Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 5. des. 2019

Hvernig nennirðu þessu?

  • Árni Einarsson er formaður Krabbameinsfélags Höfuðborgarsvæðisins.

Í dag er alþjóðadagur sjálfboðaliða og Árni Einarsson formaður Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins skrifar:

Í dag, 5. desember, er haldið upp á alþjóðlegan dag sjálfboðaliða. Þetta er ekki einn af þessum dögum sem vekja mikla athygli og umtal. Engu að síður varðar tilefni hans okkur öll svo ótrúlega mikið.

Tilvist og starfsemi almannaheillasamtaka er hugsanlega svo sjálfsögð í huga okkar að við leiðum hugann lítið að því hvaða þýðingu slík samtök hafa. Það væri kannski fyrst ef þau hyrfu af vettvangi að við fyndum áþreifanlega fyrir mikilvægi þeirra. Í það minnsta má ljóst vera að nyti þeirra ekki við yrðu opinberir aðilar í ríkari mæli að koma beint að fjár­mögnun og framkvæmd ýmissa samfélagslegra verkefna sem nú eru í höndum almannaheillasamtaka og sum verkefni myndu hreinlega hverfa. Margt af því sem við tökum sem gefnu nú er afrakstur frumkvæðis og baráttu almannaheillasamtaka. Leiðum hugann að því.

Nánast daglega varðar starfsemi almannaheillasamtaka líf okkar á einhvern hátt, svo sem starf íþróttafélaga, æskulýðsfélaga, foreldrafélaga, félaga sem koma að menningar- og listalífi, réttindamálum, velferðarmálum, stjórnmálum og þjónustu af ýmsum toga. Að baki þessu starfi er ekki einungis launað starfsfólk. Þar standa líka vaktina þúsundir fólks sem ver ómældum vinnustundum endurgjaldslaust í okkar þágu og samfélagsins.

Við skulum heldur ekki gleyma að almannaheillasamtök hafa miklu lýðræðishlutverki að gegna. Þau eru vettvangur okkar til þess að hafa áhrif á þróun samfélagsins; vettvangur þar sem við æfum okkur í þeim grundvallarleikreglum sem lýðræðið byggir á, ræðum hlutina í návígi, tökumst á um skiptar skoðanir, leitum samstöðu, leggjum línur um leiðir og framkvæmd verkefna sem ákveðið er að ráðast í.

Ég hef stærstan hluta ævi minnar starfað á vettvangi almannaheillasamtaka og verið spurður að því hvernig í ósköpunum ég nenni að „eyða“ tímanum í eitthvað sem ég fæ ekkert greitt fyrir. Ég lít ekki þannig á. Fyrir utan tækifærið til þess að taka þátt í að móta umhverfi og samfélag, er það vettvangur til þess að kynnast og starfa með fjölda góðra manna og kvenna sem auðga tilveruna og næra mennskuna. Það er ekki svo lítils virði.

Dagur sjálfboðaliðans er kjörið tækifæri til þess að leiða hugann að mikilvægi almannaheillasamtaka og finna sér félag eða samtök til þess að skrá sig í. Það er ein leið til þess að hafa áhrif á gang mála í samfélaginu.

Árni Einarsson, stjórnarmaður í Almannaheillum, samtökum þriðja geirans, og stjórnarmaður og félagi í fjölmörgum almannaheillasamtökum.


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?