Ása Sigríður Þórisdóttir 9. jún. 2021

Ítrekun vegna umræðu um flutning skimana frá Leitarstöð til opinberra aðila

Í aðdraganda flutnings skimana var þeim sem málið varðaði kynnt að ef leiðbeiningum yrði breytt, yrði að forrita skimunarskránna upp á nýtt. Það átti til dæmis við ef skimunum fyrir forstigum leghálskrabbameina yrði breytt á þann veg að frumskimunin væri HPV-mæling. Félagið kynnti gagnagrunninn sérstaklega fyrir fulltrúa landlæknisembættisins í nóvember 2019 og fram að flutningi skimana voru samskipti varðandi kerfið og virkni þess.

Ítrekun vegna umræðu um flutning skimana frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins til opinberra aðila.

  • Undirbúningi flutnings skimana til opinberra stofnana var ábótavant.
  • Skimunarskrá er lykilverkfæri í krabbameinsskimunum. Hana hefði þurft að forrita út frá nýjum skimunarleiðbeiningum, fyrir áramót.
  • Heilbrigðisráðuneytið tilkynnti Krabbameinsfélaginu, eftir samráð við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að ný rannsóknarstofa skyldi taka við um það bil 2000 órannsökuðum leghálssýnum um áramót.
  • Rannsóknir sýna í Danmörku hafa aukið umsýslu og flækjustig sem valda óþarfa töfum.
  • Ekki liggja fyrir upplýsingar um mætingu kvenna í skimun, biðtíma eftir skimunum eða niðurstöðum.
  • Brýnt er að kynna hvernig og hvenær skimunarferlið verður komið í ásættanlegt horf.
  • Sömuleiðis er afar brýnt að upplýsa almenning í landinu með skýrum hætti um það hvaða breytingar hafi verið gerðar á skimunum og þýðingu þeirra.
  • Krabbameinsfélagið hvetur konur eindregið til að nýta boð í skimun.
  • Krabbameinsfélagið lagði haustið 2018 fram tillögu að stofnun Skimunarmiðstöðvar Íslands.

Krabbameinsfélagið tekur undir með forstjóra heilsugæslunnar og landlækni sem báðir hafa lýst því að undirbúningur fyrir flutning krabbameinsskimana hafi verið ábótavant, vegna vanmats á umfangi verkefnisins. Fulltrúar félagsins og Leitarstöðvar höfðu ítrekað bent á mikilvægi þess að vandað væri til verks.

Í fréttum á RÚV í gær var nefnd skimunarskrá sem Embætti landlæknis keypti af Krabbameinsfélaginu. Segja má að skimunarskráin sé hjartað í skimuninni. Um er að ræða gagnagrunn sem er forritaður sérstaklega út frá þeim skimunarleiðbeiningum sem gilda á hverjum tíma og tengdur við þjóðskrá. Breytist leiðbeiningarnar þarf að endurforrita. Kerfið virkar þannig að það stýrir út frá upplýsingum í þjóðskrá hvaða konum er boðið í skimun og þaðan fara boð, bæði á pappír og rafræn. Við útsendingu boða í skimun eða frekara eftirlit, út frá niðurstöðum skimana, vinnur kerfið síðan út frá þeim skimunarleiðbeiningum sem forritaðar hafa verið inn í kerfið. Svör berast að sama skapi úr kerfinu þegar niðurstöður skimana liggja fyrir.

Á starfstíma Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins var skráin forrituð út frá þeim skimunarleiðbeiningum sem þá giltu.

Í aðdraganda flutnings skimana til opinberra stofnana var þeim sem málið varðaði kynnt að ef leiðbeiningum yrði breytt, yrði að forrita skrána upp á nýtt. Það átti til dæmis við ef skimunum fyrir forstigum leghálskrabbameina yrði breytt á þann veg að frumskimunin væri HPV-mæling. Krabbameinsfélagið kynnti gagnagrunninn sérstaklega fyrir fulltrúa landlæknisembættisins í nóvember 2019 og fram að flutningi skimana voru samskipti varðandi kerfið og virkni þess. Verkefnisstjórn um flutning skimanana fjallaði einnig um skrána.

Kerfið er komið til ára sinna og hefði mátt endurnýja eins og fulltrúar Leitarstöðvar og Krabbameinsfélagsins höfðu oft bent á. Til þess voru hins vegar ekki forsendur á grunni þeirra stuttu þjónustusamninga sem Sjúkratryggingar gerðu við Leitarstöðina. Frá árinu 2013 voru samningarnir endurnýjaðir átta sinnum.

