Sigrún Lillie Magnúsdóttir og Nanna Friðriksdóttir 4. feb. 2016

Forvarnir og einkenni krabbameina. Við getum-ég get.

 • Sigrún Lillie Magnúsdóttirhjúkrunarfræðingur og forstöðumaður Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins og Nanna Friðriksdóttir, sérfræðingur í hjúkrun sjúklinga með krabbamein, klínískur lektor á lyflækningasviði LSH og aðjunkt við HÍ.

Alþjóðlegur dagur gegn krabbameini er haldinn árlega 4. febrúar. Alþjóðasamtökin gegn krabbameini (UICC) skora nú á þjóðir heims að taka þátt í að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameini undir slagorðunum VIÐ GETUM – ÉG GET.Mikilvægt er að samfélög og einstaklingar leggi sitt af mörkum til að draga úr tíðni krabbameins og áhrifum sjúkdómsins.

Fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga á Íslandi fagnar í ár 20 ára afmæli sínu og fer nú af stað, í samvinnu við Krabbameinsfélag Íslands, með röð greina undir heitinu VIÐ GETUM – ÉG GET. Í þessari fyrstu grein er áhersla lögð á forvarnir.

VIÐ GETUM – haft áhrif á tíðni krabbameins

Á Íslandi greinast árlega að meðaltali um 1.450 einstaklingar með krabbamein og um fjórðungur allra dánarmeina er af völdum krabbameins. Krabbamein er bæði flókinn og kostnaðarsamur sjúkdómur fyrir einstaklinginn og samfélagið. Áætlað er að koma megi í veg fyrir 30-40% krabbameina með heilsusamlegum lífsháttum. Þeir þættir sem skipta mestu máli eru reykingar, offita, ofneysla áfengis, mataræði og hreyfing. Við getum sem samfélag og sem einstaklingar minnkað líkurnar á krabbameini með því að tileinka okkur heilsusamlega lífshætti og með því að beita aðgerðum sem auðvelda slíkt. Við sem samfélag og einstaklingar getum fundið leiðir og beitt okkur fyrir eftirtöldum þremur meginráðleggingum:

Reykjum ekki né notum tóbak. Reykingar hafa verið og eru enn langstærsti áhættuþátturinn og eru orsök 20-30% allra krabbameinstilfella. Mikilvægt er að vinna stöðugt að tóbaksvörnum. Með því að reykja ekki né nota tóbak má koma í veg fyrir og draga úr líkum á mörgum tegundum krabbameina t.d. í lungum, munnholi, vélinda, brisi, nýrum, þvagblöðru og leghálsi.

Drekkum áfengi í hófi ef þess er neytt á annað borð. Ofneysla áfengis er áhætta fyrir mörg krabbamein, t.d. brjóstakrabbamein, krabbamein í munni, barka, vélinda, ristli og lifur. Forðumst ofþyngd og offitu. Með því að borða hollan mat, hreyfa sig reglulega og vera í kjörþyngd má koma í veg fyrir um 25-30% krabbameinstilvika vegna t.d. krabbameins í ristli, brjóstum, legi, eggjastokkum, brisi, vélinda, nýrum og gallblöðru.

ÉG GET – verið meðvitaður um einkennin og brugðist við þeim

Það er ekki alltaf auðvelt að greina krabbamein, sum þeirra gera engin eða óljós boð á undan sér fyrr en að sjúkdómurinn er langt genginn. Ýmsar leiðir hafa verið prófaðar til þess að greina krabbamein á forstigi eða á frumstigi hjá einkennalausum einstaklingum, en þær þurfa að vera áreiðanlegar og hættulitlar til þess að þeim sé beitt. Flestum aðferðunum er beitt á einstaklingsgrundvelli, en mælt er með þremur þeirra fyrir hópleit (skimun), við leit að brjóstakrabbameini, leghálskrabbameini og ristilkrabbameini.

Mörg krabbamein geta gefið frá sér einkenni eða merki sem er mikilvægt að þekkja og bregðast við. Líkur á lækningu er meiri því fyrr sem krabbamein er greint. Þetta á til dæmis við um krabbamein í lungum, þvagblöðru, ristli, brjóstum, leghálsi, kvið, eggjastokkum, eistum og sortuæxli. 

 • Nokkur einkenni sem mikilvægt er að þekkja:
 • Þrálátur hósti og erfiðleikar við kyngingu
 • Erfiðleikar við þvaglát eða blóð í þvagilBlæðing frá endaþarmi eða blóð í hægðum
 • Breytingar á brjóstum (til dæmis hnútur eða inndráttur, útferð)
 • Blæðingar eftir tíðahvörf
 • Viðvarandi kviðverkir
 • Óútskýrt þyngdartap eða þyngdaraukninglViðvarandi þreyta sem minnkar ekki við hvíld
 • Eitlastækkanir
 • Hnútar, til dæmis í eistum
 • Breytingar á húð og slímhúð (til dæmis sár í munni sem gróa ekki, sár á kynfærum eða breytingar á fæðingarblettum)

 

Einkenni hér að ofan geta vakið grun um krabbamein en geta einnig verið til marks um aðra sjúkdóma. Það skiptir miklu máli að hver og einn bregðist við þeim.

VIÐ GETUM sem samfélag og ÉG GET sem einstaklingur dregið úr tíðni krabbameins og bætt lífsgæði með því að leggja áherslu á að ástunda heilsusamlega lífshætti og bregðast við mögulegum einkennum.

Heimildir:


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2019 : Hvernig nennirðu þessu?

Í dag er alþjóðadagur sjálfboðaliða og Árni Einarsson formaður Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins skrifar:

Lesa meira

4. des. 2019 : Stuðningur við fagaðila sem vinna með börn eftir foreldramissi

Krabbameinsfélagið undirbýr nú opnun fræðslu- stuðnings- og handleiðslumiðstöðvar sem ætluð er fagaðilum sem vinna í nærumhverfi barna sem misst hafa foreldri. Samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands má gera ráð fyrir að um 100 börn missi foreldri ár hvert.

Lesa meira

4. des. 2019 : Ljósabekkjanotkun helst óbreytt milli ára

Árlegri könnun á notkun ljósabekkja á Íslandi er nýlega lokið. Könnunin er framkvæmd af Gallup fyrir hönd samstarfshóps Geislavarna, Embættis Landlæknis, húðlækna og Krabbameinsfélagsins.

Lesa meira

2. des. 2019 : Rautt eða hvítt?

Aðventan er sá tími árs þegar margir leggja áherslu á að halda í ýmis konar hefðir, yfirleitt í hópi vina eða fjölskyldu. Hefðirnar eru af ýmsum toga svo sem jólahlaðborð og jólatónleikar svo eitthvað sé nefnt og oft er vín haft um hönd.

Lesa meira

29. nóv. 2019 : Býður hjúkrunarfræðingum í Bláa Lónið

Bergljót Inga Kvaran, yfirhjúkrunarfræðingur á Heilsugæslunni Höfða, var dregin út í vinkonuleik Krabbameinsfélagsins og Bleiku slaufunnar í ár og hlaut í verðlaun dekur fyrir 6 á Retreat Spa í Bláa Lóninu og óvissuferð á Lava Restaurant. Bergljót kom og sótti vinninginn í Skógarhlíðina í dag.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?