Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 21. mar. 2019

Krabbamein, áfengi og samfélagsleg ábyrgð

Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár, skrifar um tengsl áfengisneyslu og krabbameina og fjallar um stefnu í lýðheilsumálum.

Það eru ekki nýjar fréttir að áfengisneysla auki áhættu á tilteknum krabbameinum. Lengi hefur verið vitað að samband er milli áfengisneyslu og krabbameina í munnholi, koki, barkakýli, vélinda, lifur, brjóstum, ristli og endaþarmi.1,2 Samkvæmt flokkun Alþjóðakrabbameinsrannsóknarstofnunarinnar (IARC) tilheyra áfengi, etanól og acetaldehýð Flokki 1 en í honum eru staðfestir krabbameinsvaldar í mönnum.

Samt sem áður brá mörgum við niðurstöður stórrar rannsóknar er birtist í Lancet í ágústmánuði síðastliðnum.3 Þar kom fram að þótt hófleg neysla (undir einu glasi á dag) geti lækkað áhættu á blóðþurrð í hjarta og á sykursýki hjá konum geri aukin áhætta á krabbameinum og fleiri sjúkdómum meira en að vega upp þau áhrif. Samkvæmt þessu hefur öll áfengisneysla heilsufarsáhættu í för með sér og goðsögnin um að hóflega drukkið vín bæti heilsuna riðar til falls. Fyrri leiðbeiningar hafa jafnvel mælt með einu til tveimur glösum á dag en höfundar reikna með að niðurstöðurnar muni valda breytingum þar á.

Rannsóknin beindi sjónum bæði að umfangi áfengisneyslu og áhrifum hennar á dauðsföll og glötuð góð æviár. Í rannsóknarþýðinu voru alls 28 milljónir manna í 195 löndum og svæðum. Með safngreiningu voru metin tengsl áfengismagns við 23 heilsutengdar útkomur og leiðrétt var fyrir bjögun sem kemur vegna þess að í viðmiðahópnum, það er hópnum sem ekki drekkur neitt áfengi, eru einstaklingar sem eru hættir áfengisneyslu af heilsufars-ástæðum. Fram kom að þriðjungur jarðarbúa neytir áfengis, að rekja má þrjár milljónir dauðsfalla árlega til drykkjunnar og að krabbamein eru þar í efsta sæti hjá einstaklingum yfir 50 ára. Athyglisvert er að neyslan eykst með batnandi efnahag og þjóðfélagsstöðu og þess vegna er spáð auknum heilsufarsvandamálum í löndum sem eru að bæta efnahagsstöðu sína, ef ekki verður brugðist við.

Í annarri nýrri rannsókn sem gerð var af norrænum krabbameinsskrám var áætlað hve mikið af nýgengi krabbameina megi rekja til áfengisneyslu í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.4 Miðað við óbreyttar drykkjuvenjur má búast við samtals 83.000 áfengistengdum tilfellum næstu 30 árin og munu flest þessara meina greinast í ristli, endaþarmi og brjóstum. Óraunhæft er að reikna með að hægt sé að fyrirbyggja öll þessi tilfelli, það er að öll áfengisneysla hverfi á næstunni, en með helmings fækkun í hópi þeirra sem drekka eitt til fjögur glös á dag mætti koma í veg fyrir 21.500 tilfelli.

Þess ber að geta að þótt áfengi valdi mörgum krabbameinum í stóra samhenginu er það aðeins einn af mörgum áhættuþáttum. Þannig skýrir áfengisneysla til dæmis aðeins um 5% brjóstakrabbameina og 3% ristil- og endaþarmskrabbameina á Norðurlöndunum.4 Því er útilokað að segja til um það hvers vegna hver og einn fær sitt krabbamein, enda erum við langt frá því að skilja til hlítar hið flókna samspil erfða og umhverfis sem þar er að verki.

Sýnt hefur verið fram á að þegar sala áfengis er gefin frjáls eykst neyslan til muna. Rannsökuð voru áhrif þess að aflétta ríkiseinokun í Svíþjóð, ef salan færðist annars vegar yfir í einkareknar sérverslanir með áfengi og hins vegar í almennar verslanir.5 Samkvæmt nýlega uppfærðum niðurstöðum myndi drykkjan aukast um 20% ef sérverslanir tækju við, en um 31% ef það yrðu almennar verslanir.6 Áfengistengd dauðsföll vegna krabbameina myndu aukast um 18% (sérverslanir) og 29% (almennar verslanir).

Í september 2016 kynnti velferðarráðuneytið stefnu í lýðheilsu og forvörnum í riti sem nefnist: „Lýðheilsustefna og aðgerðaáætlun sem stuðlar að heilsueflandi samfélagi – með sérstakri áherslu á börn og ungmenni að 18 ára aldri.“ Eitt af markmiðunum var að draga úr áfengis- og vímuefnaneyslu meðal ungs fólks og í því sambandi var bent á að „...meðal virkra aðgerða er stýring á áfengisneyslu með verði, einkasölu ríkis og háum aldursmörkum til áfengiskaupa ...“ og þess var getið að stefnan væri í samræmi við stefnu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) til 2020.

