Ása Sigríður Þórisdóttir 25. maí 2022

Evrópska krabba­meins­vikan: Þetta er krabba­meins­áætlunin þín!

Krabbameinsvika Samtaka evrópsku krabbameinsfélaganna (European week against cancer) stendur nú yfir. Þá er vakin athygli á ýmsum þáttum sem skipta máli í því marghliða verkefni sem krabbamein er. Í ár er vakin athygli á því hlutverki sem hvert og eitt okkar hefur í því að stuðla að innleiðingu krabbameinsáætlunar Evrópusambandsins sem miðar að því að sigrast á krabbameini (Europe´s Beating Cancer Plan).

Af hverju skiptir máli að innleiða krabbameinsáætlun?

Spár benda til að krabbameinstilvikum muni fjölga gríðarlega á næstu árum og lifendum sömuleiðis. Krabbameinsáætlanir eru lykilverkfæri í baráttunni við krabbamein til framtíðar. Vegna þessarar þróunar ákvað Evrópusambandið að vinna mjög metnaðarfulla áætlun um það hvernig hægt er að ná betri árangri í því að fækka þeim sem veikjast af krabbameinum, fjölga þeim sem lifa og bæta lífsgæði. Krabbameinsáætlun er afar viðamikil lýðheilsuáætlun þjóðar sem miðar að því að fækka nýgreiningum og draga úr dánartíðni vegna krabbameina og bæta lífsgæði einstaklinga með krabbamein með kerfisbundinni innleiðingu gagnreyndra aðgerða á vettvangi forvarna, snemmgreiningar, meðferðar og líknar með jafnræði og hagkvæmni að leiðarljósi.

Ísland er ekki hluti af Evrópusambandinu en engu að síður á slagorð evrópsku krabbameinsvikunnar einkar vel við hér á landi því um þessar mundir er unnið að því að fá íslensku krabbameinsáætlunina í framkvæmd.

Hér á landi ákvað heilbrigðisráðherra árið 2019 að vinna að framkvæmd verkefna í samræmi við tillögu ráðgjafahóps sem vann að mótun íslenskrar krabbameinsáætlunar á árunum frá 2013 – 2017. Áætlunin var unnin samkvæmt leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO og var upphaflega ætlað að gilda til 2020 en gildistíminn var framlengdur til ársins 2030 til samræmis við heilbrigðisstefnu. Margt hefur áunnist og framfaraskrefin verið mörg undanfarin ár í þjónustu við fólk með krabbamein. Kerfisbundin innleiðing krabbameinsáætlunarinnar er þó ekki hafin að mati Krabbameinsfélagsins sem hélt málþing þess efnis 21. maí sl. Tillögur að íslenskri krabbameinsáætlun eru viðamiklar og innleiðing mun ekki gerast á einni nóttu. En eins og nágrannaþjóðir okkar hafa sýnt er vel hægt að vinna að markmiðum hennar á markvissan hátt og stuðla þannig að mælanlegum árangri fyrir alla.

Láttu krabbameinsáætlunina þig varða, því þetta er krabbameinsáætlunin þín!

Hvernig er hægt að fækka krabbameinstilfellum?

Hægt er að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum með heilsusamlegum lífsvenjum. Meðal þess sem helst hefur áhrif er að reykja ekki né neyta tóbaks í öðru formi, halda sér í hæfilegri líkamsþyngd, borða hollan mat og hreyfa sig daglega, neyta áfengis í hófi eða sleppa því, forðast of mikla sól og taka þátt í skipulegri hópleit að krabbameini.  


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?