Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 17. feb. 2020

Forseti Íslands verður „héri“ í Karlahlaupinu

Sunnudaginn 1. mars verður Karlahlaup Krabbameinsfélagsins haldið í fyrsta sinn. Hlaupið er frá Hörpu að Laugarnestanga og til baka, alls 5 kílómetra. 

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhanneson, gegnir hlutverki svokallaðs „héra“ í hlaupinu og leiðir hóp þeirra sem vilja taka þátt í hlaupinu en ætla sér að fara hægar yfir en keppnisfólkið.

Hlaupið markar upphaf Mottumars. Skráning fer fram á mottumars.is. Skráningargjald er 4.500 krónur fyrir fullorðna og 2.500 fyrir 17 ára og yngri. Mottumarssokkarnir 2020 eru innifaldir í skráningargjaldinu en þeir eru hannaðir af Gunnari Hilmarssyni, yfirhönnuði Kormáks og Skjaldar.

„Þátttaka forsetans er okkur mikið gleðiefni og þá sérstaklega að hann skuli taka að sér að hvetja þá sem vilja hlaupa hægar, því öll hreyfing er góð forvörn gegn sjúkdómum á borð við krabbamein. Maður þarf nefnilega ekki að vera afreksmanneskja í íþróttum til að hreyfa sig reglulega, en það skilar sér svo sannarlega í heilbrigðari líkama,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Ókeypis undirbúningsnámskeið

Boðið er upp á ókeypis undirbúningsnámskeið sunnudaginn 23. febrúar næstkomandi klukkan 10:30-12:00 í Laugardalshöll. Þjálfari er Torfi H. Leifsson sem hefur staðið fyrir hlaupanámskeiðum um árabil.

Rannsóknir sýna að reglubundin hreyfing dregur úr líkum á sjúkdómum á borð við krabbamein. Einnig vegnar þeim betur sem greinast með krabbamein og hreyfa sig reglulega, bæði fyrir og eftir greiningu.

„Þess vegna hvetur Krabbameinsfélagið alla til að taka þátt í Karlahlaupinu – og hreyfa sig í að minnsta kosti hálftíma á dag. Það er góð forvörn gegn krabbameinum,“ segir Halla.

Skráning fer fram á mottumars.is og nánar má lesa um hlaupið hér.


Fleiri nýjar fréttir

1. mar. 2024 : Við erum að kalla þig út, kall!

Við fögnum framförum í greiningu og meðferð en best er auðvitað ef hægt er að koma í veg fyrir krabbamein. Vísindin vísa okkur leiðina og rannsóknir sýna að 30 til 40% krabbameina tengjast lífsstíl. Það þýðir að ýmsar lífsvenjur, t.d. tóbaksnotkun, áfengisneysla, hreyfingarleysi, mataræði og fleiri þættir geta haft áhrif á líkurnar á ákveðnum tegundum krabbameina.

Lesa meira

29. feb. 2024 : Köllum kalla þessa lands út!

Mottumars, árlegt árvekni- og fjáröflunarátak tileinkað krabbameinum hjá körlum hefst í dag. Kallaútkall er yfirskrift átaksins í ár þar sem lögð er áhersla á forvarnargildi hreyfingar. Regluleg hreyfing dregur úr hættunni á krabbameinum, en allt of margir karlmenn hreyfa sig ekki nóg til að njóta þessara verndandi áhrifa. Það þarf ekki nema örfáar mínútur af hreyfingu á dag til að ná fram jákvæðum áhrifum.

Lesa meira

28. feb. 2024 : Upp með sokkana og í Mottumarshlaupið 2024

Komdu með í fyrsta Mottumarshlaup Krabbameinsfélagsins sem haldið verður á hlaupársdeginum 29. febrúar. Við lofum stuði og stemmningu um leið og við hreyfum okkur til stuðnings góðum málstað!

Lesa meira

27. feb. 2024 : Sjöunda árið í röð fær forsetinn fyrsta parið

Forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni hefur frá árinu 2018 verið afhent fyrsta parið af Mottumarssokkunum sem seldir eru til styrktar Krabbameinsfélaginu í Mottumars, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki sem tileinkað er krabbameinum hjá körlum. Forsetinn hefur sýnt verkefninu ómetanlegan stuðning í gegnum árin.

Lesa meira

27. feb. 2024 : Mottumarssokkarnir hannaðir af AS WE GROW

Það eru þær Gréta Hlöðversdóttir, Snæfríð Þorsteins og Kamilla Henriau sem eru hugmyndasmiðirnir og hönnuðirnir á bakvið sokkana sem eru einstaklega fallegir. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?