Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 31. jan. 2020

Íslensk krabbameinsáætlun er lykill að árangri

  • Halla Þorvaldsdóttir
    Halla Þorvaldsdóttir er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands

Á árunum 2013-2016 vann ráðgjafarhópur á vegum velferðarráðherra að tillögum að íslenskri krabbameinsáætlun sem ætlað var að gilda út árið 2020. Halla Þorvaldsdóttir skrifar. 

Tillögurnar voru gefnar út árið 2017, en lítið gerðist fyrr en í lok janúar 2019, þegar Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti að hún hyggðist vinna út frá þeim og fella krabbameinsáætlun að Heilbrigðisstefnu til ársins 2030. 

Lítil umræða hefur verið um þessa tímamótaákvörðun heilbrigðisráðherra sem okkur hjá Krabbameinsfélaginu finnst ástæða til að vekja athygli á. Árið 2002 gaf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin út leiðbeiningar um gerð krabbameinsáætlana, en þær eru áætlun hverrar þjóðar um hvernig skuli haga málum til að fækka nýgreiningum, draga úr dánartíðni og bæta lífsgæði einstaklinga með krabbamein. Þær skulu innihalda ákveðna þætti, vera heildstæðar og samfelldar og ná til allra þátta heilbrigðiskerfisins og annarra tengdra stofnana. Margt af því sem nefnt er í íslensku krabbameinsáætluninni er þegar til staðar og íslenskt samfélag er í fremstu röð varðandi greiningu og meðferð krabbameina. 

Fjölgun krabbameinstilvika 

Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins spáir um 25-30% fjölgun krabbameinstilvika til ársins 2030. Ástæðan er fyrst og fremst hækkandi aldur þjóðarinnar. Sú staðreynd, auk sífellt betri meðferðar og greiningaraðferða, gerir krabbameinsáætlun enn mikilvægari, þar sem fleiri og fleiri munu til dæmis lifa með krabbamein sem langvinnan sjúkdóm. Krabbameinsáætlun er nauðsynlegt leiðarljós, enda augljóst að ef stefna og markmið eru skýr næst betri árangur. Með því að fylgja eftir vandaðri krabbameinsáætlun getum við haldið stöðu okkar í fremstu röð og jafnvel náð enn betri árangri. Þá getum við tryggt krabbameinssjúklingum fyrsta flokks samfellda, heildræna og örugga þjónustu með góðri og skynsamlegri nýtingu starfsfólks og fjármagns. 

Rafræn gæðaskráning hafin 

Krabbameinsfélagið hefur lengi þrýst á að íslensk krabbameinsáætlun líti dagsins ljós og lagði til umtalsverða fjármuni við undirbúning tillagnanna. Í kjölfar þess að áætlunin var samþykkt, hélt Krabbameinsfélagið starfsdag með starfsfólki og fulltrúum aðildarfélaga, þar sem unnið var með þau 10 markmið sem eru í áætluninni og þeim forgangsraðað. Niðurstaða starfsdagsins var að brýnast sé að tryggja að gæðavísar séu til um þá þjónustu sem sjúklingum býðst. Þeim sé svo fylgt eftir með gæðaskráningu og árangursmati, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein, þar til meðferð og endurhæfingu er lokið. Rafræn skráning á gæðum meðferðar við krabbameinum er hafin í samstarfi Krabbameinsskrár Krabbameinsfélagsins og Landspítala. Sú skráning hefur þegar sannað gildi sitt, en þarf að yfirfæra á mun fleiri þætti, svo sem á mat á líðan og endurhæfingarþörfum sjúklinga. Þeir sem tóku þátt í starfsdeginum þekkja þann góða árangur sem Íslendingar hafa náð í meðferð krabbameina. Þeir eru sammála um að árangursmat og gæðaskráning á meðferð og þjónustu, samræmdir verkferlar og samfella í þjónustu, séu stór liður í því að tryggja áframhaldandi góðan árangur. Með gæðaskráningu er til dæmis hægt að fylgjast með því hvort ákvörðun um meðferð er tekin á samráðsfundum, hvort sjúklingum er veitt of lítil eða of mikil meðferð eða hvort endurhæfingarþarfir eru metnar reglubundið. 

Danir vinna nú út frá fjórðu krabbameinsáætlun sinni og í gegnum hana hefur þeim, sem áður voru eftirbátar annarra Norðurlanda í ýmsu tengdu krabbameinum, tekist að bæta árangur umtalsvert. Krabbameinsáætlanir hafa sannað gildi sitt í nágrannalöndum okkar og íslensk krabbameinsáætlun á örugglega eftir að gera það líka.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins 2020.


Fleiri nýjar fréttir

29. sep. 2023 : Slökkti fyrst eld og keypti svo Bleiku slaufuna

Það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að sala Bleiku slaufunnar hófst á miðnætti í dag, 29. september. Nágranni Krabbameinsfélagsins, Bergrún Ingimarsdóttir, varð fyrst til að tryggja sér slaufu ársins. Það mátti þó litlu muna að það tækist ekki vegna elds sem hún þurfti að ráða niðurlögum að.

Lesa meira

27. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023

Gullsmiðirnir Lovísa Halldórsdóttir (by lovisa) og Unnur Eir Björnsdóttir (EIR) eru hönnunarteymið á bak við Bleiku slaufuna í ár. Það er óhætt að segja að þeim hafi tekist ætlunarverk sitt, en slaufan í ár er sú bleikasta sem við höfum séð lengi

Lesa meira

26. sep. 2023 : "Mikilvægt að segja líka frá því sem gengur vel"

Styttri legutími, skjótari bati, lægri dánartíðni og betri lifun. Ný aðferðafræði við skurðaðgerðir við lungnakrabbameini var tekin upp nærri því á einni nóttu og hefur gefið reglulega góða raun í baráttunni gegn lungnakrabbameini. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir og Viktor Ásbjörnsson læknanemi segja hér frá byltingarkenndri þróun í skurðaðgerðum við lungnakrabbameini og mikilvægi rannsókna og stuðnings við þær fyrir framþróun í málaflokkinum. 

Lesa meira

26. sep. 2023 : Takk fyrir komuna

Nýafstaðið málþing í tilefni af alþjóðadegi krabbameinsrannsókna vakti greinilega forvitni margra, því húsfyllir var í Skógarhlíðinni auk þess sem fjölmargir fylgdust með í streymi. Krabbameinsfélagið vill koma á framfæri kærum þökkum til allra sem tóku þátt.

Lesa meira
Elísa Dögg Björnsdóttir frá TVG-Zimsen, Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður markaðsmála og  fjáröflunar hjá Krabbameinsfélaginu og Magnús Ingi Guðmundsson frá IDÉ House of brands, sem sér um framlei

25. sep. 2023 : Nú er það bleikt!

Að baki átaki eins og Bleiku slaufunni búa fjölmörg handtök og undirbúningur hefst mörgum mánuðum áður en afurðin berst landsmönnum í hendur og hjörtu. Það er því alltaf stór stund þegar við fáum sjálfa slaufuna í hús og niðurtalningin fyrir upphaf átaksins hefst formlega.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?