Ása Sigríður Þórisdóttir 30. maí 2023

Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Grein birtist í Skoðun á Visir.is 27. maí 2023

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Í raun og veru er málið einfalt: Með rannsóknum sem taka stuttan tíma og eru almennt sársaukalitlar er með leghálsskimunum hægt að finna forstig leghálskrabbameina og þannig koma í veg fyrir meinin eða finna þau snemma. Með brjóstaskimunum er hægt að finna krabbamein á snemmstigum sem getur skipt sköpum varðandi batahorfur.

En þrátt fyrir að málið virðist einfalt getur ýmislegt hindrað konur í að nýta boð í skimun. Staðreyndin er sú að tölur frá embætti landlæknis sýna að þátttaka kvenna í skimunum fer stöðugt minnkandi. Því þarf að snúa við.

Við vitum að kostnaður við skimanir getur verið hindrun og vegna þess er afar mikilvægt að lækka komugjald í brjóstaskimunum til jafns við komugjald fyrir leghálsskimanir eða fella þau alveg niður. Við vitum líka að ótti við sársauka, fyrri reynsla, líkamsmynd og skortur á upplýsingum getur einnig hindrað þátttöku. Of lítið aðgengi að tímabókunum getur líka verið ástæða þess að konur mæta ekki. Og þættirnir eru eflaust fleiri.

Í rannsókn Maskínu fyrir Leitarstöð Krabbameinsfélagsins árið 2019 var framtaksleysi algengasta ástæðan fyrir því að konur sögðust ekki hafa mætt í skimun, tímaskortur kom þar næst og svo slæm reynsla af fyrri skoðun og erfiðleikar við að komast frá skóla eða vinnu. Líklega eiga allar þessar skýringar við enn í dag. Íslenskt samfélag verður einnig sífellt fjölbreyttara, sem gerir flóknara að koma skiljanlegum upplýsingum til allra og enn skortir á rafrænar lausnir varðandi tímabókanir. Til að ná hámarksárangri af skimunum þarf að kafa ofan í alla þætti og skapa aðstæður sem auðvelda öllum konum að nýta boð í skimun.

Hagsmunirnir eru miklir, bæði fyrir einstaklingana sjálfa og samfélagið.

Hvert krabbamein sem hægt er að koma í veg fyrir eða greina á snemmstigum er sigur og þeim sigrum viljum við fjölga. Það getur gerst með samstilltu átaki þeirra sem býðst skimunin, heilbrigðisstarfsmanna sem geta skapað aðstæður til að ræða það sem getur staðið í vegi fyrir þátttöku kvenna og hvatt konur til að nýta boð í skimun, Krabbameinsfélagsins sem alltaf hvetur til þátttöku í skimunum og vina og kunningja sem halda mikilvæginu á lofti. En stjórnvöld þurfa líka að koma til. Tryggja fjármagn til að innleiða nauðsynlegar breytingar, hafa skýr markmið og grípa til aðgerða þegar þau nást ekki.

Ójöfnuður vaxandi vandamál

Ójöfnuður í heilsu er vaxandi vandamál í okkar samfélagi og rannsóknir sýna til dæmis að fólk með meiri menntun getur vænst þess að lifa lengur en fólk með minni menntun. Við þurfum að beita öllum ráðum til að vinna gegn ójöfnuði af þessu tagi. Góð þátttaka í skimunum er liður í því.

Og talandi um ójöfnuð verður að nefna kynjamun. Enn er það þannig hér á landi að einungis konum býðst skimun fyrir krabbameinum. Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi sem býðst öllum á ákveðnum aldri er í undirbúningi en hefur dregist allt of lengi.

Eitt af markmiðum Evrópusambandsins í krabbameinsáætlun fyrir Evrópu er að allir hafi aðgengi að skimunum fyrir krabbameinum í brjóstum, leghálsi og ristli og endaþarmi og sambandið hvetur til þess að löndin skoði fýsileika þess að skima fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli, lungum og maga. Afar mikilvægt er að Ísland sofni ekki á verðinum hvað þessi mál varðar heldur sé meðal fremstu landa.

Konur: Nýtum boð í skimun þegar þau berast.

Heilbrigðisstarfsfólk: Spyrjum hvort konur nýti boð í skimun, hvetjum þær til þess og sköpum aðstæður til að ræða það sem getur staðið í vegi fyrir þátttöku.

Vinir og fjölskylda: Spyrjum og hvetjum okkar konur til að nýta gott boð.

Stjórnvöld: Tryggjum skiljanlegar upplýsingar fyrir alla, lækkum komugjöld, fylgjumst með, rýnum og grípum til aðgerða til að auka þátttöku.

Á heimasíðu Krabbameinsfélagsins er að finna ýmsar upplýsingar um skimanir, kosti og galla.

Nú stendur yfir evrópska krabbameinsvikan (European week against cancer) Þá vekja evrópsk krabbameinsfélög athygli á ýmsum þáttum sem skipta máli í því marghliða verkefni sem krabbamein er.

Höfundur er Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. 


Fleiri nýjar fréttir

27. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023

Gullsmiðirnir Lovísa Halldórsdóttir (by lovisa) og Unnur Eir Björnsdóttir (EIR) eru hönnunarteymið á bak við Bleiku slaufuna í ár. Það er óhætt að segja að þeim hafi tekist ætlunarverk sitt, en slaufan í ár er sú bleikasta sem við höfum séð lengi

Lesa meira

26. sep. 2023 : "Mikilvægt að segja líka frá því sem gengur vel"

Styttri legutími, skjótari bati, lægri dánartíðni og betri lifun. Ný aðferðafræði við skurðaðgerðir við lungnakrabbameini var tekin upp nærri því á einni nóttu og hefur gefið reglulega góða raun í baráttunni gegn lungnakrabbameini. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir og Viktor Ásbjörnsson læknanemi segja hér frá byltingarkenndri þróun í skurðaðgerðum við lungnakrabbameini og mikilvægi rannsókna og stuðnings við þær fyrir framþróun í málaflokkinum. 

Lesa meira

26. sep. 2023 : Takk fyrir komuna

Nýafstaðið málþing í tilefni af alþjóðadegi krabbameinsrannsókna vakti greinilega forvitni margra, því húsfyllir var í Skógarhlíðinni auk þess sem fjölmargir fylgdust með í streymi. Krabbameinsfélagið vill koma á framfæri kærum þökkum til allra sem tóku þátt.

Lesa meira
Elísa Dögg Björnsdóttir frá TVG-Zimsen, Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður markaðsmála og  fjáröflunar hjá Krabbameinsfélaginu og Magnús Ingi Guðmundsson frá IDÉ House of brands, sem sér um framlei

25. sep. 2023 : Nú er það bleikt!

Að baki átaki eins og Bleiku slaufunni búa fjölmörg handtök og undirbúningur hefst mörgum mánuðum áður en afurðin berst landsmönnum í hendur og hjörtu. Það er því alltaf stór stund þegar við fáum sjálfa slaufuna í hús og niðurtalningin fyrir upphaf átaksins hefst formlega.

Lesa meira

12. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023: Komdu að leika

Krabbameinsfélagið leitar að fólki til að hjálpa okkur að búa til auglýsinguna fyrir Bleiku Slaufuna 2023. Auglýsingin er með stærra sniði í ár og þurfum við því aðstoð sem allra flestra.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?