Guðmundur Pálsson 29. maí 2020

Evrópska krabba­meins­vikan #5

Alþjóðlegi tóbakslausi dagurinn 31. maí.
Börn og ungmenni eru markhópur tóbaks- og nikótíniðnaðarins

Alþjóðlegi tóbakslausi dagurinn er haldinn árlega þann 31. maí. Þá er athyglinni beint að þeim gríðarlega skaða sem tóbaksneysla veldur í heiminum og hvatt til aðgerða sem dregið geta úr henni. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) stendur fyrir deginum.

https://www.youtube.com/watch?v=ByR0cONMSf8

Ályktanir og herferð Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar

Verndun ungmenna fyrir áhrifavaldi iðnaðarins og forvarnir gegn tóbaks- og nikótínnotkun

Áratugum saman hefur tóbaksiðnaðurinn markvisst beitt skipulegum, aðgangshörðum og vel fjármögnuðum aðferðum til að lokka ungmenni til að hefja notkun tóbaks- og nikótínvara. Innanhússskjöl frá iðnaðinum sýna fram á rækilegar rannsóknir og úthugsaðar aðferðir sem ætlað er að höfða til nýrrar kynslóðar tóbaksnotenda, en þar má finna allt frá vöruþróun til markaðsherferða sem miða að því að afla nýrra neytenda, nánar tiltekið ungmenna, í stað þeirra milljóna manna sem deyja ár hvert af völdum tóbakstengdra sjúkdóma.

Sem viðbragð við kerfisbundnum, aðgangshörðum og langvarandi aðferðum sem tóbaksiðnaðurinn og aðilar tengdir honum hafa beitt til að afla nýrrar kynslóðar tóbaksneytenda, hefur Alþjóðlegi tóbaksleysisdagurinn 2020 ákveðið að hrinda úr vör gagn-markaðsherferð og valdefla ungt fólk til þátttöku í baráttunni gegn tóbaksiðnaðinum.

Alþjóðleg herferð Alþjóða tóbaksleysisdagsins 2020 beinist að því að:

 • Afhjúpa goðsagnir og opinbera þær stjórnunaraðferðir sem tóbaksiðnaðurinn beitir, sér í lagi hvað varðar markaðssetningu sem beinist að ungmennum, þar með talið með kynningu á nýjum og nýstárlegum vörum, bragðefnum og öðrum aðlaðandi eiginleikum.
 • Veita ungmennum upplýsingar og þekkingu um fyrirætlanir og aðferðafræði tóbaksiðnaðarins og aðila tengdum honum sem beinast að því að láta núverandi og komandi kynslóðir ánetjast tóbaki og nikótínvörum.
 • Valdefla áhrifavalda (í poppmenningu, á samfélagsmiðlum, á heimilum og í skólastofum) til að vernda og verja ungmenni ásamt því að stuðla að breytingum með því að virkja þau í baráttunni gegn tóbaksiðnaðinum.

Hvernig reynir tóbaksiðnaðurinn og aðilar tengdir honum að hafa áhrif á ungmenni á heimsvísu?

 • Með notkun bragðefna sem höfða til ungmenna í tóbaks- og nikótínvörum, á borð við kirsuber, tyggigúmmí og bómullarís, sem veldur því að ungmenni vanmeta heilbrigðisáhættuna og byrja að nota vöruna.
 • Með svalri hönnun og aðlaðandi vörum sem auðvelt er að bera með sér og virka blekkjandi (t.d. vörur sem líkjast minnislyklum eða sælgæti).
 • Með markaðssetningu vöru sem „skaðminni“ eða „hreinni“ valkosti við venjulegar sígarettur án þess að neinar hlutlausar rannsóknir styðji við slíkar fullyrðingar
 • Með styrkveitingum til frægra/áhrifavalda og með fjárveitingum til keppna á vegum tiltekinna framleiðenda þar sem tóbaks- og nikótínvörur eru auglýstar (þ.m.t. Instagram áhrifavalda)
 • Með markaðssetningu vöru við afgreiðsluborð á sölustöðum sem börn sækja, þar með talið staðsetningu nærri sælgæti, nasli eða gosi ásamt því að veita söluaðilum bónusa í því skyni að tryggja að vörur þeirra séu til sýnis nærri svæðum sem ungt fólk sækir í (þar með talið að útvega söluaðilum markaðssetningarefni og útstillingarkassa)
 • Með sölu stakra sígaretta og annarra tóbaks- og nikótínvara nærri skólum, sem gerir að verkum að tóbak og nikótínvörur eru bæði ódýrar og aðgengi auðvelt að þeim
 • Með óbeinni markaðssetningu tóbaksvara í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og streymisþáttum á netinu
 • Með tóbakssjálfsölum staðsettum á stöðum sem ungt fólk sækir, þöktum aðlaðandi auglýsingum og myndum af pökkum, sem grefur undan lagasetningu um sölu til ólögráða barna
 • Með málaferlum sem ætlað er að grafa undan hvers kyns tóbaksvarnalagasetningu m.a. um viðvaranamerkingar, um sýningu vöru við afgreiðslukassa og lagasetningu sem takmarkar aðgengi barna og markaðssetningu sem beinist að þeim (sér í lagi ákvæði sem banna sölu og auglýsingar tóbaksvara nálægt skólum)

