Ása Sigríður Þórisdóttir 27. apr. 2022

Á Íslandi var fækkun krabbameinsgreininga í COVID-19 minni en á flestum hinna Norðurlandanna.

Í nýrri norrænni rannsókn var kannað hvort fækkun hefði orðið á greiningum krabbameina árið 2020 í tengslum við COVID-19 heimsfaraldurinn. Gerður var nákvæmur samanburður við árin á undan og milli Danmerkur, Finnlands, Færeyja, Íslands, Noregs og Svíþjóðar.

Niðurstöðurnar sýndu að í apríl og maí fækkaði krabbameinsgreiningum í öllum löndunum nema Færeyjum, mest var fækkunin í Svíþjóð (31% í maí) en minnst á Íslandi (17% í maí). Seinni hluta ársins 2020 fjölgaði aftur á móti krabbameinsgreiningum á Íslandi og í árslok hafði fjöldi nýrra greininga náð að bæta upp fækkunina sem orðið hafi á fyrsta ársfjórðungi. Greiningum fjölgaði einnig í Danmörku og Noregi, þó í minna mæli en hérlendis. Staðan var öllu verri í Svíþjóð og Finnlandi þar sem heildarfækkun greininga var 6,2% (Svíþjóð) og 3,6% (Finnlandi). Breytingar í Færeyjum voru innan skekkjumarka (hægt er að sjá línurit fyrir hvert land hér: https://onlinelibrary.wiley.com/doi/epdf/10.1002/ijc.34029).

Seinkun á greiningu krabbameins getur leitt til þess að meinið greinist á hærra stigi, sem aftur tengist verri horfum. Reikna má með að heildarfækkun krabbameinsgreininga árið 2020 hjá Svíum og Finnum verði bætt upp árin 2021 og 2022, en þá er hætt við að mörg meinanna muni greinast á hærri stigum. Á Íslandi fluttust greiningarnar aðeins til innan ársins 2020 og því er síður von á alvarlegum afleiðingum síðkominna greininga hérlendis..

Þjóðfélagslegar takmarkanir vegna heimsfaraldursins voru mun minni í Svíþjóð en á hinum Norðurlöndunum. Þar var einkum byggt á tilmælum og höfðað til ábyrgðar einstaklingsins en ekki farið út í lokun samfélagsins, með lokun skóla og vinnustaða. Á hinum Norðurlöndunum voru harðari samkomutakmarkanir og samfélaginu nánast lokað frá því í mars 2020.

Faraldurinn geisaði af lang mestum þunga í Svíþjóð með umtalsvert hærri sýkingatíðni og sjúkrahúsinnlögnum vegna COVID-19 en á hinum Norðurlöndunum. Þetta endurspeglaðist í margfalt hærri dánartíðni í Svíþjóð, eða 97,2 af 100.000 miðað við 22,4 í Danmörku, 11,4 í Finnlandi, 8,5 í Noregi og á Íslandi og 1,7 í Færeyjum.

Niðurstöður þessar norrænu rannsóknar benda til þess að alvarleiki faraldursins í viðkomandi landi hafi átt sterkari þátt í því að fresta krabbameinsgreiningum heldur samkomutakmarkanir og önnur skerðing á frelsi til venjubundinnar starfsemi samfélagsins svo sem skólahalds og mætingar á vinnustað.

Einnig gefa niðurstöðurnar til kynna að betur hafi tekist á Íslandi að viðhalda eðlilegri starfsemi heilbrigðisþjónustunnar í faraldrinum en víðast hvar á Norðurlöndunum.

Vísindamenn frá Rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélagsins tóku þátt í þessari norrænu rannsókn sem byggði á efniviði norrænna krabbameinsskráa.

COVID-19 heimsfaraldurinn leiddi til fækkunar á greiningum nýrra tilfella krabbameina á Norðurlöndunum og mestu áhrifin voru í Svíþjóð. Hugsanlegar skýringar eru alvarleiki faraldursins, tímabundin stöðvun skimunar fyrir krabbameinum og breytingar á því hvernig fólk leitaði til heilbrigðisþjónustunnar.

