Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 26. sep. 2018

Erfið reynsla krabbameinssjúklinga sem leita til bráðamóttöku Landspítala

Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins hefur að undanförnu borist töluvert af erindum vegna erfiðrar reynslu sjúklinga og aðstandenda þeirra af þjónustu bráðamóttöku Landspítala.

Kvartanir fólks beinast meðal annars að löngum biðtíma, takmörkuðum úrlausnum og fjölda endurkoma.

Krabbameinsfélagið tekur hlutverki sínu sem málsvara krabbameinssjúklinga alvarlega og óskaði þess vegna eftir fundi með fulltrúum Landspítalans sem haldinn var þann 21. september síðastliðinn.

Fundinn sátu framkvæmdastjórar flæði- og lyflækningasviðs, framkvæmdastjóri hjúkrunar og lækninga auk forstjóra spítalans ásamt forstöðumanni Ráðgjafarþjónustu félagsins og framkvæmdastjóra félagsins.

Nánast öll krabbameinsmeðferð er veitt á dagvinnutíma á göngudeildum og flestir eru því heima hjá sér megnið af meðferðarferlinu. Ótvíræðir kostir fylgja því auðvitað að þurfa ekki að vera inniliggjandi á spítala en álagið getur líka verið mikið á sjúklinga og aðstandendur. Til að draga úr því álagi er mikilvægt að upplýsingastreymi sé gott, samfella í þjónustu og gott aðgengi að meðferðaraðilum. Komi eitthvað upp í kjölfar meðferðar er mikilvægt að hægt sé að bregðast við hratt og örugglega en því miður er það svo í dag að eftir kl. 16 á daginn eða um helgar verða sjúklingar að leita á bráðamóttöku spítalans, sem margir hafa því miður ekki nógu góða reynslu af.

Á fundinum lýstu fulltrúar Krabbameinsfélagsins þeim umkvörtunum sem hafa borist félaginu og sýndu fulltrúar spítalans bæði áhuga og skilning á erindunum. Auk atriða sem tengjast beint þjónustu bráðamóttökunnar var rætt um mikilvægi þess að finna leiðir til að tryggja öryggiskennd sjúklinga og aðstandenda þeirra.

Viðbrögð stjórnenda spítalans voru með þeim hætti að full ástæða er til að vænta úrbóta sem vonandi munu líta dagsins ljós fljótlega.

Krabbameinsfélagið mun fylgja málinu eftir og boðaður hefur verið annar fundur í byrjun nóvember. 


Fleiri nýjar fréttir

15. ágú. 2019 : Aukaskoðun í Vestmannaeyjum 22. og 23. ágúst

Afar dræm þátttaka var í skimun fyrir brjóstakrabbameini í Vestmannaeyjum í vor og kom í ljós að mistök höfðu átt sér stað í póstsendingu boðsbréfa sem ekki bárust öllum konum sem komið var að í skimun.

Lesa meira

12. ágú. 2019 : Opið fyrir umsóknir í vísindasjóð norrænu krabbameinssamtakanna

Vakin er athygli á því að opið er fyrir umsóknir í vísindasjóð NCU (Norrænu krabbameinssamtakanna). Umsóknarfrestur er til og með 2. september næstkomandi.

Lesa meira
Brjóstaskoðun á Leitarstöð

9. ágú. 2019 : Mikil eftirspurn eftir tímum í skimun

Aldrei hafa jafnmargar tímapantanir í skimun beðið starfsfólks Leitarstöðvarinnar að loknum sumarleyfum og nú. Um 800 tölvupóstar biðu afgreiðslu og er nú unnið að því að bæta við tímum til að anna eftirspurn. 

Lesa meira

29. júl. 2019 : Hleypur fyrir pabba og frænda ... af því hún getur það

Berglind Alda Ástþórsdóttir hleypur 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Krabbameinsfélaginu. Berglind hefur sterka tengingu við krabbamein, en faðir hennar hefur síðustu tvö ár glímt við nýrnakrabbamein og 14 ára gamall frændi er með krabbamein í eitlum. 

Lesa meira
Arnar Pétursson og Berglind Alda Ástþórsdóttir

27. júl. 2019 : Þú þarft ekki að vera maraþonhlaupari til að minnka líkur á krabbameini

Krabbameinsfélagið hvetur landsmenn til reglulegrar hreyfingar, því í henni felst góð forvörn gegn krabbameinum. Félagið hvetur hlaupara í Reykjavíkurmaraþoni til dáða með því að gefa bönd með slagorðinu „Ég hleyp af því ég get það.“

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?