 

Ákall um aðgerðir

 

 • Heimurinn má ekki við því að enn ein kynslóðin verði blekkt með lygum tóbaksiðnaðarins, sem þykist vera að verja persónulegt valfrelsi hvers og eins, en er í reynd að tryggja endalausan hagnað – án þess að leiða hugann að þeim milljónum sem gjalda fyrir með lífi sínu á ári hverju.
 • Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin brýnir áhrifavalda – innan poppmenningar, á samfélagsmiðlum, á heimilum eða í kennslustofum – sem leita eftir og tengjast ungmennum, til þess að fletta ofan af þeim lævísu aðferðum sem tóbaksiðnaðurinn beitir til þess að koma upp nýrri kynslóð tóbaksneytenda. Við þurfum að valdefla ungmenni til að standa uppi í hárinu á tóbaksiðnaðinum með því að hrekja lygar hans og með því að neita að nota vörur tóbaksiðnaðarins.
 • Krækja um átakið á heimasíðu WHO

 

Tillögur evrópsku krabbameinssamtakanna að aðgerðum varðandi sölu tóbaks- og nikótínvara

Skrifleg afstaða Evrópsku krabbameinssamtakanna (e. skst. ECL) 2020

i. Draga ber úr notkun tóbaks og annarra nikótínvara. Tóbaksnotkun er og verður helsta afstýranlega orsök dauðsfalla og sjúkdóma. Í Evrópu mátti rekja 27% dauðsfalla af völdum krabbameina til notkunar tóbaks árið 2018. Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar „Tóbaksnotkun í Evrópu – þróunin 2019“ kemur fram að nærri 9 af hverjum 10 dauðsföllum (að meðtöldum ótímabærum dauðsföllum) af völdum barka-, berkju og lungnakrabbameina í Evrópu tengjast tóbaki [1].

Til að takast á við þessa stöðu, hafa stofnanir ESB og innlendar ríkisstjórnir gripið til margvíslegra tóbaksvarnaráðstafana m.a. með löggjöf, tilmælum og upplýsingaherferðum. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB er ætlað að bæta virkni innri markaðarins varðandi tóbak og tengdar vörur samhliða því að tryggja hátt heilsuverndarstig fyrir evrópska borgara. Tilskipun ráðsins 2011/64/ESB um skipulag og hlutföll vörugjalds á unnið tóbak leiddi í lög háa skatta á tóbaksvörur, sem eru skilvirkir við að draga úr notkun tóbaks, sér í lagi meðal ungs fólks.

Bæði tóbaksvörutilskipunin og tóbaksvörugjaldatilskipunin þarfnast nauðsynlega endurskoðunar með það að markmiði að taka upp nýjar ráðstafanir, á borð við:

1. að hækka lágmarks vörugjöld á allar tóbaksvörur sem ætti að skila sér í umtalsvert auknum skatttekjum og minni skattamun á sígarettum og handvöfðu tóbaki.

2. að framfylgja lögboðnum einföldum/stöðluðum pakkamerkingum þar sem 80% fram- og bakhliða innihalda viðvörunarmerkingar fyrir allar tóbaksvörur og/eða rafsígarettur.

3. að banna bragðefni í tóbaksvörum og takmarka eða banna bragðefni í nýjum nikótínvörum, sem bæta bragðgæði og ásýnd slíkra vara í augum reyklausra, unglinga og ungs fólks.

4. að kanna hvort banna eigi sígarettufilter úr plasti og leyfa aðildarríkjunum að innleiða lög sem banna slíkt með vísan til heilbrigðis- og umhverfismála.

