Ása Sigríður Þórisdóttir 5. jan. 2022

Fundur með heilbrigðisráðherra um nýja dagdeild

Í morgun átti Krabbameinsfélagið góðan fund með nýjum heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni og starfsmönnum ráðuneytisins. Á fundinum var farið stuttlega yfir starfsemi félagsins en meginefni fundarins var alvarlega staða á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala en aðstaða deildarinnar er óboðleg, fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. 

Dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala hefur fyrir löngu sprengt utan af sér húsnæðið og er afar brýnt að leysa vanda deildarinnar hið fyrsta.

Vandinn vex hratt. Spár gera ráð fyrir að krabbameinstilvikum fjölgi um 30% á næstu 15 árum. Spár Landspítala gera ráð fyrir að 35 - 53% meðferðar við krabbameinum fari fram á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á spítalanum á næstu árum.

Engar ákvarðanir liggja fyrir um framtíðarhúsnæði deildarinnar. Landspítali hefur hins vegar komið með tillögu að lausn sem Krabbameinsfélagið er tilbúið að styðja við, með myndarlegum hætti. Um er að ræða lausn sem rímar vel við staðsetningu annarrar þjónustu við fólk með krabbamein á spítalanum.

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins í maí sl, á 70 ára afmæli félagsins var samþykkt að veita allt að 450 milljónum til byggingar nýrrar dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga Landspítala að því gefnu að stjórnvöld taki undir með félaginu og Landspítala og hefjist þegar handa við byggingu nýrrar deildar, þannig að hægt verði að taka hana í notkun á næstu 3 árum.

Á fundinum lýsti Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins því hve brýnt það er að aðstaða fólks sem fær lyfjameðferð á Landspítalanum sé fyrsta flokks. Fólk í krabbameinsmeðferð og aðstandendur þess eru að takast á við eitt stærsta verkefni lífs síns og okkur ber einfaldlega að tryggja að aðstæður séu eins og best verður á kosið. Því miður er langt frá að staðan sé sú í dag. Landspítalanum er ætlað lykilhlutverk í þjónustu við fólk með krabbamein til frambúðar og til að hámarksárangur af meðferð náist verður aðstaðan að vera þannig að hún auðveldi öllum meðferðina, sjúklingunum, aðstandendum þeirra og starfsfólki.

„Við hjá Krabbameinsfélaginu fundum fyrir miklum skilningi ráðherra og treystum því að hann taki undir og láti verkin tala. Gera má ráð fyrir að kostnaður við byggingu nýrrar deildar sé um helmingur kostnaðar við lyfin sem veitt eru á deildinni á einu ári. Hugmynd spítalans er tiltölulega einföld í framkvæmd og hægt er að bylta aðstöðunni á þremur árum“ segir Halla.

Ráðherra þakkaði Krabbameinsfélaginu góðan fund og sagðist fara yfir þetta mál í ráðuneytinu og funda með félaginu að því loknu.

Á fundinum voru fyrir hönd Krabbameinsfélagsins Valgerður Sigurðardóttir, formaður félagsins, Þorsteinn Pálsson, varaformaður, Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri og Ása Sigríður Þórisdóttir kynningarstjóri.

Ny-dagdeild-adstadan_1641396920863

Ítarefni:

  • Nánari upplýsingar og stutt myndbönd um verkefnið og af hverju ný dagdeild er svo brýn er að finna hér.


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?