Mikilvægt er að fylgjast áfram með nýgengi krabbameina og stigum

„Rannsóknin okkar sýnir svipaðar tilhneigingar til fækkunar krabbameinsgreininga hjá fimm Norðurlöndum í apríl og maí 2020 en mest fækkaði í Svíþjóð. Upphaf heimsfaraldursins var mikið óvissutímabil sem hafði væntanlega áhrif á hegðun fólks varðandi það hversu fljótt það leitaði sér læknisaðstoðar vegna einkenna krabbameina. Skimun var stöðvuð tímabundið í sumum löndum og jafnvel þótt opið væri var minni þátttaka. Sem betur fer náði greiningarvirknin sér á strik seinni hluta ársins í öllum löndum, þótt Svíum og Finnum tækist ekki að vinna upp fækkunina sem varð í byrjun árs. Við þurfum að fylgjast með því hvort þessi frestun sem við sjáum á greiningum muni leiða til aukinnar tíðni krabbameina á hærri stigum.” segja Laufey Tryggvadóttir forstöðumaður og Helgi Birgisson yfirlæknir Rannsókna- og skráningarseturs Krabbameinsfélagsins.

Greinin:

”The impact of the COVID-19 pandemic on cancer diagnosis based on pathology notifications: A comparison across the Nordic countries during 2020”. Anna LV Johansson, Siri Larønningen, Charlotte Wessel Skovlund, Marnar Fríðheim Kristiansen, Lina Steinrud Mørch, Søren Friis, Tom Børge Johannesen, Tor Åge Myklebust, Anna Skog, David Pettersson, Helgi Birgisson, Anni Virtanen, Nea Malila, Janne Pitkäniemi, Tomas Tanskanen, Laufey Tryggvadóttir, Giske Ursin, Mats Lambe. International Journal of Cancer, 25. maí 2022. doi: 10.1002/ijc.34029. https://onlinelibrary.wiley.com/doi/epdf/10.1002/ijc.34029


Fleiri nýjar fréttir

26. sep. 2023 : "Mikilvægt að segja líka frá því sem gengur vel"

Styttri legutími, skjótari bati, lægri dánartíðni og betri lifun. Ný aðferðafræði við skurðaðgerðir við lungnakrabbameini var tekin upp nærri því á einni nóttu og hefur gefið reglulega góða raun í baráttunni gegn lungnakrabbameini. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir og Viktor Ásbjörnsson læknanemi segja hér frá byltingarkenndri þróun í skurðaðgerðum við lungnakrabbameini og mikilvægi rannsókna og stuðnings við þær fyrir framþróun í málaflokkinum. 

Lesa meira

26. sep. 2023 : Takk fyrir komuna

Nýafstaðið málþing í tilefni af alþjóðadegi krabbameinsrannsókna vakti greinilega forvitni margra, því húsfyllir var í Skógarhlíðinni auk þess sem fjölmargir fylgdust með í streymi. Krabbameinsfélagið vill koma á framfæri kærum þökkum til allra sem tóku þátt.

Lesa meira
Elísa Dögg Björnsdóttir frá TVG-Zimsen, Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður markaðsmála og  fjáröflunar hjá Krabbameinsfélaginu og Magnús Ingi Guðmundsson frá IDÉ House of brands, sem sér um framlei

25. sep. 2023 : Nú er það bleikt!

Að baki átaki eins og Bleiku slaufunni búa fjölmörg handtök og undirbúningur hefst mörgum mánuðum áður en afurðin berst landsmönnum í hendur og hjörtu. Það er því alltaf stór stund þegar við fáum sjálfa slaufuna í hús og niðurtalningin fyrir upphaf átaksins hefst formlega.

Lesa meira

12. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023: Komdu að leika

Krabbameinsfélagið leitar að fólki til að hjálpa okkur að búa til auglýsinguna fyrir Bleiku Slaufuna 2023. Auglýsingin er með stærra sniði í ár og þurfum við því aðstoð sem allra flestra.

Lesa meira

7. sep. 2023 : Tryggðu þér miða

Nú styttist í Bleiku slaufuna árlegt fjáröflunar- og árvekniátak Krabbameinsfélagsins, tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Tryggðu þér miða á opnunarviðburðinn sem verður í Þjóðleikhúsinu 28. september.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?