Áfengi er sterklega samofið menningu okkar og umfjöllun um neikvæð áhrif þess á ekki greiða leið að eyrum fólks. Enda hefur WHO bent á að áhrifaríkustu leiðirnar til að draga úr áfengisneyslu séu allar á valdi stjórnvalda og felist í takmörkun á framboði áfengis, verðstýringu og banni við áfengisauglýsingum. Við blasir að slökun á auglýsingabanni og afnám einkasölu ríkisins á áfengi mun valda aukinni neyslu og þar með fjölgun dauðsfalla, meðal annars vegna krabbameina. Vonandi ber Alþingi Íslendinga gæfu til að fara ekki í öfuga átt við lýðheilsustefnu, heldur beini kröftum sínum í farveg sem eflir heilsu, velferð og hamingju landsmanna.

Greinin birtist fyrst í Læknablaðinu.

Heimildir:

1. IARC. Personal habits and indoor combustions. In: IARC Monogr Eval Carcinog Risks Hum 2012. Volume 100E.
2. Secretan B, Straif K, Baan R, Grosse Y, El Ghissassi F, Bouvard V, et al. A review of human carcinogens—Part E: tobacco, areca nut, alcohol, coal smoke, and salted fish. Lancet Oncol 2009; 10: 1033-4.
[CrossRef]
3. GBD 2016 Alcohol Collaborators. Alcohol use and burden for 195 countries and territories, 1990-2016: a systematic analysis for the Global Burden of Disease Study 2016. Lancet 2018; 392: 1015-35.
[CrossRef]
4. Andersson TM, Engholm G, Pukkala E, Stenbeck M, Tryggvadottir L, Storm H, et al. Avoidable cancers in the Nordic countries-The impact of alcohol consumption. Eur J Cancer 2018; 103: 299-307.
[CrossRef]
5. Norström T, Miller T, Holder H, Osterberg E, Ramstedt M, Rossow I, et al. Potential consequences of replacing a retail alcohol monopoly with a private licence system: results from Sweden. Addiction 2010; 105: 2113-9.
[CrossRef]
6. uvic.ca/research/centres/cisur/assets/docs/Systembolaget-public-health-safety-benefits-April_2017.pdf - desember 2018.

Fleiri nýjar fréttir

6. sep. 2019 : Kynningarátak um erfðagjafir

Krabbameinsfélagið hefur tekið höndum saman við sex góðgerðarfélög til að vekja athygli almennings á erfðagjöfum. Yfirskrift átaksins er „Gefðu framtíðinni forskot.“

Lesa meira

4. sep. 2019 : Nú komum við saman: Opið hús á Velunnaradaginn 10. september

Þriðjudaginn 10. september verður opið hús fyrir Velunnara Krabbameinsfélagsins, en það eru þeir sem kjósa að styðja við baráttuna gegn krabbameini með mánaðarlegu framlagi. Þannig gera þeir félaginu kleift að efla stöðugt rannsóknir, fræðslu, forvarnir, ráðgjöf og stuðning í þágu þeirra sem greinst hafa með krabbamein og aðstandenda þeirra.

Lesa meira

4. sep. 2019 : Göngum, hjólum eða hlaupum í skólann!

Krabbameinsfélagið tekur fagnandi hinu árlegu átaki ,,Göngum í skólann“, enda er markmið þess að hvetja börn til aukinnar hreyfingar auk þess að fræða þau, foreldra og starfsfólk skóla um ávinninginn sem felst í reglulegri hreyfingu og stuðla almennt að heilbrigðum lífsstíl fyrir alla fjölskylduna. 

Lesa meira

30. ágú. 2019 : Sterk tengsl milli notkunar tíðahvarfahormóna og brjóstakrabbameins

Í dag birtust í vísindaritinu Lancet niðurstöður stórrar fjölþjóðlegar rannsóknar um tengsl milli notkunar tíðarhvarfahormóna og brjóstakrabbameins. Rannsókninni er stýrt af hópi við Oxford háskóla og í henni er meðal annars stuðst við gögn frá Krabbameinsfélaginu.

Lesa meira

26. ágú. 2019 : Snorri Ingimarsson fyrrverandi forstjóri Krabbameinsfélagsins er látinn

Snorri starfaði bæði sem krabbameinslæknir og geðlæknir og var fyrsti forstjóri Krabbameinsfélags Íslands. Hann gengdi því starfi frá árinu 1984 til 1988. Hann lést í Reykjavík þann 14. ágúst síðastliðinn, 71 árs að aldri. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?