Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 30. ágú. 2020

Krabbameinsfélagið harmar mistök

Krabbameinsfélagið harmar mistök sem urðu í leghálsskimun árið 2018 og fjallað var um í fréttum Stöðvar tvö í kvöld. Á síðasta ári tók félagið í notkun nýja tölvustýrða smásjá sem dregur verulega úr líkum á að sams konar mistök geti endurtekið sig. 

Yfirlæknir Krabbameinsfélagsins segir að skimun sé ekki 100% örugg og mistök geti gerst en séu afar fátíð. 

„Það er þyngra en tárum taki að vita að hægt hefði verið að koma í veg fyrir að frumubreytingar í leghálsi yrðu að krabbameini. Hvert einasta krabbameinstilfelli sem hægt er að koma í veg fyrir eða greina á byrjunarstigum skiptir máli. Við biðjum konuna og aðstandendur hennar innilega afsökunar á þessum hörmulegu mistökum,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. 

Árlega eru skoðuð um 27 þúsund leghálssýni á frumurannsóknarstofu Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Um leið og málið kom upp var gripið til viðeigandi ráðstafana á Leitarstöðinni varðandi endurskoðun sýna síðustu þriggja ára sem er sá tími sem á að líða á milli skimana hjá konum. Ef þörf krefur mun starfsfólk hafa samband við konur og bjóða þeim aftur í skimun. Landlækni var strax tilkynnt um málið. 

Á Íslandi hefur dánartíðni af völdum leghálskrabbameins lækkað um 83% og með reglubundinni skimun fyrir leghálskrabbameini má koma í veg fyrir 90% tilfella leghálskrabbameins. Skimun fyrir leghálskrabbameini hefur því ótvírætt sannað gildi sitt. Konur eru eindregið hvattar til að nýta sér boð um þátttöku í skimun.

„Ísland er ekki frábrugðið nágrannalöndunum að því leyti að upp geta komið tilfelli með falskt neikvæðum niðurstöðum, þ.e. að ekki greinast frumubreytingar þó þær séu til staðar. Það er sem betur fer afar sjaldgæft að upp komi tilfelli leghálskrabbameins þar sem skimunarsýni hefur ranglega verið metið eðlilegt,“ segir Ágúst.

Hægt er að panta tíma í skimun hjá Leitarstöðinni í síma 540 1919.

Krabbameinsfélagið býður einnig upp á ráðgjöf og stuðning án endurgjalds. Hægt er að hringja í síma 800 4040 virka daga og senda tölvupóst á radgjof@krabb.is."


Fleiri nýjar fréttir

1. mar. 2024 : Við erum að kalla þig út, kall!

Við fögnum framförum í greiningu og meðferð en best er auðvitað ef hægt er að koma í veg fyrir krabbamein. Vísindin vísa okkur leiðina og rannsóknir sýna að 30 til 40% krabbameina tengjast lífsstíl. Það þýðir að ýmsar lífsvenjur, t.d. tóbaksnotkun, áfengisneysla, hreyfingarleysi, mataræði og fleiri þættir geta haft áhrif á líkurnar á ákveðnum tegundum krabbameina.

Lesa meira

29. feb. 2024 : Köllum kalla þessa lands út!

Mottumars, árlegt árvekni- og fjáröflunarátak tileinkað krabbameinum hjá körlum hefst í dag. Kallaútkall er yfirskrift átaksins í ár þar sem lögð er áhersla á forvarnargildi hreyfingar. Regluleg hreyfing dregur úr hættunni á krabbameinum, en allt of margir karlmenn hreyfa sig ekki nóg til að njóta þessara verndandi áhrifa. Það þarf ekki nema örfáar mínútur af hreyfingu á dag til að ná fram jákvæðum áhrifum.

Lesa meira

28. feb. 2024 : Upp með sokkana og í Mottumarshlaupið 2024

Komdu með í fyrsta Mottumarshlaup Krabbameinsfélagsins sem haldið verður á hlaupársdeginum 29. febrúar. Við lofum stuði og stemmningu um leið og við hreyfum okkur til stuðnings góðum málstað!

Lesa meira

27. feb. 2024 : Sjöunda árið í röð fær forsetinn fyrsta parið

Forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni hefur frá árinu 2018 verið afhent fyrsta parið af Mottumarssokkunum sem seldir eru til styrktar Krabbameinsfélaginu í Mottumars, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki sem tileinkað er krabbameinum hjá körlum. Forsetinn hefur sýnt verkefninu ómetanlegan stuðning í gegnum árin.

Lesa meira

27. feb. 2024 : Mottumarssokkarnir hannaðir af AS WE GROW

Það eru þær Gréta Hlöðversdóttir, Snæfríð Þorsteins og Kamilla Henriau sem eru hugmyndasmiðirnir og hönnuðirnir á bakvið sokkana sem eru einstaklega fallegir. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?