Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 1. júl. 2019

Framlenging um eitt ár á samningi um leitarstarf

Krabbameinsfélagið hefur fallist á beiðni heilbrigðisráðuneytisins um að halda skimunum fyrir krabbameinum í brjóstum og leghálsi áfram hjá Leitarstöð félagsins, til ársloka 2020. Skrifað var skrifað undir samning við Sjúkratryggingar um framlenginguna á föstudag.

Óvissa hefur ríkt um skipulag og framkvæmd skimana fyrir krabbameinum eftir að heilbrigðisráðherra lýsti því yfir í mars síðastliðnum að hún hygðist gera breytingar á skimuninni og fella hana undir opinbera þjónustu, til dæmis heilsugæsluna.

„Árangursrík skimun fyrir krabbameinum byggir fyrst og fremst á sérhæfðri þekkingu fagfólks. Við lögðum til að samið yrði til lengri tíma, ekki síst til að auka starfsöryggi starfsfólksins sem hefur búið við mikið óöryggi í langan tíma vegna skammtímasamninga um þjónustuna,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Krabbameinsfélagið leggur áherslu á að tryggja þurfi almenningi aðgengi að skimuninni þann tíma sem tekur heilbrigðisyfirvöld að útfæra og innleiða fyrirhugaðar breytingar. Tryggja þurfi að hvorki verði rof á þjónustu né að árangur dali.

„Þar skiptir auðvitað höfuðmáli að halda fagþekkingu í málaflokknum, eins og bæði skimunarráð og landlæknir hafa talað um. Stjórnvöld höfnuðu boði okkar um lengri samning og vildu einungis semja til ársloka 2020. Þrátt fyrir það óöryggi sem það skapar, bæði í rekstri og fyrir starfsfólk, var ákveðið að fallast á enn einn skammtímasamninginn, þann áttunda frá árinu 2013, til að tryggja áframhaldandi aðgengi almennings að skimunni,“ segir Halla. Skimun sé viðkvæm þjónusta og ígrunda þurfi afar vel allar breytingar sem á henni verði. Vanda þurfi til eins og frekast er kostur ef vel eigi að takast: „Við treystum því að stjórnvöld tryggi áframhaldandi fagþekkingu í málaflokknum með því að tryggja áframhaldandi starfsöryggi þessa sérhæfða starfsfólks.“

Ókeypis skimun – tvöföldun á þátttöku

Krabbameinsfélagið hefur síðustu misseri staðið fyrir átaki til að hvetja konur til að mæta í skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum. Hluti af átakinu er tilraunaverkefni og könnun sem félagið stendur fyrir árið 2019 þar sem það býður gjaldfrjálsa skimun fyrir konur sem eru boðaðar í krabbameinsleit fyrsta sinn. Fjöldi kvenna 23ja ára og 40 ára sem mættu í skimun á fyrstu fimm mánuðum ársins rúmlega tvöfaldaðist, miðað við sama tímabil í fyrra.

Stærstur hluti kvennanna, 95% 23ja ára kvenna og 70% 40 ára kvenna, segir að gjaldfrjáls skimun hafi hvatt þær til að taka þátt. Auk þess sögðu 23% yngri hópsins og 7% þess eldri að þær hefðu ekki mætt hefðu þær þurft að borga.

 


Fleiri nýjar fréttir

13. nóv. 2019 : Rekstur skimana verði áfram ein eining

Heilbrigðisráðherra hefur nú ákveðið að færa framkvæmd skimana frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar (fyrir leghálskrabbameinum) og til Landspítala (fyrir brjóstakrabbameinum). Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvar utanumhaldi um gagnagrunn, boðunum í skimanir, uppgjöri þeirra og frumurannsóknarstofu verði fyrir komið. 

Lesa meira

12. nóv. 2019 : Margfaldur ávinningur af jurtafæði - málþing næsta föstudag

15. nóvember í Veröld, húsi Vigdísar frá kl. 15:00 til 16:40. Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Lesa meira

8. nóv. 2019 : Sálfélagslegur stuðningur í endur­hæfingu og með­ferð krabba­meina

Niðurstöður fjölda rannsókna leiða í ljós að margvíslegur sálfélagslegur stuðningur hefur jákvæð áhrif á lífsgæði kvenna sem greinst hafa með krabbamein. 

Lesa meira

5. nóv. 2019 : Ráðgjöf nú veitt í Árborg

Í dag var undirritaður á Sjúkrahúsinu á Selfossi samstarfssamningur milli Krabbameinsfélagsins, Krabbameinsfélags Árnessýslu og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) um ráðgjöf fyrir sjúklinga í krabbameinsmeðferðum.

Lesa meira

31. okt. 2019 : Dregið í Vinkonuklúbbi Krabbameinsfélagsins

Í dag hlaut ein heppin vinkona veglegan vinning frá Bláa Lóninu fyrir sex. Sú heppna er Bergljót Inga Kvaran.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?