Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 5. des. 2019

Hvernig nennirðu þessu?

  • Árni Einarsson er formaður Krabbameinsfélags Höfuðborgarsvæðisins.

Í dag er alþjóðadagur sjálfboðaliða og Árni Einarsson formaður Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins skrifar:

Í dag, 5. desember, er haldið upp á alþjóðlegan dag sjálfboðaliða. Þetta er ekki einn af þessum dögum sem vekja mikla athygli og umtal. Engu að síður varðar tilefni hans okkur öll svo ótrúlega mikið.

Tilvist og starfsemi almannaheillasamtaka er hugsanlega svo sjálfsögð í huga okkar að við leiðum hugann lítið að því hvaða þýðingu slík samtök hafa. Það væri kannski fyrst ef þau hyrfu af vettvangi að við fyndum áþreifanlega fyrir mikilvægi þeirra. Í það minnsta má ljóst vera að nyti þeirra ekki við yrðu opinberir aðilar í ríkari mæli að koma beint að fjár­mögnun og framkvæmd ýmissa samfélagslegra verkefna sem nú eru í höndum almannaheillasamtaka og sum verkefni myndu hreinlega hverfa. Margt af því sem við tökum sem gefnu nú er afrakstur frumkvæðis og baráttu almannaheillasamtaka. Leiðum hugann að því.

Nánast daglega varðar starfsemi almannaheillasamtaka líf okkar á einhvern hátt, svo sem starf íþróttafélaga, æskulýðsfélaga, foreldrafélaga, félaga sem koma að menningar- og listalífi, réttindamálum, velferðarmálum, stjórnmálum og þjónustu af ýmsum toga. Að baki þessu starfi er ekki einungis launað starfsfólk. Þar standa líka vaktina þúsundir fólks sem ver ómældum vinnustundum endurgjaldslaust í okkar þágu og samfélagsins.

Við skulum heldur ekki gleyma að almannaheillasamtök hafa miklu lýðræðishlutverki að gegna. Þau eru vettvangur okkar til þess að hafa áhrif á þróun samfélagsins; vettvangur þar sem við æfum okkur í þeim grundvallarleikreglum sem lýðræðið byggir á, ræðum hlutina í návígi, tökumst á um skiptar skoðanir, leitum samstöðu, leggjum línur um leiðir og framkvæmd verkefna sem ákveðið er að ráðast í.

Ég hef stærstan hluta ævi minnar starfað á vettvangi almannaheillasamtaka og verið spurður að því hvernig í ósköpunum ég nenni að „eyða“ tímanum í eitthvað sem ég fæ ekkert greitt fyrir. Ég lít ekki þannig á. Fyrir utan tækifærið til þess að taka þátt í að móta umhverfi og samfélag, er það vettvangur til þess að kynnast og starfa með fjölda góðra manna og kvenna sem auðga tilveruna og næra mennskuna. Það er ekki svo lítils virði.

Dagur sjálfboðaliðans er kjörið tækifæri til þess að leiða hugann að mikilvægi almannaheillasamtaka og finna sér félag eða samtök til þess að skrá sig í. Það er ein leið til þess að hafa áhrif á gang mála í samfélaginu.

Árni Einarsson, stjórnarmaður í Almannaheillum, samtökum þriðja geirans, og stjórnarmaður og félagi í fjölmörgum almannaheillasamtökum.


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?