Jóhanna Eyrún Torfadóttir 13. des. 2018

Getur D-vítamín minnkað líkur á krabbameini?

Nú þegar skammdegið er að ná hámarki er ágætt að minna á ráðleggingar Embættis landlæknis um daglega inntöku D-vítamíns, annað hvort í formi lýsis eða D-vítamíntaflna. 

Við getum sjálf framleitt D-vítamín ef sólargeislar skína á húðina, en þar sem lítið sést til sólar á Íslandi á þessum árstíma, þurfum við D-vítamín úr fæðunni og með því að taka lýsi eða D-vítamín. Ráðlagðan dagskammt D-vítamíns má sjá hér, en í stuttu máli er hann 600 alþjólegar einingar (15 µg) á dag fyrir fólk á aldrinum 10-70 ára. Yngri þurfa minna og eldri meira.

D-vítamín er helst að finna í feitum fisktegundum, eggjarauðu og D-vítamínbættum vörum eins og viðbiti, jurtaolíu, morgunkorni, mjólk, barnagrautum og stoðmjólk. Flestar þessarra fæðutegunda innihalda fremur lítið magn af D-vítamíni. Undantekningin er feitur fiskur.

D-vítamín hjálpar okkur að ná kalki úr mat og drykk og tekur þátt í að stýra því hve mikið kalk fer inn í beinin. Oft heyrist að D-vítamín geti komið í veg fyrir ýmsa sjúkdóma, þar með talin krabbamein. Fjöldi rannsókna hafa verið gerðar til að kanna slíkt og hefur ekki verið hægt að sýna fram á með afgerandi hætti að D-vítamín geti komið í veg fyrir krabbamein almennt. Það eru þó jákvæðar vísbendingar um að hærri D-vítamínstyrkur í blóði geti veitt vernd gegn krabbameini í brjóstum sem greinist fyrir tíðahvörf, og krabbameini í ristli og endaþarmi.

Nýleg rannsókn (meta-analýsa) sem sameinar niðurstöður D-vítamínmælinga úr 17 rannsóknum, sýnir fram á tengsl milli hækkaðs D-vítamíns  í blóði og færri tilfella  krabbameins í ristli og endaþarmi. Niðurstöðurnar voru birtar í hinu virta tímariti Journal of the National Cancer Institute.

Rannsóknirnar 17 voru framkvæmdar í Bandaríkjunum, Evrópu  og Asíu. Meðalaldur þátttakenda var 60 ár þegar blóðprufa var tekin til að mæla styrk D-vítamíns (25-OHD).

Samvæmt viðmiðum telst einstaklingur vera með D-vítamínskort þegar styrkur 25-OHD er undir 30 nmol/l. Ef styrkur D-vítamíns í blóði mælist 50 nmol/l eða hærri þá telst það fullnægjandi með tilliti til beinheilsu.

Helstu niðurstöður

Í nýju rannsókninni var skoðað var hve mörg tilfelli krabbameins í ristli og endaþarmi höfðu greinst í hópum sem skilgreindir voru út frá mismunandi styrk D-vítamíns.

Í ljós kom að einstaklingar sem voru með D-vítamínskort (undir 30 nmol/l) voru í 31% aukinni hættu á að greinast með krabbameinið borið saman við hóp einstaklinga sem voru með D-vítamínstyrk á bilinu 50-62,5 nmol/L.

Einstaklingar sem voru með D-vítamíngildi á bilinu 75 til 100nmol/L voru í minni áhættu borið saman við þá sem voru með D-vítamínstyrk á bilinu 50-62,5 nmol/l. Ekki var hægt að greina frekari vernd gegn meininu með því að vera með hærri D-vítamíngildi en 100 nmol/L.

Við þessa útreikninga var tekið tillit til líkamsþyngdarstuðls (BMI), hreyfingar og fleiri þátta sem geta haft áhrif á bæði D-vítamínstyrk í blóði sem og áhættu á að greinast með krabbamein í ristli og endaþarmi. 

Niðurstöður rannsóknarinnar benda því til þess að ekki sé nauðsynlegt að taka ofurskammta af D-vítamíni til að minnka líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi.

Einnig ber að nefna að nýlega birtist grein í New England Journal of Medicine um tilraunarannsókn þar sem hluti rannsóknahóps tók D-vítamín á töfluformi og hluti hópsins fékk lyfleysu (tilviljun réð því hver valdist í hvorn hópinn). Eftirfylgd með þátttakendum stóð að meðaltali í 5 ár og sýndi að ekki var munur á hópunum með tilliti til krabbameinsáhættu. Helstu gallar rannsóknarinnar voru hversu stutt hún stóð yfir og að rannsóknarhópurinn var í byrjun rannsóknar almennt með fínan styrk af D-vítamíni í blóði.

Hve margir greinast með krabbamein í ristli og endaþarmi á Íslandi?

Krabbamein í ristli og endaþarmi er þriðja algengasta krabbamein í heiminum. Að meðaltali greinast 165 manns á ári á Íslandi með þennan sjúkdóm. Um 10% af heildarfjölda greindra á ári eru með þetta krabbamein. Samkvæmt fjölda rannsókna er hægt að minnka líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi með því að hreyfa sig reglulega, borða trefjaríkt fæði, kalkríkar vörur, lítið af rauðu kjöti og unnum kjötvörum og drekka hóflega af áfengi eða sleppa því. Einnig er mögulegt að góður D-vítamínbúskapur minnki einnig líkurnar á krabbameininu, eins og fram kemur í þessari nýju rannsókn. 

Þá skal ítrekað að niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að ekki sé nauðsynlegt að taka ofurskammta af D-vítamíni til að minnka líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi og ekki mælt með slíku nema í samráði við lækni.

Jóhanna Eyrún Torfadóttir er næringar- og lýðheilsufræðingur og fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélaginu

 


Fleiri nýjar fréttir

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?