Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 2. feb. 2020

Fimm þúsund skref í rétta átt

  • Opnað fyrir skráningu í karlahlaup

Í dag var opnað fyrir skráningu á Karlahlaup Krabbameinsfélagsins, en hlaupið fer fram sunnudaginn 1. mars næstkomandi og markar upphaf Mottumars. 

Markmið hlaupsins er að hvetja karlmenn af öllum stærðum og gerðum til að koma saman og hreyfa sig, en hreyfing er ein af mikilvægum forvörnum gegn krabbameinum.

Hlaupið verður frá Hörpu, miðstöð menningar og mannlífs og einu helsta kennileiti Reykjavíkur austur eftir Sæbraut og til baka, alls 5 kílómetra. Hlaupið hentar bæði reyndum hlaupurum og þeim sem kjósa að fara hægar yfir og tímataka í boði fyrir þá sem það vilja. 

Boðið verður upp á tvö örnámskeið í samvinnu við hlaup.is þar sem farið er yfir helstu atriði í tengslum við hlaupaþjálfun. Hlaupstjóri er Inga Dís Karlsdóttir og henni til ráðgjafar eru Friðrik Ármann Guðmundsson og Torfi H. Leifsson.

„Við hvetjum klíkur af öllum stærðum og gerðum, gengi, vinahópa, félagsmenn og fleiri hópa til að mæta undir eigin „flaggi og fána” og setja þannig skemmtilegan svip á þennan tímamótaviðburð,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

https://youtu.be/BKiLoq9dUZg

Skráning 

Skráðu þig í karlahlaupið

Skráning fer fram á mottumars.is/karlahlaupid og þar verður einnig að finna nánari upplýsingar um fjölbreytta dagskrá sem tengist hlaupinu og gagnlegan fróðleik fyrir þá sem eru að stíga sínu fyrstu skref í rétta átt. Innifaldir í skráningargjaldinu eru nýjustu Mottumars-sokkarnir sem hannaðir eru af Gunnari Hilmarssyni, yfirhönnuði hjá Kormáki og Skildi.

Regluleg hreyfing minnkar líkur á krabbameinum

Reglubundin hreyfing hefur ótvírætt gildi fyrir almenna heilsu og vellíðan og ávinningurinn er margþættur. Má til dæmis nefna minni hættu á margvíslegum sjúkdómum, þar með talið krabbameinum. Áætlað er að Evrópubúar sem temja sér heilbrigða lífshætti í samræmi við ráðleggingar um forvarnir gegn krabbameini séu í 18% minni hættu á að fá krabbamein miðað við þá sem tileinka sér ekki slíka lífshætti. Í því felst að hreyfa sig að minnsta kosti hálftíma á dag. Karlahlaup Krabbameinsfélagsins er kjörinn vettvangur fyrir karla að koma saman, taka þátt í skemmtilegum viðburði og styðja við gott málefni.

Um Mottumars

Mottumars Krabbameinsfélagsins er vitundarvakning um krabbamein hjá körlum. Átakið er hvatning fyrir alla karlmenn og fjölskyldur þeirra til að vera meðvitaða um einkenni krabbameina og sinna forvörnum. Mottumars er einnig mikilvægur hlekkur í fjáröflun félagsins og gerir því kleift að sinna fræðslu, forvörnum, rannsóknum, ráðgjöf og stuðningi fyrir karlmenn.


Fleiri nýjar fréttir

7. apr. 2020 : Takk hjúkrunarfræðingar og ljósmæður

Á alþjóðaheilbrigðisdaginn þakkar Krabbameinsfélagið hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum fyrir þeirra mikilvæga framlag í baráttunni gegn krabbameinum. 

Lesa meira

6. apr. 2020 : Blóðskimun til bjargar

Krabbameinsfélagið telur rannsóknir af þessu tagi skipta mjög miklu máli. Ef hægt er að greina forstig krabbameina eða meinin á byrjunarstigi aukast líkur á að koma megi í veg fyrir þau eða lækna þau.

Lesa meira

31. mar. 2020 : Stórt framfaraskref í þjónustu við krabbameinssjúklinga á Landspítala í skugga Covid-19

Á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga verður boðið upp á símaráðgjöf í framhaldi af hefðbundnum opnunartíma, fyrir þá sjúklinga sem eru í krabbameinslyfjameðferð á Landspítala og þurfa ráðgjöf.

Lesa meira
Halla Þorvaldsdóttir

28. mar. 2020 : Mottumars snýst um karla og krabbamein

Verum ávallt vakandi fyrir einkennum krabbameina eins og segir í Mottumarslaginu í ár ættu karlmenn að „tékka á sér“ og vera vakandi fyrir ýmsum breytingum á líkama sínum sem geta verið vísbendingar um krabbamein.

Lesa meira

26. mar. 2020 : Heimildarmyndin: Lífið er núna

Rúv sýndi þann 26. mars heimildarmyndina Lífið er núna sem framleidd var í tilefni þess að Kraftur fagnaði 20 ára afmæli á árinu 2019.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?