Framför endurreist
Nú er unnið að því að endurvekja starfsemi Framfarar, samtaka manna sem greinst hafa með krabbamein í blöðruhálskirtli.
Þráinn Þorvaldsson er formaður félagsins. Hann hefur um árabil haldið fyrirlestra um málefnið og stýrt stuðningshópnum Frískir menn fyrir menn sem greinast með sjúkdóminn en fara ekki í meðferð.

Ráðinn hefur verið starfsmaður í hlutastarf með stuðningi úr Velunnarasjóði Krabbameinsfélagsins. Sérstök heimasíða félagsins er framfor.is og Facebook-síða er Facebook.com/framfor. Þar er ýmsum upplýsingum og fræðslu miðlað og sagt frá stuðningi fyrir menn sem greinast með blöðruhálskirtilskrabbamein og maka þeirra.
„Við erum líka með hugmyndir um að stofnaður verði sérstakur stuðningshópur fyrir maka þeirra sem greinast því blöðruhálskirtilskrabbamein er vissulega hjónasjúkdómur og mikilvægt að makar fái einnig stuðning,“ segir Þráinn.
Félagið stendur fyrir kynningu um starfsemina á haustmánuðum og er von stjórnenda að starfsemin verði öflug til stuðnings þessa hóps.
„Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta krabbamein karla. Um 220 menn greinast með sjúkdóminn á hverju ári eða fjórir menn að meðaltali á viku. Að jafnaði deyr einn maður í hverri viku af völdum sjúkdómsins. Þetta er stór hópur sem þarf stuðning til að fóta sig í nýjum veruleika,“ segir Þráinn að lokum.
Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021.