Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 4. jan. 2019

Krabbameinsfélagið býður ókeypis fyrstu skimun fyrir krabbameinum 2019

Á undanförnum árum hefur heldur dregið úr þátttöku kvenna hér á landi í skimun fyrir krabbameinum og er hún minni en á hinum Norðurlöndunum. Miklu skiptir að snúa þeirri þróun við.

Krabbameinsfélagið hefur ákveðið að ráðast í tilraunaverkefni til að kanna hvort kostnaður við skimunina hafi áhrif á þátttöku kvenna. Félagið telur mikilvægt að skimun verði gjaldfrjáls og hefur lagt það til við stjórnvöld, ekki síst til að tryggja jafnt aðgengi að skimun.

Tilraunaverkefnið nær til kvenna sem verða 23 ára og 40 ára á árinu og munu þær fá ókeypis fyrstu skimun fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstakrabbameini á vegum Leitarstöðvarinnar árið 2019. Tilraunin er fjármögnuð af Krabbameinsfélaginu.

„Það er mat okkar að kostnaður kvenna geti haft áhrif á þátttöku þeirra í skimuninni og þess vegna ákvað félagið að ráðast í tilraunina með það að markmiði að kanna hvort ókeypis skimun muni auka þátttöku kvenna,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands. 

Þar sem um tilraunaverkefni er að ræða nær það einungis til kvenna sem fæddar eru árið 1996 og mæta í fyrsta sinn í leghálsskimun árið 2019 og til kvenna sem fæddar eru árið 1979 og mæta í fyrstu skimun fyrir brjóstakrabbameini á þessu ári á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð 8 í Reykjavík eða á heilsugæslustöðvum í samstarfi við Leitarstöðina.

Konur sem fæddar eru árin 1996 og 1979 munu í upphafi árs fá kynningarbréf frá Leitarstöðinni um reglubundna skimun fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum, en árið 2019 stendur þessum árgöngum í fyrsta sinn til boða að mæta í skimun. Síðar á árinu fá þær sent boð um þátttöku í skimuninni. Mikilvægt er að panta tíma sem fyrst þegar boð kemur frá Leitarstöðinni.

Krabbameinsfélagið sér um skimun fyrir krabbameinum í leghálsi og brjóstum fyrir stjórnvöld. Skimunin er fjármögnuð með föstu fjárframlagi á fjárlögum og með komugjöldum kvenna sem ákveðin eru af stjórnvöldum. Fjárframlag ríkisins og komugjöldin hafa hins vegar ekki dugað til að fjármagna skimunina að fullu og hefur Krabbameinsfélagið því borið kostnað af skimuninni í mörg ár. Greiðsla kvenna er nú 4.700 krónur fyrir skimun vegna krabbameins í leghálsi og sama upphæð fyrir skimun fyrir brjóstakrabbameini (aldraðir og öryrkjar greiða 2.400 krónur).

„Skimun fyrir krabbameinum er mikilvægur liður í því að koma í veg fyrir krabbamein eða greina þau á byrjunarstigi. Það er nánast hægt að koma í veg fyrir leghálskrabbamein með reglubundinni skimun og greiningu á forstigi og með reglubundinni skimun fyrir brjóstakrabbameinum er hægt að greina meinið á byrjunarstigi og draga þannig úr dauðsföllum af völdum þess,“ segir Halla.

Lýðgrunduð skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi hjá körlum og konum hefur lengi verið baráttumál Krabbameinsfélagsins og félagið hefur lagt mikla vinnu og fjármuni í undirbúning þeirrar skimunar bæði eitt sér og með stjórnvöldum. Halla segir að þrátt fyrir fyrirheit stjórnvalda á undanförnum árum sé skimunin enn ekki hafin; „það er afar brýnt að það verkefni dragist ekki enn frekar á langinn og skimuninni verði hrint í framkvæmd hið allra fyrsta enda um mikið hagsmunamál fyrir almenning að ræða.“

 

 


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?