Lára G. Sigurðardóttir læknir og fræðslustjóri KÍ 8. des. 2016

Er morgunkorn með gróðureyði krabba­meinsvaldandi?

Gróðureyðirinn glýfosat er líklega hve þekktastur fyrir að vera meginuppistaða gróðureyðisins Roundup. Bandaríska matvæla- og lyfjaseftirlitið (FDA) hefur í áraraðir markvisst leitað að leifum af ýmsum gróðureyðum í matvöru  en verið harðlega gagnrýnt fyrir að mæla ekki glýfosat, sérstaklega í ljósi þess að efnið hefur mestu dreifingu á heimsvísu allra gróðureyða. Notkunin glýfosats er mest í landbúnaði og hefur notkunin aukist mikið eftir að byrjað var að framleiða erfðabreyttar afurðir en glýfosat er breiðvirkur gróðureyðir sem vinnur á hátt í 200 gróðurtegundum. Nú eru hátt í 10 milljónum tonna af glýfosati verið úðað á akra víða um heim.

Það var ekki fyrr en nú í ár sem FDA hóf að mæla glýfosat í fæðu, en mælingarnar voru settar á bið vegna fjárskorts og ágreinings um aðferðir til að mæla efnið. Menn telja nú brýna ástæðu til að kanna magn glýfosats í matvöru þar sem Alþjóðakrabbameinsrannsóknarstofnunin (IARC) flokkaði efnið nýlega sem líklegan áhættuþátt krabbameina ( flokkur 2A ), líkt og næturvaktavinna, hárgreiðsluiðnaðurinn, heitir drykkir sem eru yfir 65°C, rautt kjöt og akrýlamíð sem myndast þegar matur er hitaður við háan hita, t.d. djúpsteiking eða ristun brauðs. 

En hvað þýðir það að eitthvað sé líklegur áhættuþáttur krabbameina?

Það þýðir að Alþjóðakrabbameinsrannsóknarstofnunin (IARC) hefur kallað til vinnuhóp fjölda sérfræðinga frá mörgum löndum. Sérfræðingarnir fara yfir allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á tilteknum áhættuþætti, sem er glýfosat í þessu tilviki, og gefa út yfirlýsingu um hvort efnið sé krabbameinsvaldandi. Þegar efni er líklegur krabbameinsvaldur þá hafa rannsóknir sýnt að það sé krabbameinsvaldandi í tilraunarannsóknum á dýrum eða mannafrumum, t.d. að það veldur krabbameini í nagdýrum og örvi krabbameinsmyndun í mannafrumum. Í þessum flokki er venjulega takmarkaðar upplýsingar um hvort þátturinn sem um ræðir valdi krabbameini hjá mönnum. Stundum vantar einungis fleiri rannsóknir á sjónarsviðið til að skera úr um áhættuna og stundum þolir maðurinn betur efnið en nagdýr eða frumur í tilraunaglösum. 

Ef fleiri rannsóknir sýna fram á aukna krabbameinsáhættu hjá mönnum þá flyst áhættuþátturinn venjulega upp í flokk 1, sem er listi yfir þekkta krabbameinsvalda hjá mönnum sem inniheldur til dæmis áfengi og tóbak.

Glýfosat mælist í vinsælum matvörum

Rannsóknarstofan Anresco sem er vottuð af FDA mældi því nýlega glýfosat í 29 matvörum að beiðni grasrótarsamtakanna Food Democracy Now. Í stuttu máli þá mældist glýfosat í fjölda matvara sem finnast á flestum heimilum, m.a. Cheeriosi, Ritz kex, Doritos, Kelloggs, Corn Flakes, Special K, Frosted Flakes, Oreos o.fl. Í kjölfarið var gefin út skýrsla þar sem ýjað er að því að glýfosat sé að finna í miklu magni í þessum matvörum. Það sem getur ruglað lesendur er að tölurnar í skýrslunni eru gefnar upp sem hlutur á billjón einingar (ppb) en opinber viðmiðunarmörk hafa verið gefin út í hlutur á milljón einingar (ppm). Þegar  tekið er tillit til þess þá var styrkleikinn innan viðmiðunarmarka sem sett hafa verið og samkvæmt því mælast efnin ekki í styrkleika sem gæti verið skaðleg heilsu manna.

Glýfosat og eitilfrumuæxli

Rannsóknir á glýfosati og krabbameinum hafa fundið aðallega tengsl við non-Hodgkin eitilfrumuæxli en þær rannsóknir eru ekki óyggjandi. Tilraunaglasarannsóknir hafa einnig sýnt að glýfosat veldur skemmdum á erfðaefni og litningum í frumum manna en ekki er hægt að yfirfæra þær á hvað gerist svo í líkamanum sjálfum þar sem ýmsir varnarþættir eru til staðar. Ef við berum það saman við áfengi þá er það þekktur áhættuþáttur sjö tegunda krabbameina. 

Sömu áhrif á alla?

Enn sem komið eru tengsl milli glýfosats og krabbmeins ekki sterk. Hins vegar má velta því fyrir sér  sér hvort áhrifin séu þau sömu fyrir ungbörn og gamalmenni. Nú hefur verið gjarnan mælt með að láta ung börn æfa fínhreyfingar með því að borða Cherrios. Börn hafa mun hraðari frumuskiptingu en fullorðnir og því alltaf möguleiki að áhrifin séu ekki þau sömu hjá þeim og fullorðnum einstaklingum. Eins og með annað í lífinu þá hlýtur að gilda hinn gullni meðalvegur. Cheerios og aðrar vörur sem hafa verið búnar til með glýfosati gera líklega engan skaða í hóflegu magni þó svo að vissulega gæti verið tilefni til að íhuga aðra valkosti. 

Hringrás jarðar

Annað atriði sem við þurfum að hafa í huga er hvaða áhrif þessi efni hafa á jörðina okkar. Glýfosat er tilbúið efni (ónáttúrulegt) og er komið í hringrás jarðar en það mælist meðal annars í regnvatni. Þó svo að við búum við góðar aðstæður í dag er ekki þar með sagt að það geti ekki breyst eftir því sem fleiri eiturefnum er dælt í hringrás jarðar. Það er á endanum við neytendurnir sem getum stjórnað því hvort vel sé hugsað um jörðina okkar með því að versla vörur sem eru vistvænar í framleiðslu. 
Hægt er að lesa meira um glýfosat í Neytendablaðinu.

Lára G. Sigurðardóttir læknir og fræðslustjóri Krabbameinsfélagsins


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?