Þegar skimanir fluttu til opinberra stofnana voru teknar upp nýjar skimunarleiðbeiningar. Á sama tíma úreltust þær skimunarleiðbeiningar sem þangað til höfðu verið í gildi. Í kjölfar þess hefði þurft að endurforrita skimunarskrána.

Áréttað skal að eftir samskipti á milli fulltrúa Leitarstöðvarinnar og heilbrigðisráðuneytisins sem hafði samráð við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Sjúkratryggingar Íslands, fékk Leitarstöðin þær upplýsingar frá heilbrigðisráðuneytinu, að taka skyldi leghálssýni til 30. nóvember og taka á móti sýnum frá sjálfstætt starfandi kvensjúkdómalæknum til sama tíma. Ný rannsóknarstofa myndi taka við sýnunum og rannsaka þau. Ráðuneytið hafði verið upplýst um að sýnafjöldinn yrði um 2000. Tilkynning ráðuneytisins gaf enga ástæðu til að ætla að nokkur vandræði hlytust af. https://www.krabb.is/starfsemi/frettir-og-tilkynningar/yfirlysing-vegna-frettar-stodvar-2-og-visis

Í fjölmiðlaumfjöllun eftir áramót hefur verið fjallað um danska rannsóknarstofan sem heilsugæslan samdi við, gat ekki rannsakað að fullu sýni úr þeim sýnatökuglösum sem notuð höfðu verið hér á landi. Leitarstöð Krabbameinsfélagsins hafði ekki verið tilkynnt um að nota ætti önnur glös. Þar hefur einnig komið fram að um áramót hafði ekki verið gengið frá samningum við nýja rannsóknarstofu.

Í fjölmiðlaumfjöllun kom einnig fram að vegna rannsókna í Danmörku þyrfti að breyta íslenskum kennitölum áður en sýni væru send út.

Til viðbótar hefur einnig komið fram að skimunarskráin hefur ekki verið forrituð samkvæmt nýjum leiðbeiningum líkt og upplýst hafði verið um að gera þyrfti og því þarf að handfæra upplýsingar um sýni og niðurstöður þeirra.

Ekki þarf að fjölyrða um að hvort tveggja kallar á mörg aukahandtök sem skapað geta veikleika og tafir sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir með nægum undirbúningi.

Ekki liggur fyrir hver þátttaka kvenna í skimunum er, það sem af er ári, hvorki í legháls- né brjóstaskimunum. Engar áreiðanlegar upplýsingar liggja heldur fyrir um biðtíma eftir skimunum eða niðurstöðum. Markmiðið var að þátttaka yrði meiri en áður og árangur af skimunum enn betri en hingað til. Af tilraunaverkefni Krabbameinsfélagsins má álykta að veruleg lækkun komugjalds kvenna fyrir leghálsskimun ætti að leiða til verulega aukinnar mætingar. Lækkunin er mjög jákvætt skref sem Krabbameinsfélagið hefur lengi lagt áherslu á og vonandi að sama gildi sem fyrst um brjóstaskimanir.

Krabbameinsfélagið hefur ítrekað mikilvægi þess að heilbrigðisyfirvöld upplýsi um hvernig og hvenær skipulag og framkvæmd skimana fyrir krabbameinum verður komið í viðunandi horf. Markmiðin með skimunum fyrir krabbameinum eru stór, að koma í veg fyrir krabbamein og greina þau á byrjunarstigi.

Rétt er að nefna að árangur af skimunum hér á landi hefur hingað til verið á við það besta sem gerist í heiminum.

Traust þarf að ríkja um skimanirnar. Forsenda þess að góður árangur náist áfram er að konur haldi áfram að nýta boð í krabbameinsskimanir. Krabbameinsfélagið hvetur konur eindregið til að mæta þegar boð berst, skimun skiptir máli.

Eins og fram hefur komið er ekki ágreiningur um að undirbúningi fyrir flutning krabbameinsskimana var ábótavant. Miklar breytingar hafa verið gerðar. Umsjón og framkvæmd skimananna voru á hendi eins aðila en hefur nú verið skipt á margar hendur. Ekki virðist skýrt hvar ábyrgð eins lýkur og næsti tekur við. Í ljósi þess er ástæða til að rifja upp tillögu að framtíðarfyrirkomulagi skimana fyrir krabbameinum sem samþykkt var á aukaaðalfundi Krabbameinsfélagsins haustið 2018.

Alyktun-adalfundar-2018





Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?