Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 5. sep. 2020

Krabbameinsfélagið fær ekki afhent gögn frá Sjúkratryggingum

Krabbameinsfélagið óskaði eftir því í gær að Sjúkratryggingar Íslands afhentu félaginu gögn sem vísað var til í Kastljósi síðastliðið fimmtudagskvöld. 

Á hádegi í dag höfðu Sjúkratryggingar ekki orðið við beiðninni. Því fór félagið í dag fram á neyðarfund með Sjúkratryggingum vegna þess vantrausts sem fram kom af hálfu fulltrúa Sjúkratrygginga á öryggi starfsemi Leitarstöðvarinnar. Sjúkratryggingar höfnuðu þeirri beiðni.

Tilefni beiðnarinnar er að í Kastljósi var birt viðtal við fulltrúa Sjúkratrygginga í starfshópi um endurskoðun kröfulýsinga vegna skimana fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum. Yfirlýsingar hans komu fulltrúum Krabbameinsfélagsins sem sátu í starfshópnum í opna skjöldu. Efni þeirra hafi heldur ekki komið fram í tengslum við endurnýjun þjónustusamnings félagsins við Sjúkratryggingar um skimanirnar, sem á undanförnum þremur árum hefur verið framlengdur fimm sinnum.

Krabbameinsfélagið telur grafalvarlegt ef heilbrigðisyfirvöld hafa búið yfir mikilvægum upplýsingum um starfsemi Leitarstöðvarinnar án þess að félaginu eða starfsfólki Leitarstöðvar hafi verið gert viðvart.

Það skal ítrekað að Sjúkratryggingar hafa ekki gert neinar úttektir á framkvæmd þjónustusamningsins.

Krabbameinsfélagið vinnur að hagsmunum krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra með það að markmiði að fækka þeim sem greinast með krabbamein, fjölga þeim sem lifa og bæta lífsgæði þeirra sem greinast og lifa með krabbamein. Öryggi og velferð kvenna sem nýta sér boð um skimun hefur ávallt skipt félagið miklu máli. Hluti af því er að viðhalda trausti á gagnsemi skimana og að þær veiti konum ekki falskt öryggi.

Krabbameinsfélagið hefur upplýst bæði landlækni og heilbrigðisráðuneytið um þá stöðu sem uppi er. ​

 


Fleiri nýjar fréttir

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Egils Þórs Jónssonar

Egill Þór telur að hann væri ekki á lífi ef hann hefði þagað í gegnum sína meðferð og hvetur alla til að sækja sér alla þá hjálp sem í boði er, nýta sér stuðningsfélögin sem eru að styðja við þá sem greinast. Jafningjastuðningur hafi verið honum afar mikilvægur, að finna fyrir sterkri tengingu við einhvern sem búinn var að ganga í gegnum það sama og hann var að ganga í gegnum í fyrsta sinn, hafi verið ómetanlegt.

Lesa meira

22. mar. 2024 : Gleðilegan Mottudag

Mottumars nær hámarki í dag, föstudaginn 22. mars, þegar Mottudagurinn er haldinn hátíðlegur. Krabbameinsfélagið hvetur alla landsmenn, konur og karla, til að gera sér glaðan dag með fjölskyldunni, vinum og vinnufélögum og vekja þannig athygli á baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?