Ása Sigríður Þórisdóttir 3. nóv. 2020

Krabbameinsskimun, ávinningur og áhætta

  • Guðrún Birgisdóttir, geislafræðingur, í brjóstamyndatöku á Leitarstöð 2019.

Mikilvægt er að árétta að skimun er hvorki gallalaus né trygging fyrir því að krabbamein eða forstig þeirra greinist. Eðli skimana er slíkt, að konur geta greinst með alvarleg eða langt gengin krabbamein í leghálsi og brjóstum þó þær mæti reglulega í skimun. Líkurnar á því eru hins vegar mun minni en hjá þeim sem ekki taka þátt.

Í skimun fyrir krabbameinum í leghálsi eða brjósti finnast ekki öll krabbamein eða forstig sem til staðar eru hjá konum sem taka þátt í skimun. Skimun hefur hins vegar komið í veg fyrir um 4-500 dauðsföll af völdum leghálskrabbameina frá árinu 1964 og rannsóknir sýna að hún fækki dauðsföllum af völdum brjóstakrabbameina um 20 – 40%.

Lýðgrunduð skimun

Skipulögð, lýðgrunduð skimun hefur boðist konum hér á landi í áratugi, sem þýðir að öllum konum í skilgreindum markhópi í samfélaginu er boðin þátttaka og aðgengið á að vera jafnt fyrir alla.

Markmiðið er að draga úr dauðsföllum af völdum sjúkdómanna sem skimað er fyrir. Skimaðar eru mjög margar heilbrigðar, einkennalausar konur til að finna krabbamein eða forstigsbreytingar hjá fáum konum og minnka þannig líkur á að þær deyi úr sjúkdómunum. Lýðgrunduð skimun er eingöngu í boði þegar sýnt hefur verið fram á gagnsemi hennar, með lækkaðri dánartíðni af völdum sjúkdómanna. Til að skimun gegn krabbameinum virki er mikilvægt að góð og reglubundin þátttaka náist. Skimun virkar illa fyrir þá sem mæta stopult og er alls ekki ætluð þeim einstaklingum sem eru með einkenni.

„Mikilvægt er að árétta að skimun er hvorki gallalaus né trygging fyrir því að krabbamein eða forstig þeirra greinist. Eðli skimana er slíkt, að konur geta greinst með alvarleg eða langt gengin krabbamein í leghálsi og brjóstum þó þær mæti reglulega í skimun. Líkurnar á því eru hins vegar mun minni en hjá þeim sem ekki taka þátt. Skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum auk HPV-bólusetningar er besta forvörn sem völ er á og því skiptir miklu máli að konur nýti regluleg boð í skimun“ segir Ágúst Ingi Ágústsson yfirlæknir og sviðsstjóri á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Í fyrra voru komur í brjóstaskimun 20.600 talsins og komur í leghálsskimun voru 24.300.

Skimun fyrir leghálskrabbameini

Skimun fyrir krabbameinum í leghálsi með frumuskoðun var lengi vel eina aðferðin til að draga úr leghálskrabbameinum, en nú hafa bæst við bæði skimun fyrir HPV veirustofnum og bólusetning gegn þeim. Með skimuninni er hægt að greina forstig leghálskrabbameina og fjarlægja þau áður en þau þróast áfram.

Vel er þekkt að næmi skimunar til að finna forstigsbreytingar er ekki 100% og því veitir hún ekki tryggingu gegn því að konur veikist af leghálskrabbameini. Nýleg fjölþjóðleg samantekt á 15 rannsóknum sýndi að meðalnæmi leghálsskimunar með frumuskoðun til að finna hágráðu-forstigsbreytingar var um það bil 75%, þ.e. í heildina missti leitin af 25% hágráðubreytinga. Næmið var mjög misjafnt eftir löndum og lá á bilinu 52% - 94%. Íslenska skimunin hefur um 95% næmi til að finna hágráðubreytingar samkvæmt árlegum gæðakönnunum. „Margar hágráðubreytingar ganga til baka af sjálfu sér, en hluti þeirra þróast yfir í leghálskrabbamein og af og til kemur það fyrir að ein slík fer framhjá í skimuninni, því miður, þótt það gerist sjaldan á Íslandi miðað við mörg önnur lönd“ segir Ingibjörg Guðmundsdóttir, meinafræðingur og yfirlæknir á frumurannsóknarstofu Leitarstöðvarinnar.

