Guðmundur Pálsson 12. apr. 2019

Ert þú næsti verslunar­stjóri vef­verslunar Krabba­meins­félags­ins?

Krabbameinsfélagið leitar að metnaðarfullum starfsmanni sem hefur brennandi áhuga á að vinna að markmiðum Krabbameinsfélags Íslands: að fækka þeim sem greinast með krabbamein, draga úr dauðsföllum af völdum krabbameina og bæta lífsgæði sjúklinga og aðstandenda þeirra.

 

Við leitum að starfsmanni í 80% starf verslunarstjóra vefverslunar Krabbameinsfélagsins. Í starfinu felst:

  • afgreiðsla og frágangur pantana
  • innkaup og samskipti við viðskiptavini og birgja
  • mótun vöruframboðs í samstarfi við fjáröflunarstjóra
  • rafræn markaðssetning á vörum

Meðal annarra verkefna sem felast í starfinu er umsjón dreifingar á vörum til söluaðila í Bleiku slaufunni og Mottumars, umsjón fjáröflunarviðburða auk samskipta og þjónustu við stuðningsaðila félagsins.

Ertu með puttann á púlsinum og kannt til verka?

Ef þú hefur góða reynslu af umsjón vefverslunar eða sambærilegu auk þess að þekkja til rafrænnar markaðssetningar þá gæti þetta verið starfið fyrir þig. Mikill kostur er ef þú hefur líka reynslu af notkun Shopify, DK og af skipulagi dreifingar á vörum til verslana. Einnig er mikilvægt að þú hafir gaman af því að selja góðar vörur og að fylgjast með nýjungum tengdum verslun á vefnum. Lykilþáttur í starfinu er svo góð samskipta- og skipulagsfærni. Þess má geta að starfið býður upp á sveigjanlegan vinnutíma.

Vilt þú gera gagn?

Allur ágóði af rekstri vefverslunarinnar rennur til Krabbameinsfélagsins þannig að góður árangur þinn í starfi skilar sér beint í stuðning við þá sem greinast með krabbamein og aðstandendur þeirra og önnur verkefni félagsins. Þú verður hluti af Fjáröflunardeild Krabbameinsfélagsins sem hefur umsjón með fjáröflunarverkefnum eins og vefversluninni, Velunnurum sem eru mánaðarlegir styrktaraðilar félagsins, Bleiku slaufunni og Mottumars.

Umsóknir skulu berast til Kolbrúnar Silju Ásgeirsdóttur, fjáröflunar- og markaðsstjóra Krabbameinsfélagsins á netfangið kolbrun@krabb.is fyrir 23. apríl.


Fleiri nýjar fréttir

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?