinn, SOS Barnaþorp, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og UNICEF á Íslandi. 

Gefðu framtíðinni forskot

Átakið hófst með birtingu á kynningarmyndbandi sem sjá má hér. Í kynningarmyndbandinu sjást skemmtilegar myndir frá liðnum áratugum þar sem framfarir og uppbygging á samfélagsins eru í forgrunni.

Félögin sem standa að baki átakinu blása einnig til málþings föstudaginn 13. september kl. 11:30 í IÐNÓ, á alþjóðlegum degi erfðagjafa, þar sem rætt verður um lagaleg atriði sem tengjast erfðagjöfum og hvernig þær geta nýst til góðra verka. Málþingið er öllum opið. Þá hafa félögin komið á fót upplýsingasíðu um erfðagjafir á slóðinni www.erfdagjafir.is.

Erfðagjafir skipta miklu máli fyrir góðgerðafélög

Kynslóðin sem er að komast á eftirlaunaaldur hefur kynnst byltingarkenndum samfélagsbreytingum á sinni ævi og afkoma flestra er mun betri en foreldra þeirra. Stór hluti þessa hóps styrkir góð málefni reglulega og félögin hafa orðið vör við áhuga þessa hóps á að halda áfram að hafa áhrif eftir sinn dag.

„Markmiðið með kynningarverkefninu er að þeir sem vilja styðja við góð málefni viti af þessari styrktarleið. Mikill meirihluti Íslendinga styður félagasamtök til góðra verka og margir þekkja af eigin reynslu hversu mikilvæg þessi félög eru samfélaginu. Erfðagjafir eru víða vel þekktar erlendis og til dæmis gefa um fjórðungur Breta sem gera erfðaskrá erfðagjöf til góðgerðarfélags. Eftir að erfðafjárskattur á erfðagjafir var felldur niður er mikilvægt að fólk viti að fjármunirnir renna að fullu til þess góða málsstaðar sem það velur,“ segir Ketill B. Magnússon, sem leiðir verkefnið fyrir hönd Almannaheilla, samtaka þriðja geirans.

Vísindasjóðurinn byggður á erfðagjöfum

Erfðagjafir skipta miklu máli fyrir góðgerðafélög á Íslandi og þær hafa nýst á fjölbreyttan og mikilvægan hátt. Upphaf Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins er meðal annars byggt á tveimur erfðagjöfum en sjóðurinn hefur úthlutað 160 milljónum króna til rannsókna á krabbameinum á síðustu þremur árum.

Til þess að gefa erfðagjöf er nauðsynlegt að gera erfðaskrá en mælt er með að ráðfæra sig við lögfræðing þegar gengið er frá erfðskrá til að gengið sé úr skugga um að hún sé gild samkvæmt lögum. 


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?