Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 5. mar. 2018

Guðni fór í sokkana

Í dag hófst Mottumars formlega þegar Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, var afhent sokkapar sem selt er til styrktar átakinu. 

Í dag hófst Mottumars formlega þegar Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, var afhent sokkapar sem selt er til styrktar átakinu. Mottumars er árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands tileinkað körlum og krabbameinum. Í ár er sjónum beint að krabbameini í blöðruhálskirtli. Í nýrri auglýsingu syngur Rakarakvartett Mottumars um einkenni sjúkdómsins, en myndbandið má sjá hér. Sokkarnir kosta 2.000 krónur og verða seldir í netverslun Krabbameinsfélagsins og í verslunum víða um land sem finna má upplýsingar um á mottumars.is

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, afhenti Guðna jakka í rakarastofustíl við þetta tækifæri, einn af fjórum jökkum sem hannaðir voru sérstaklega fyrir auglýsinguna. Jakkarnir eru í íslensku fánalitunum og hinir þrír verða boðnir upp á Mottudaginn 16. mars næstkomandi. Forsetinn taldi ekki ólíklegt að jakkinn gæti komið að góðum notum þegar færi að horfa á „Stelpurnar“ eða „Strákana“ okkar.

„Svo hvet ég alla til að láta gott af sér leiða. Allir sem vettlingi geta valdið að kaupa sokka,“ sagði Guðni að lokum en sagðist aðspurður ekki hafa látið skoða blöðruhálsinn þar sem einungis væri mælt með að karlmenn með einkenni gerðu það.

Krabbameinsfélagið bendir á að hafi karlmenn þau einkenni sem sungið er um í laginu eru þeir hvattir til að leita til heilsugæslu.

Í Mottumars er safnað fyrir Karlaklefanum, vefgátt fyrir karla, þar sem finna má upplýsingar um allt sem viðkemur karlmönnum og krabbameinum. Í grein Ásgeirs R. Helgasonar í Fréttablaðinu í morgun kemur fram að karlmenn með krabbamein séu oft á tíðum félagslega einangraðir og hafi þörf fyrir karllægt viðmót þegar kemur að því að tala um erfiðleika tengda sjúkdómum.

Fram til þessa hefur Mottumars einkennst af yfirvaraskeggjum, en síðustu ár hefur áhugi karlmanna á að safna yfirvaraskeggi dvínað og þátttaka í Mottukeppninni farið minnkandi. Því var tekin ákvörðun að hvíla mottuna í ár, en félagið hvetur hins vegar þá sem hafa safnað mottu í tilefni af átakinu að senda inn myndir, sem það mun birta.


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?