Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 15. mar. 2018

Krabbamein í blöðruhálskirtli, skimun greining og meðferðir

  • Jón Örn Friðriksson

Blöðruhálskirtillinn gegnir mjög afmörkuðu hlutverki í kynfærum karlmanna og er í raun óþarfur séu frekari barneignir ekki fyrirhugaðar. 

Nokkuð algengt er að krabbamein myndist í kirtlinum og mörgum kann því að þykja rökrétt að fjarlægja hann áður en einkenni myndast. Málið er þó mun flóknara en svo að hægt sé að meðhöndla alla miðaldra karlmenn með slíkri aðgerð.

Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta krabbamein á meðal karlmanna hérlendis. Blöðruhálskirtillinn myndar basískan hluta sæðisvökvans sem hlutleysir súrt umhverfið í leggöngum kvenna. Þetta getur lengt líftíma sáðfrumna og aukið líkur á getnaði. Kirtillinn stækkar oft með hækkandi aldri, getur þrengt að þvagrásinni sem liggur í gegnum kirtilinn og leitt til þvagtregðu.

Þrátt fyrir þróun í aðgerðartækni og geislameðferðum geta aukaverkanir sem rýra mjög lífsgæði karlmanna fylgt því að blöðruhálskirtillinn sé fjarlægður. Kirtillinn liggur djúpt í grindarholinu í mikilli nálægð við þéttriðið net fíngerðra tauga sem eru nauðsynlegar fyrir holdris. Sömuleiðis liggur neðri hluti kirtilsins við hringvöðva sem kemur í veg fyrir þvagleka. Vöðvinn og ristaugarnar geta skaddast við meðferð og valdið einkennum á borð við stinningarvandamál og þvagleka. Þó að brottnám kirtilsins eða geislun sé almennt ekki ráðlögð fyrir fríska karlmenn getur meðferðin gagnast sumum karlmönnum sem greinst hafa með krabbamein í blöðruhálskirtli.

Greining á krabbameini í blöðruhálskirtli                              

Krabbamein í blöðruhálskirtli er vanalega hægvaxandi og hefur hvorki áhrif á lífslengd né lífsgæði. Flestir deyja því með krabbameinið en ekki af völdum þess. En meinið getur verið ágengt, valdið einkennum, stytt lífslengd og rýrt lífsgæði. Markmiðið er því ekki að greina öll krabbamein í blöðruhálskirtli heldur einungis þau sem eru ágeng. Hafi karlmaður einkenni um blöðruhálskirtilskrabbamein er mikilvægt að hann leiti til heimilislæknis. Í framhaldinu er mikilvægt að greina þau krabbamein sem krefjast meðferðar. Á sama tíma er mikilvægt að veita þeim karlmönnum ráðgjöf og stuðning sem greinast en þarfnast ekki meðferðar.

PSA-prófið ekki

PSA er glýkóprótein sem myndast í blöðruhálskirtlinum og fer að hluta út í blóðrásina. Ef allt er eðlilegt í blóðsýni er PSA-gildið lágt en ef það hækkar getur það verið vísbending um sjúkdóm í kirtlinum. Góðkynja stækkun eða bólgur í kirtlinum geta orsakað hækkun á PSA en hækkun getur einnig verið vegna krabbameins í blöðruhálskirtli.

PSA-skimunarprófið er ekki gallalaust. Frískir karlmenn geta verið með hækkað PSA og menn með krabbamein í kirtlinum geta verið með eðlilegt PSA-gildi. Þessi staðreynd takmarkar notagildi PSA sem skimunarprófs. Enn fremur er PSA-gildið eitt og sér ekki nægjanlegt til að greina krabbameinið eða meta hve alvarlegt það er. Vegna þessara takmarkana PSA-prófsins er leitað leiða til að bæta greiningu á krabbameini í blöðruhálskirtli. Ýmis önnur próf á blóð- og þvagsýnum hafa verið skoðuð en ekkert þeirra er betra en PSA-prófið.