Þar að auki ætti ESB og öll aðildarríkin að tryggja að fullu framkvæmd á rammasamningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir (FCTC) og bókunum hans.

Heimildir

[1] WHO (2019) European tobacco use: Trends report 2019. Available at: http://www.euro.who.int/en/health-topics/diseaseprevention/tobacco/publications/2019/european-tobacco-use-trends-report-2019-2019

https://www.europeancancerleagues.org/wp-content/uploads/ECL-Vision-EU-Beating-Cancer-Plan_Final.pdf

Þjóðhagslega hagkvæmt að aðstoða fólk við að hætta að nota tóbak

Sænsk rannsókn sýnir að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að verja umtalsverðum fjárhæðum í að aðstoða þá sem nota tóbak við að hætta því.

Um 17.000 Íslendingar reykja daglega samkvæmt nýjum tölum frá Landlækni. Í skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands frá 2017 var þjóðhagslegur kostnaður af völdum reykinga á Íslandi metinn 13-90 milljarðar króna á ári, eftir því hvaða reikniaðferð er notuð. Hægt er að fá þokkalegt einbýlishús fyrir um 100 milljónir. Það er því hægt að kaupa 130-900 einbýlishús árið 2020 fyrir þennan kostnað, eftir því hvaða mörk eru notuð. 

Nýleg sænsk rannsókn, þar sem fólki sem fór í mismunandi reykleysismeðferðir var fylgt eftir í allt að átta ár, leiddi í ljós að besti árangurinn náðist í meðferð sem jafnframt var sú dýrasta sem rannsökuð var. Hún byggðist á heimsóknum til sérfræðings í reykbindindi sem byggði aðferðir sínar á hugrænni atferlismeðferð og ráðleggingum varðandi notkun nikótínlyfja. 

Af þeim sem fengu slíka meðferð voru 40% reyklausir að á árum liðnum. Þessi meðferð kostaði sem nemur 600.000 íslenskum krónum fyrir hvern einstakling. Ýmsum kann að virðast það há upphæð. Sé þá litið aftur til fyrrnefnds þjóðhagslegs kostnaðar af völdum reykinga á Íslandi sést að hægt væri að veita 150.000 reykingamönnum slíka meðferð fyrir þann kostnað séu efri mörkin notuð en um 22.000 séu þau neðri notuð. 

Þegar horft er til þess að 17.000 Íslendingar reykja daglega er ljóst að meðferð af þessu tagi væri gríðarlega kostnaðarhagkvæm. 


Heimildir

Skýrsla nr. C17:05. Þjóðhagsleg áhrif reykinga á íslandi október 2017. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Feldman I, Helgason AR, Johansson P, Tegelberg A, Nohlert E. Cost-effectiveness of a high-intensity versus a low-intensity smoking cessation intervention in a dental setting: long-term follow-up. BMJ Open 2019; 9:e030934.


Fleiri nýjar fréttir

16. feb. 2024 : Veruleg ánægja með námskeiðið og hefur fólk ekki látið misgott veður stöðva sig

Göngurnar eru leiddar af leiðsögumönnum frá Ferðafélaginu sem jafnframt fræða um ýmislegt áhugavert sem tengist þeim slóðum sem gengið er um. Rúmlega fjörutíu þátttakendur á námskeiðinu sem mun standa alveg fram í júní.

Lesa meira
2023-j

12. feb. 2024 : Kastað til bata: Konum boðið til veiðiferðar

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í verkefnið „Kastað til bata“ sem er endurhæfingarverkefni á vegum Brjóstaheilla - Samhjálpar kvenna, Krabbameinsfélagsins og styrktaraðila, þar sem konum er boðið til veiðiferðar.

Lesa meira

10. feb. 2024 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Við erum á ferðinni í Hafnarfirði og Mosfellsbæ.

Lesa meira

9. feb. 2024 : Endurskoðaðar ráðleggingar embættis landlæknis um hreyfingu

Embætti landlæknis kynnti endurskoðaðar ráðleggingar um hreyfingu ásamt því að setja lífshlaupið 2024 af stað í samstarfi við Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands.

Lesa meira

7. feb. 2024 : Styrkir til Krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins óskar eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum. Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti 4. mars. Markmið sjóðsins er að efla rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga. 45 rannsóknarverkefni af fjölbreyttum toga hafa fengið styrki úr sjóðnum frá árinu 2017.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?