Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 29. okt. 2019

Ís­lensk krabba­meins­á­ætlun er lykill að árangri

  • Halla Þorvaldsdóttir
    Halla Þorvaldsdóttir er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands

Á árunum 2013 til 2016 vann ráðgjafarhópur á vegum velferðarráðherra að tillögum að íslenskri krabbameinsáætlun sem ætlað var að gilda út árið 2020.

Tillögurnar voru gefnar út árið 2017 en lítið gerðist fyrr en í lok janúar 2019, þegar Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti að hún hygðist vinna út frá þeim og fella krabbameinsáætlun að Heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Lítil umræða hefur verið um þessa tímamótaákvörðun heilbrigðisráðherra sem okkur hjá Krabbameinsfélaginu finnst ástæða til að vekja athygli á. Árið 2002 gaf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin út leiðbeiningar um gerð krabbameinsáætlana, en þær eru áætlun hverrar þjóðar um hvernig skuli haga málum til að fækka nýgreiningum, draga úr dánartíðni og bæta lífsgæði einstaklinga með krabbamein. Þær skulu innihalda ákveðna þætti, vera heildstæðar og samfelldar og ná til allra þátta heilbrigðiskerfisins og annarra tengdra stofnana. Margt af því sem nefnt er í íslensku krabbameins­áætluninni er þegar til staðar og íslenskt samfélag er í fremstu röð varðandi greiningu og meðferð krabbameina.

Fjölgun krabbameinstilvika

Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands spáir um 25-30% fjölgun krabbameinstilvika til ársins 2030. Ástæðan er fyrst og fremst hækkandi aldur þjóðarinnar. Sú staðreynd, auk sífellt betri meðferðar og greiningaraðferða, gerir krabbameinsáætlun enn mikilvægari þar sem fleiri og fleiri munu til dæmis lifa með krabbamein sem langvinna sjúkdóma. Hún er nauðsynlegt leiðarljós enda augljóst að ef stefna og markmið eru skýr næst betri árangur. Með því að fylgja eftir vandaðri krabbameinsáætlun getum við haldið stöðu okkar í fremstu röð og jafnvel náð enn betri árangri. Þá getum við tryggt krabbameinssjúklingum fyrsta flokks samfellda, heildræna og örugga þjónustu með góðri og skynsamlegri nýtingu starfsfólks og fjármagns.

Rafræn gæðaskráning hafin

Krabbameinsfélagið hefur lengi þrýst á að íslensk krabbameins­áætlun líti dagsins ljós og lagði til umtalsverða fjármuni við undirbúning tillagnanna. Í kjölfar þess að áætlunin var samþykkt hélt Krabbameinsfélagið starfsdag með starfsfólki og fulltrúum aðildarfélaga þar sem unnið var með þau 10 markmið sem eru í áætluninni og þeim forgangsraðað. Niðurstaða starfsdagsins var að brýnast sé að tryggja að gæðavísar séu til um þá þjónustu sem sjúklingum býðst. Þeim sé svo fylgt eftir með gæðaskráningu og árangursmati, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein þar til meðferð og endurhæfingu er lokið. Rafræn skráning á gæðum meðferðar við krabbameinum er hafin í samstarfi Krabbameinsskrár Krabbameinsfélagsins og Landspítala. Sú skráning hefur þegar sannað árangur sinn en þarf að yfirfæra á mun fleiri þætti, svo sem á mat á líðan og endurhæfingarþörfum sjúklinga. Þátttakendur í framangreindum starfsdegi þekkja þann góða árangur sem Íslendingar hafa náð í meðferð krabbameina. Að þeirra mati er árangursmat og gæðaskráning á meðferð og þjónustu, samræmdir verkferlar og samfella í þjónustu stór liður í að tryggja áframhaldandi góðan árangur. Með gæðaskráningu er til dæmis hægt að fylgjast með því hvort ákvörðun um meðferð er tekin á samráðsfundum, hvort sjúklingum er veitt of lítil eða of mikil meðferð eða hvort endurhæfingarþarfir eru metnar reglubundið.

Danir vinna nú út frá fjórðu krabbameinsáætlun sinni og í gegnum hana hefur þeim, sem áður voru eftirbátar annarra Norðurlanda í ýmsu tengdu krabbameinum, tekist að bæta árangur umtalsvert. Krabbameinsáætlanir hafa sannað gildi sitt í nágrannalöndum okkar og íslensk krabbameinsáætlun á örugglega eftir að gera það líka.

Greinin var fyrst birt í Fréttablaðinu.


Fleiri nýjar fréttir

12. ágú. 2020 : Landspítali á hrós skilið fyrir að tæma biðlista

Krabbameinsfélagið fagnar því að ekki er lengur biðlisti hjá Landspítala eftir klínískum brjóstaskoðunum. Mikilvægt er að tryggja að þessari stöðu verði haldið og biðlistinn myndist ekki aftur.

Lesa meira

4. ágú. 2020 : Reykjavíkur­maraþoni Íslands­banka aflýst

Góðgerðarfélögin munu halda sínum áheitum þó svo að hlaupið fari ekki fram. Leitað er leiða til að halda söfnuninni áfram og verður upplýsingum þar að lútandi komið á framfæri á næstu dögum.

Lesa meira

30. júl. 2020 : Notum andlits­grímur í heimsókn á Leitar­stöðina

Þeim sem heimsækja Leitarstöðina ber að nota andlitsgrímur við skimunina. 

Lesa meira

6. júl. 2020 : Krabbamein fer ekki í frí

Vitundarvakning Krafts sem snýr að því að kynna fólki opnunartíma þjónustuaðila sem sinna krabbameinsgreindum og aðstandendum þar sem starfsemi og þjónusta getur oft verið minni yfir sumartímann.

Lesa meira

6. júl. 2020 : Sumaropnun hjá Ráðgjafarþjónustunni

Breyting á opnunartíma í júlí hjá Ráðgjafarþjónustunni í Reykjavík og á landsbyggðinni: Akureyri, Austurlandi, Selfossi og Suðurnesjum.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?