Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 4. jan. 2019

Krabbameinsfélagið býður ókeypis fyrstu skimun fyrir krabbameinum 2019

Á undanförnum árum hefur heldur dregið úr þátttöku kvenna hér á landi í skimun fyrir krabbameinum og er hún minni en á hinum Norðurlöndunum. Miklu skiptir að snúa þeirri þróun við.

Krabbameinsfélagið hefur ákveðið að ráðast í tilraunaverkefni til að kanna hvort kostnaður við skimunina hafi áhrif á þátttöku kvenna. Félagið telur mikilvægt að skimun verði gjaldfrjáls og hefur lagt það til við stjórnvöld, ekki síst til að tryggja jafnt aðgengi að skimun.

Tilraunaverkefnið nær til kvenna sem verða 23 ára og 40 ára á árinu og munu þær fá ókeypis fyrstu skimun fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstakrabbameini á vegum Leitarstöðvarinnar árið 2019. Tilraunin er fjármögnuð af Krabbameinsfélaginu.

„Það er mat okkar að kostnaður kvenna geti haft áhrif á þátttöku þeirra í skimuninni og þess vegna ákvað félagið að ráðast í tilraunina með það að markmiði að kanna hvort ókeypis skimun muni auka þátttöku kvenna,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands. 

Þar sem um tilraunaverkefni er að ræða nær það einungis til kvenna sem fæddar eru árið 1996 og mæta í fyrsta sinn í leghálsskimun árið 2019 og til kvenna sem fæddar eru árið 1979 og mæta í fyrstu skimun fyrir brjóstakrabbameini á þessu ári á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð 8 í Reykjavík eða á heilsugæslustöðvum í samstarfi við Leitarstöðina.

Konur sem fæddar eru árin 1996 og 1979 munu í upphafi árs fá kynningarbréf frá Leitarstöðinni um reglubundna skimun fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum, en árið 2019 stendur þessum árgöngum í fyrsta sinn til boða að mæta í skimun. Síðar á árinu fá þær sent boð um þátttöku í skimuninni. Mikilvægt er að panta tíma sem fyrst þegar boð kemur frá Leitarstöðinni.

Krabbameinsfélagið sér um skimun fyrir krabbameinum í leghálsi og brjóstum fyrir stjórnvöld. Skimunin er fjármögnuð með föstu fjárframlagi á fjárlögum og með komugjöldum kvenna sem ákveðin eru af stjórnvöldum. Fjárframlag ríkisins og komugjöldin hafa hins vegar ekki dugað til að fjármagna skimunina að fullu og hefur Krabbameinsfélagið því borið kostnað af skimuninni í mörg ár. Greiðsla kvenna er nú 4.700 krónur fyrir skimun vegna krabbameins í leghálsi og sama upphæð fyrir skimun fyrir brjóstakrabbameini (aldraðir og öryrkjar greiða 2.400 krónur).

„Skimun fyrir krabbameinum er mikilvægur liður í því að koma í veg fyrir krabbamein eða greina þau á byrjunarstigi. Það er nánast hægt að koma í veg fyrir leghálskrabbamein með reglubundinni skimun og greiningu á forstigi og með reglubundinni skimun fyrir brjóstakrabbameinum er hægt að greina meinið á byrjunarstigi og draga þannig úr dauðsföllum af völdum þess,“ segir Halla.

Lýðgrunduð skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi hjá körlum og konum hefur lengi verið baráttumál Krabbameinsfélagsins og félagið hefur lagt mikla vinnu og fjármuni í undirbúning þeirrar skimunar bæði eitt sér og með stjórnvöldum. Halla segir að þrátt fyrir fyrirheit stjórnvalda á undanförnum árum sé skimunin enn ekki hafin; „það er afar brýnt að það verkefni dragist ekki enn frekar á langinn og skimuninni verði hrint í framkvæmd hið allra fyrsta enda um mikið hagsmunamál fyrir almenning að ræða.“

 

 


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?