Ása Sigríður Þórisdóttir 6. mar. 2020

Fullt út úr dyrum í Hofi

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis

Málþingið Karlar og krabbamein er hluti af árveknisátakinu Hrúturinn sem ætlað er að vekja athygli karla á forvörnum gegn krabbameini, einkennum þeirra og þeim stuðningi býðst við greiningu.

Fullt var út úr dyrum í gær þegar málþingið Karlar og krabbamein var sett í Hofi á Akureyri. Málþingið er hluti af árveknisátakinu Hrúturinn, sem Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis stendur fyrir í mars ásamt Akureyrarbæ og Krabbameinsfélagi Íslands. Markmið átaksins er að vekja athygli karla á forvörnum gegn krabbameini, einkennum þeirra og þeim stuðningi sem félagið veitir við greiningu.

Í Hofi bauðst gestum að þreifa á gervipung í leit að meinum, fræðast um Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis, auk þess sem JMJ herrafataverslun stóð fyrir sölu á svokölluðum Hrútaklútum til styrktar málstaðnum. Karlakór Eyjafjarðar mætti prúðbúinn og tók nokkur lög fyrir gesti áður en málþingið var sett.

Dagskrá málþingsins var fjölbreytt og áhersla lögð á að nálgast viðfangsefnið frá ólíkum sjónarhornum. Ásthildur Sturludóttir, bæjarsjóri Akureyrar, flutti opnunarávarp þar sem hún lýsti ánægju sinni með átakið og mikilvægi þess að huga að eigin heilsu og að fylgja því eftir verði einkenna vart. Í framhaldinu fór Sólmundur Hólm með gamanmál, en hann greindist sjálfur með Hodkins eitilfrumukrabbamein árið 2017 og fór yfir þá reynslu með gamansömum hætti. Guðmundur Otti Einarsson, sérfræðingur í almennum lyflækningum og meltingarfæra- og lifrarsjúkdómum, fjallaði um illkynja æxli í ristli. Hann fór vel yfir áhættuþætti og einkenni sjúkdómsins ásamt því að gera ferlinu við greiningu góð skil.

Lífsfylling og gildi vináttunnar var viðfangsefni Þorgnýs Dýrfjörð, heimspekings, sem fjallaði einnig um dyggðir og mikilvægi þess að vera til staðar þegar vinur veikist. Birkir Baldvinsson hélt erindið, Smá ves - ég er með krabba, þar sem hann fór yfir þá reynslu að greinast með eitilfrumukrabbamein og þá leið sem hann fór í að ná upp fyrra þreki og þoli eftir meðferð. Fulltrúi Krabbameinsfélags Íslands og sérfræðingur í fræðslu og forvörnum, Sigrún Elva Einarsdóttir, hélt kynningu á nýju ákvörðunartæki inn á karlaklefinn.is og hreyfingu sem forvörn gegn krabbameinum. Sólmundur Hólm endaði kvöldið með nokkrum eftirhermum og kitlaði hláturtaugar gesta.

Málþinginu var stýrt af Friðbirni Reyni Sigurðssyni, lyf- og krabbameinslækni. Þetta er í annað sinn sem málþingið er haldið og óhætt að segja að það hafi fest sig í sessi. Meðbyr bæjarbúa með átakinu er mikill, en alls sóttu um 200 manns málþingið.Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?