Skimun fyrir brjóstakrabbameini

Skimun fyrir brjóstakrabbameini er annars eðlis en fyrir leghálskrabbameini því þar er ekki skimað eftir forstigsbreytingum, heldur er leitað að krabbameini á lágu stigi. Ávinningur er tvíþættur, annars vegar dregur skimunin úr dauðsföllum af völdum brjóstakrabbameins og hins vegar getur hún gert það að verkum að konur þurfi vægari meðferð við sjúkdómnum, af því að hann greinist fyrr.

Á heimasíðu National Health Service í Bretlandi kemur fram að gera megi ráð fyrir að brjóstaskimunin missi af einu krabbameinstilfelli að meðaltali hjá hverjum 2.500 konum sem mæta. Þar er skimað á aldursbilinu 50 – 70 ára, en hér á landi, líkt og í Svíþjóð, er konum á aldrinum 40 – 69 ára boðið upp á reglubundna skimun. Gera má ráð fyrir að fjöldi krabbameina sem skimunin missir af geti verið örlítið hærri hér á landi vegna aldursbilsins, þar sem erfiðara getur verið að greina krabbamein hjá yngri konum. Sama gildir því um skimun fyrir brjóstakrabbameinum og leghálskrabbameinum að hún er ekki trygging gegn því að veikjast en nýleg norsk rannsókn bendir til að skimunin geti fækkað dauðsföllum af völdum sjúkdómsins um 20-30%.

Lengi hefur verið horft til Íslands varðandi góðan árangur skimana, sem komið hefur fram í fjölda rannsókna. Ber þar helst að nefna rannsóknir Dr. Kristjáns Sigurðssonar, sem var yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins árin 1982-2013. Kristján hefur verið mjög atkvæðamikill í rannsóknum á skimunum á heimsvísu.

„Þrátt fyrir ávinning má ekki gleyma að skimun felur einnig í sér þá áhættu að vægar breytingar sem ekki hafa ífarandi vöxt finnist en leiða til meðhöndlunar. Breytingar sem annars hefðu hvorki komið í ljós eða valdið skaða. Þetta getur valdið bæði andlegum og líkamlegum afleiðingum sem einnig þarf að taka með í reikninginn,“ segir Magnús Baldvinsson, yfirlæknir á röntgendeild Leitarstöðvarinnar.

Atvik á Leitarstöð

„Öllum sem þekkja til eðlis skimunar fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum er ljóst að skimun mun aldrei ná að koma í veg fyrir eða greina öll krabbamein, þótt allt sé gert til að ná því. Þrátt fyrir að þessi sé raunin, þá er það engu að síður alltaf jafn þungbært þegar það gerist“ segir Ágúst Ingi.

Í framhaldi af alvarlegu atviki sem varð á Leitarstöð hafa félaginu borist fjölmargar fyrirspurnir kvenna sem hafa áhyggjur af niðurstöðum skimana. Félagið fær einnig fjölda fyrirspurna frá fjölmiðlum en getur ekki tjáð sig um einstök mál sem gjarnan verða fréttaefni. Félagið tjáir sig heldur ekki um órökstuddar fullyrðingar um starfsemi Leitarstöðvarinnar í fjölmiðlum.

Embætti landlæknis fær á ári hverju um 10 þúsund tilkynningar um óvænt atvik á heilbrigðisstofnunum. Starfsfólk Leitarstöðvar tilkynnti strax ofangreint atvik til embættisins og það er nú til skoðunar hjá embættinu. Krabbameinsfélagið og starfsfólk Leitarstöðvar vinnur í nánu samstarfi við starfsfólk embættisins.


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?