Birna Þórisdóttir 16. okt. 2018

Hrunið og krabbamein

Í tilefni þess að tíu ár eru frá hruni koma hér hugleiðingar um hrunið og krabbamein.

Undanfarnar vikur hefur efnahagshrunið 2008 verið í brennidepli og meðal annars verið fjallað um rannsóknir á heilsu þjóðarinnar eftir hrun. Eftir hrun reyktu landsmenn minna og drukku minna áfengi, einnig dró úr neyslu sykraðra drykkja, sælgætis, skyndibita og notkun ljósabekkja. Breytingin var þó skammlíf og neysla fór fljótlega aftur í svipað horf og fyrir hrun, með þeirri undantekningu að áfengisneysla virðist vera minni nú en fyrir rúmum tíu árum síðan (1).

Talið er að hægt sé að koma í veg fyrir allt að helming allra krabbameina með heilbrigðum lífsvenjum og það að forðast tóbak og áfengi og stefna að kjörþyngd eru veigamestu þættirnir til að draga úr líkum á krabbameini (2). Aðrir áhrifaþættir eru hollt mataræði og regluleg hreyfing, að forðast of mikla sól og ljósabekki, forðast eins og hægt er óbeinar reykingar, mengandi efni og langvarandi notkun tíðahvarfahormóna. Brjóstagjöf er talin minnka áhættu á brjóstakrabbameini hjá móður og bólusetning fyrir HPV-veirum veitir góða vörn gegn leghálskrabbameini. Loks má nefna að þátttaka í reglubundinni skimun fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum skiptir sköpum því þannig er oft unnt að greina krabbamein á for- eða snemmstigi. Því fyrr sem krabbamein greinist, því fyrr er hægt að bregðast við og því betri eru horfurnar.

Rannsóknir á áhrifum hrunsins benda til þess að samræmi sé milli þess hve mikið tóbaksnotkun og áfengisneysla drógust saman eftir hrun og þess hve mikið þessar vörur hækkuðu í verði, en tóbak og áfengi urðu töluvert dýrari en áður (3). Íslenskar rannsóknir hafa einnig sýnt að fólk sem á erfitt með að ná endum saman borðar minna af hollustuvörum, svo sem grænmeti, ávöxtum og grófu brauði, og meira af sykri en fólk sem hefur meira á milli handanna (4).

Með þessum stutta pistli vill Krabbameinsfélagið hvetja einstaklinga til að tileinka sér heilsusamlega lifnaðarhætti sem draga úr líkum á því að fá krabbamein. Hér er að finna góð ráð. Krabbameinsfélagið skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir því að álögur á neysluvörur séu í samræmi við hollustu, eða óhollustu þeirra, t.d. með hærri álögum á tóbak, áfengi og matvæli með viðbættum sykri og lægri álögum á holl matvæli.

Krabbameinsfélagið hvetur einnig allar konur til að taka þátt í reglubundinni skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini og vinkonuhópa til að taka í sameiningu ábyrgð á því að „konurnar þeirra“ nýti tækifæri til skimunar. Hér má lesa meira um áskorun Bleiku slaufunnar 2018 og skrá vinkonuhópa til leiks.

Þekkingu á orsökum krabbameins hefur fleygt fram á undanförnum árum og ekki ætti að þurfa efnahagshrun til að neysluhættir landsmanna breytist til batnaðar.

Við getum komið í veg fyrir krabbamein – saman.

 

Heimildir:

  1. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir o.fl. Lifecycle effects of a recession on health behaviors: Boom, burst and recovery in Iceland. Econ Hum Biol 2016 Mar;20:90-107.
  2. Shüz o.fl. European Code against Cancer 4th Edition: 12 ways to reduce your cancer risk. Cancer Epidemiol 2015 Dec;39 Suppl 1:S1-10.
  3. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir o.fl. Was the economic crisis of 2008 good for Icelanders? Impact on health behaviors. Econ Hum Biol 2014 Mar;13:1-19.
  4. Laufey Steingrímsdóttir o.fl. Kannanir á mataræði og næringargildi fæðunnar á Íslandi: Tengsl efnahagsþrenginga og hollustu. Læknablaðið 2014 Des;100(12):659-664.

 

 

 


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?