Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 6. sep. 2020

Ítrekuð ósk eftir afhendingu gagna

Lögmaður Krabbameinsfélagsins hefur að ósk stjórnar félagsins sent Sjúkratryggingum Íslands formlegt erindi þar sem óskað er eftir afhendingu gagna

Sjúkratryggingar Íslands
Maria Heimisdóttir forstjóri
Vínlandsleið 16
113 Reykjavík 


Reykjavík, 6. september 2020 

Varðar: Þjónustusamning Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins og Sjúkratrygginga Íslands

Eins og Sjúkratryggingum Íslands er kunnugt hefur Krabbameinsfélag Íslands og síðar Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands annast um skipulagða leita að krabbameinum í leghálsi og brjóstum í þeim tilgangi að draga úr sjúkdómum og fækka dauðsföllum af þeirra völdum. 

Í framhaldi af viðtali RÚV við Tryggva Björn Stefánsson lækni, fulltrúa Sjúkratrygginga í vinnu við endurskoðun kröfulýsinga, í Kastljósi þann 3. september sl., þar sem fram voru settar mjög alvarlegar fullyrðingar um gæðaeftirlit og gæðaskráningu í leitarstarfi félagsins, hefur starfsemi Leitarstöðvarinnar verið í uppnámi. 

Á fundi fyrirsvarsmanna félagsins með starfsfólki stöðvarinnar, nú í morgun, kom fram að starfsmenn telja sig ekki geta sinnt sínum störfum hjá Leitarstöðinni á meðan þessum órökstuddu fullyrðingum fulltrúa Sjúkratrygginga hefur ekki verið svarað af hálfu þeirra sem fengu hann til að vinna að gerð kröfulýsinga vegna krabbameinsleitarinnar á árinu 2017. 

Eins og fram hefur komið var hvorki starfsfólki Krabbameinsfélagsins né Leitarstöðvarinnar kunnugt um að efasemdir væru af hálfu Sjúkratrygginga eða ráðuneytisins um getu félagsins til að sinna þeim verkefnum sem því voru falin með þjónustusamningnum. 

Hér með er ítrekuð beiðni félagsins frá því í fyrradag og í gær um að Sjúkratryggingar afhendi gögn sem ummælin byggjast á. Í ljósi alvarleika málsins er það krafa félagsins að afhending gagnanna fari fram eigi síðar en á hádegi mánudaginn 7. september. 

 Leggi Sjúkratryggingar fram gögn sem staðfesta ummælin, er það mat félagsins, að ekki verði hjá því komist að loka starfsemi Leitarstöðvarinnar umsvifalaust. 

Geti Sjúkratryggingar ekki afhent gögnin á þessum tímapunkti, lítur Krabbameinsfélagið svo á að þau séu ekki til og að ummæli fulltrúa Sjúkratrygginga um starfsemi félagsins séu staðlausir stafir. Að mati félagsins hefur það þá þýðingu að starfsemi Leitarstöðvarinnar hafi farið fram í samræmi við skyldur samkvæmt þjónustusamningi aðila og að engar forsendur séu til að draga í efa hæfni félagsins og starfsmanna Leitarstöðvarinnar til að sinna þeim skimunarverkefnum sem því ber að annast. Virðingarfyllst,

Fyrir hönd Krabbameinsfélags Íslands ogLeitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands 

Afrit:
Embætti landlæknis
Heilbrigðisráðuneytið

 


Fleiri nýjar fréttir

20. sep. 2023 : Beint streymi: Málþing í tilefni alþjóða­dags krabba­meins­rannsókna

„Varðar mig eitthvað um krabba­meins­rann­sóknir? Já, því vísindin eru leiðin fram á við”. Þannig hljómar titill málþings sem Krabba­meins­félagið býður til í tilefni alþjóða­dags krabba­meins­rann­sókna fimmtu­daginn 21. september kl. 16:30 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8.

Lesa meira

12. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023: Komdu að leika

Krabbameinsfélagið leitar að fólki til að hjálpa okkur að búa til auglýsinguna fyrir Bleiku Slaufuna 2023. Auglýsingin er með stærra sniði í ár og þurfum við því aðstoð sem allra flestra.

Lesa meira

7. sep. 2023 : Tryggðu þér miða

Nú styttist í Bleiku slaufuna árlegt fjáröflunar- og árvekniátak Krabbameinsfélagsins, tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Tryggðu þér miða á opnunarviðburðinn sem verður í Þjóðleikhúsinu 28. september.

Lesa meira

5. sep. 2023 : „Ef ég held röddinni þá læt ég reyna á þetta“

Ljóðskáldið og rithöfundurinn Anton Helgi Jónsson stóð fyrir einstökum viðburði á Menningarnótt og safnaði um leið áheitum til styrktar Krabbameinsfélaginu. Viðburðurinn fékk heitið Ljóðamaraþon og gekk út á ljóðalestur undir berum himni í jafn langan tíma og sem nemur heimsmeti í maraþonhlaupi, eða í rúma tvo klukkutíma. Anton Helgi segir hér frá krabbameininu sem uppgötvaðist fyrir tilviljun, kirkjuskáldum og kráarskáldum og öðruvísi maraþonundirbúningi.

Lesa meira

5. sep. 2023 : Upplýsingafundur fyrir samstarfsaðila Bleiku slaufunnar

Vill þitt fyrirtæki vera samstarfsaðili Bleiku slaufunnar? Komdu á upplýsingafund sem haldinn verður í húsnæði Krabbameinsfélagsins 8. september nk. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?