Vefjasýni frá blöðruhálskirtli

Þegar grunur er um krabbamein í blöðruhálskirtli, t.d. ef PSA-gildið er hækkað eða ef æxlisgrunsamlegir hnútar greinast við þreifingu um endaþarm er næsta skref í greiningarferlinu að taka vefjasýni frá kirtlinum. Þá eru grannar nálar notaðar til að fá sýni frá blöðruhálskirtlinum ómstýrt um endaþarm. Sýnin eru skoðuð í smásjá og sést þá hvort æxlisfrumur leynast í kirtlinum og hve illvígar þær eru. Þetta inngrip er einfalt og nauðsynlegt til að staðfesta greiningu á krabbameini sem og meta stig þess. Inngripið er þó ekki án aukaverkana. Flestir karlmenn lýsa óþægindum og jafnvel sársauka við sýnatökuna og venjulega er blóð í þvagi, hægðum og sæðisvökva í nokkra daga eða vikur á eftir. Alvarlegir fylgikvillar við inngripið eru sjaldgæfir. Í einstaka tilfellum kemur bakteríusýking í kirtilinn sem getur dreift sér út í blóðrásina. Þá þarf að bregðast skjótt við og gefa öflug sýklalyf.

Segulómskoðun af blöðruhálskirtli

Við vefjasýnatökuna eru tekin sýni á kerfisbundinn hátt frá blöðruhálskirtlinum. Krabbamein getur leynst á ákveðnum svæðum sem ekki eru tekin sýni frá og á þetta frekar við um stóra blöðruhálskirtla. Rannsóknir hafa sýnt að hver vefjasýnataka frá blöðruhálskirtli greinir um helming marktækra krabbameina í kirtlinum. Venjulega er því mælt með tveimur sýnatökum frá kirtlinum ef fyrsta sýnatakan sýnir ekki fram á krabbamein. Við það hækkar næmi greiningarinnar og greinast þá um þrjú af fjórum marktækum krabbameinum í kirtlinum.

Til að bæta næmi vefjasýnatökunnar enn frekar er víða notuð segulómskoðun af blöðruhálskirtlinum fyrir sýnatökuna. Ef breytingar sjást í kirtlinum á segulómunarmyndunum er miðað á þau svæði kirtilsins við sýnatökuna. Rannsóknir hafa sýnt að þessi aðferð fækkar sýnatökum sem þarf að til að greina krabbameinið, fleiri marktæk krabbamein greinast og á sama tíma greinast ekki mein sem ekki þarfnast meðferðar. Flókið getur verið að meta breytingar á segulómmyndum og þarf vel þjálfaða sérfræðinga til að meta myndirnar. Enn fremur er segulómskoðun dýr rannsókn og biðlistar eftir rannsókninni geta verið langir sem takmarkar notkunarmöguleikana á segulómskoðun við leit að krabbameini í blöðruhálskirtli.

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins

Árlegt árvekniátak Krabbameinsfélagsins í marsmánuði beinist að þessu sinni að krabbameini í blöðruhálskirtli, greiningu þess og meðferð. Unnið er að þróun gagnvirks tækis sem ætlað er sem stuðningur fyrir sjúklinga og lækna þegar kostir og gallar PSA skimunar eru ræddar. Einnig er vert að minna á að fagfólk hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins er til taks bæði í Skógarhlíð 8 í Reykjavík og í síma 8004040 milli 13:00 og 15:00 alla virka daga.                                                                                                      

Dr. Jón Örn Friðriksson, þvagfæraskurðlæknir við sjúkrahúsið á Akureyri, Landspítala Háskólasjúkrahús og Krabbameinsskrá Íslands.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15.3.2018.


Fleiri nýjar fréttir

Sol-og-solarvarnir-frettabref-1-

17. maí 2024 : Fréttabréf maí mánaðar

Sólin er umræðuefni fréttabréfs maí mánaðar. Við tökum fyrir sólarvarnir og hve miklu máli þær skipta fyrir alla, þó sérstaklega börnin. Þá ræðum við húðkrabbamein sem og ráð fyrir þau sem eru með krabbamein í sumarfríinu.

Lesa meira

16. maí 2024 : Styrkir til gæða­verkefna og vísinda­rannsókna í heil­brigðis­þjónustu

Auglýst er eftir umsóknum um styrki í Minningarsjóð um hjónin Bergþóru Magnúsdóttur og Jakob Júlíus Bjarnason.

Lesa meira

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?