Anna Margrét Björnsdóttir 24. maí 2023

Kvöldverður til styrktar Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins

  • Eyþór Gylfason, matreiðslumaður.

Eyþór Gylfason, matreiðslumaður, stendur fyrir styrktarkvöldverði þann 8. júní næstkomandi í samstarfi við veitingastaðinn Monkeys Restaurant. Ágóðinn af kvöldinu rennur óskiptur til Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins og mun styðja við íslenskar krabbameinsrannsóknir.

Hugmyndina að viðburðinum fékk Eyþór síðastliðið sumar þegar móðir hans barðist við ristilkrabbamein, en hún lést 19. nóvember síðastliðinn. „Hugmyndin var byrjuð að gerjast, en áfallið við að missa mömmu gerði það að verkum að mig langaði til að láta þetta verða að veruleika, segir Eyþór. „Ég lærði að lífið er stutt og hef sjaldan verið jafn fullur af eldmóði til framkvæmda. Mig langar til að nýta hann til góðra verka og ég vona að þetta framtak hvetji aðra til að láta gott af sér leiða.“

Mynd: @jakub.skwara

Kvöldið verður 7 rétta máltið með óafengri drykkjapörun. Borðin verða “community table” svo kvöldið býður upp á góðan mat, fjölbreyttan félagsskap og öðruvísi og spennandi drykkjapörun.

Matseðill kvöldsins er glæsilegur:


  • Tómatseyði
  • Íslenskir tómatar, steinselja og rúgbrauðsflögur
  • Laxa mosaic
  • Sýrður blaðlaukur, kryddjurtakrem og stökkar nípur
  • Grafið lambainnralæri
  • Möndlumulningur, graslaukskrem, enoki sveppir og 24 mánaða Feykir
  • Smjörpóseraður karfi
  • Djúpsteikt polenta, gerjaðar gulbeður, rifsber og hvítvínssósa
  • Gljáð svínasíða
  • Hvítlaukskartöflumús, sellerírótarmauk, stökkt grænkál og trufflugljái
  • Bláber
  • Bláberjaseyði, fennel og appelsínur
  • Basil og lime lagterta

Umhverfið og lýðheilsa í forgrunni

Matseðillinn er sjö rétta veisla fyrir bragðlaukana og leggur Eyþór áherslu á vandað, íslenskt hráefni. Kolefnisspor matvæla er honum líka ofarlega í huga við samsetningu matseðilsins. „Rétt eins og Krabbameinsfélagið gætir að framtíð þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra, þá þarf matreiðsluheimurinn að gæta að framtíð jarðarinnar. Ég vil leggja áherslu á að nota hráefni sem þarf ekki að sækja langt út í heim.“

Samhliða því að umhverfisvitund fólks hefur verið að aukast undanfarin ár fjölgar einnig stöðugt í hópi þeirra sem velja áfengislausan lífsstíl. Á viðburði Eyþórs verður því einnig leitað út fyrir kassann í þeim efnum og boðið upp á óáfenga drykkjarpörun með hverjum rétti. Eyþór vinnur að því ásamt Sigurði Borgari Ólafssyni, framreiðslumanni, að para ólíka og spennandi óáfenga drykki við réttina. „Margir kjósa að sleppa áfengi en vilja samt fá þessa stemningu. Það þarf ekki alltaf að vera vín og það er spennandi áskorun að skipuleggja kvöldverð af þessu tagi án hefðbundinnar vínpörunar,“ segir Eyþór.

Fyrirkomulagið á kvöldinu er þannig að seld eru stök sæti við stærri borð, svokölluð community tables. Borðin munu því jafnvel rúma einstaklinga, pör og hópa sem þekkjast ekki innbyrðis. Viðburðurinn er því ekki síður tækifæri til að kynnast fólki og mynda tengsl við aðra sem vilja leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn krabbameinum.

Umkringdur góðu fólki

Eyþór starfar hjá Monkeys Restaurant og er þeim þakklátur fyrir stuðninginn við verkefnið. „Strax og maður stígur eitt skref koma sex aðrar hendur og ýta manni áfram. Ég er umkringdur mjög góðu fólki og þakklátur eigendum Monkeys fyrir að vera tilbúin að leyfa mér að nýta aðstöðuna og tengslanetið þeirra. Allir sem koma að þessu með mér eru að gefa vinnuna sína og ég vona að þau skemmti sér líka við að skapa þessa upplifun fyrir gestina.“ 

https://www.youtube.com/watch?v=L97QCfdRgS8



Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?