Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 26. sep. 2018

Framlenging á samningi Krabbameinsfélagsins og Sjúkratrygginga Íslands til ársloka 2019

Í dag var skrifað undir sjöundu framlengingu þjónustusamnings Sjúkratrygginga Íslands við Krabbameinsfélag Íslands um skipulagða leit að krabbameinum í leghálsi og brjóstum. 

Krabbameinsfélagið sinnir skimun fyrir stjórnvöld í þeim tilgangi að draga úr sjúkdómum og fækka dauðsföllum af þeirra völdum. Þjónustusamningurinn byggir á ítarlegri kröfulýsingu um þjónustuna. Með undirrituninni varð Krabbameinsfélagið við ósk velferðarráðuneytisins um framlengingu samningsins til loka árs 2019.

Krabbameinsfélag Íslands hefur sinnt skimun fyrir krabbameinum í brjóstum og leghálsi í áratugi af miklum metnaði og veitt til hennar miklu fé. Rekstrarumhverfi skimunarinnar hefur hins vegar í langan tíma verið afar erfitt einkum vegna skammtímasamninga sem hafa gert ákvarðanatöku erfiða og vegna þess að fjárveitingar ríkisins til verkefnisins hafa ekki dugað til. Frá árinu 2013 hafa skammtímasamningar verið gerðir, allt niður í þrjá mánuði í einu. Þá hefur heilbrigðisráðherra að undanförnu einnig lýst vilja til breytinga á fyrirkomulagi skimana en bíður tillagna nýskipaðs skimunarráðs.

Vegna þeirrar óvissu sem ríkt hefur um skimunina var boðað til aukaaðalfundar Krabbameinsfélags Íslands þann 16. september síðastliðinn.

Fyrir fundinum lá yfirlýsing velferðarráðuneytisins um að styrkja félagið um 50 milljónir á þessu ári vegna uppsafnaðs halla á leitarstarfinu og aðgerða til að auka þátttöku kvenna. Styrkurinn kom með þeim skilyrðum að félagið samþykkti að sinna leitarstarfinu á sama hátt og hingað til, út árið 2019.

Á fundinum var ákveðið að félagið samþykkti umrædda framlengingu. Til að tryggja áframhaldandi gæði skimunarinnar og aðgengi almennings að þessari mikilvægu þjónustu samþykkti félagið einnig að veita til hennar allt að 75 milljónum á þessu ári og því næsta, til viðbótar við styrk ráðuneytisins.

Krabbameinsfélag Íslands hefur alla burði til að sinna áfram skipulagðri skimun fyrir krabbameinum með þjónustusamningi og skýrum kröfulýsingum. Forsendur þess að halda henni áfram eru hins vegar að samið verði um verkefnið til lengri tíma í einu og að yfirvöld fjármagni verkefnið að fullu.

Mikilvægt er að ætla góðan tíma til undirbúnings ef breyta á fyrirkomulagi skimana fyrir krabbameinum vegna mikilvægis verkefnisins og vanda þarf til verka. Krabbameinsfélagið vill gera sitt til að dýpka umræðuna um skimun til að tryggja að mögulegar breytingar á fyrirkomulagi verði til þess að að hámarka árangur og gæði skimaninna.

Krabbameinsfélagið mun á næstunni óska eftir viðræðum við stjórnvöld um hugmyndir sínar að fyrirkomulagi skimana fyrir krabbameinum til framtíðar. Hugmyndirnar byggjast á þeim grundvallarsjónarmiðum að við skipulag skimunar verði hagsmunir almennings að vera í forgrunni og að skipulag og stjórnun skimunarinnar, allt frá boðun til uppgjörs, sé eitt órjúfanleg ferli.

Félagið hvetur konur ennfremur til að taka þátt í skimun og fækka þannig dauðsföllum vegna brjósta- og leghálskrabbameina.

 

Tillaga Krabbameinsfélags Íslands að

framtíðarskipulagi skimunar fyrir krabbameinum á Íslandi

 

Við skipulag skimunar fyrir krabbameinum er afar mikilvægt að líta á skimunina sem eitt órjúfanlegt ferli, allt frá skipulagi boðunar til uppgjörs skimunarinnar. Skimun fyrir krabbameinum krefst sérhæfðrar þekkingar á öllum stigum og gæta þarf að því að haga fyrirkomulagi þannig að þekking vaxi en tapist ekki.  Slíkt verður best gert með því að tryggja að umsjón og stjórnun skimunar fyrir krabbameinum sé á sama stað. Í nágrannalöndunum er því þannig farið, þó stofnanirnar séu ekki þær sömu. Í Finnlandi og Noregi heyrir skimun til dæmis undir Krabbameinsskrár landanna en í Danmörku undir Sundhedsstyrelsen. Hér á landi hefur undanfarna áratugi safnast upp mikil þekking á skimunum innan Krabbameinsfélags Íslands, sem mikilvægt er að glatist ekki. Hagsmunir almennings og samfélagslegir hagsmunir þurfa alltaf að vera í forgrunni.

Á grunni ofangreinds leggur Krabbameinsfélag Íslands til að stofnuð verði

Skimunarmiðstöð Íslands

sem er þekkingarsetur um alla skimun fyrir krabbameinum á Íslandi og fer með umsjón, skipulag, stjórnun, framkvæmd og uppgjör skimunar fyrir krabbameinum í landinu með það að markmiði að draga úr sjúkdómunum og fækka dauðsföllum af völdum krabbameina.

Í stjórn miðstöðvarinnar eiga sæti fulltrúar Krabbameinsfélags Íslands, heilsugæslunnar, háskólasamfélagsins, heilbrigðisvísindasviðs og Landspítala.

Miðstöðin er ekki rekin í ábataskyni. Starfsemi hennar er fjármögnuð með þjónustusamningi við ríkið. Í þjónustusamningnum endurspeglast ákvarðanir stjórnvalda, sem byggja á leiðbeiningum skimunarráðs um hvaða hópa skuli skima, hvenær, hvernig og fyrir hvaða krabbameinum. Í samningnum er kveðið á um ábyrgð miðstöðvarinnar, lágmarks gæðavísa og skyldur um skil upplýsinga. Skimunarmiðstöð er heimilt að semja við aðila um framkvæmd ákveðinna þátta skimana að því tilskildu að þeir fylgi leiðbeiningum Skimunarmiðstöðvar, uppfylli gæðakröfur hennar og upplýsingaskyldu.

Skimunarmiðstöð vinnur í nánu samstarfi við Krabbameinsskrá, til dæmis varðandi uppgjör skimunarinnar.


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?