Ása Sigríður Þórisdóttir 5. jan. 2022

Fundur með heilbrigðisráðherra um nýja dagdeild

Í morgun átti Krabbameinsfélagið góðan fund með nýjum heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni og starfsmönnum ráðuneytisins. Á fundinum var farið stuttlega yfir starfsemi félagsins en meginefni fundarins var alvarlega staða á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala en aðstaða deildarinnar er óboðleg, fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. 

Dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala hefur fyrir löngu sprengt utan af sér húsnæðið og er afar brýnt að leysa vanda deildarinnar hið fyrsta.

Vandinn vex hratt. Spár gera ráð fyrir að krabbameinstilvikum fjölgi um 30% á næstu 15 árum. Spár Landspítala gera ráð fyrir að 35 - 53% meðferðar við krabbameinum fari fram á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á spítalanum á næstu árum.

Engar ákvarðanir liggja fyrir um framtíðarhúsnæði deildarinnar. Landspítali hefur hins vegar komið með tillögu að lausn sem Krabbameinsfélagið er tilbúið að styðja við, með myndarlegum hætti. Um er að ræða lausn sem rímar vel við staðsetningu annarrar þjónustu við fólk með krabbamein á spítalanum.

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins í maí sl, á 70 ára afmæli félagsins var samþykkt að veita allt að 450 milljónum til byggingar nýrrar dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga Landspítala að því gefnu að stjórnvöld taki undir með félaginu og Landspítala og hefjist þegar handa við byggingu nýrrar deildar, þannig að hægt verði að taka hana í notkun á næstu 3 árum.

Á fundinum lýsti Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins því hve brýnt það er að aðstaða fólks sem fær lyfjameðferð á Landspítalanum sé fyrsta flokks. Fólk í krabbameinsmeðferð og aðstandendur þess eru að takast á við eitt stærsta verkefni lífs síns og okkur ber einfaldlega að tryggja að aðstæður séu eins og best verður á kosið. Því miður er langt frá að staðan sé sú í dag. Landspítalanum er ætlað lykilhlutverk í þjónustu við fólk með krabbamein til frambúðar og til að hámarksárangur af meðferð náist verður aðstaðan að vera þannig að hún auðveldi öllum meðferðina, sjúklingunum, aðstandendum þeirra og starfsfólki.

„Við hjá Krabbameinsfélaginu fundum fyrir miklum skilningi ráðherra og treystum því að hann taki undir og láti verkin tala. Gera má ráð fyrir að kostnaður við byggingu nýrrar deildar sé um helmingur kostnaðar við lyfin sem veitt eru á deildinni á einu ári. Hugmynd spítalans er tiltölulega einföld í framkvæmd og hægt er að bylta aðstöðunni á þremur árum“ segir Halla.

Ráðherra þakkaði Krabbameinsfélaginu góðan fund og sagðist fara yfir þetta mál í ráðuneytinu og funda með félaginu að því loknu.

Á fundinum voru fyrir hönd Krabbameinsfélagsins Valgerður Sigurðardóttir, formaður félagsins, Þorsteinn Pálsson, varaformaður, Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri og Ása Sigríður Þórisdóttir kynningarstjóri.

Ny-dagdeild-adstadan_1641396920863

Ítarefni:

  • Nánari upplýsingar og stutt myndbönd um verkefnið og af hverju ný dagdeild er svo brýn er að finna hér.


Fleiri nýjar fréttir

Halla Þorvaldsdóttir

15. jan. 2022 : Dýrkeypt heimsóknabann

Þær aðstæður sem skapast af heimsóknarbanni gera fólki ókleift að vera saman í erfiðum aðstæðum og eru í raun óboðlegar og ómannúðlegar. Það getur haft víðtæk áhrif til lengri tíma litið bæði fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. Leita verður allra leiða til lausna meðan staðan er þessi og þar ríður á að fólk standi saman, sjúklingar, aðstandendur og heilbrigðisstarfsfólk, gefist ekki upp gagnvart verkefninu heldur takist á við aðstæðurnar með þrautseigju en ekki síður útsjónarsemi að leiðarljósi. 

Lesa meira

14. jan. 2022 : Bláa Lónið styrkir Vísindasjóð Krabbameinsfélagsins um 3 milljónir

„Það er okkur sönn ánægja að geta veitt fjárstuðning sem þennan, enda er, hér eftir sem hingað til, afar mikilvægt að efla og styrkja íslenskar rannsóknir á krabbameinum og er Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins vel til þess fallinn að halda utan um þær,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins.

Lesa meira

10. jan. 2022 : Doktorsvörn - Keratinocyte krabbamein á Íslandi: Faraldsfræði og lyfjanotkun

Þann 20. desember sl. varði Jónas Aðalsteinn Aðalsteinsson doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Verkefnið byggði á gögnum Krabbameinsskrár. Unnið í samstarfi við Rannsókna- og Skráningarsetur Krabbameins­félagsins og var forstöðumaður setursins annar tveggja leiðbeinenda.

Lesa meira

5. jan. 2022 : Tölfræði um krabbamein uppfærð til ársins 2020

Á heimasíðu Rannsókna- og skráningarseturs Krabbameinsfélags Íslands (RSKÍ) má finna ýmsa tölfræði um krabbamein, undir Rannsóknir og skráning. Nýgengi, dánartíðni og lifun eru birt sem meðaltal 5 ára til að jafna út tilviljunarsveiflum sem eru algengar í hinu fámenna íslenska þýði. Þessi tölfræði er uppfærð árlega. Nýgengi og dánartíðni eru aldursstöðluð með norrænum aldursstaðli.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?