Ása Sigríður Þórisdóttir 19. ágú. 2022

Enn styrkist þekkingargrunnurinn sem undirstrikar mikilvægi forvarna gegn krabbameinum

Niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birtust í Lancet tímaritinu í vikunni benda til þess að í næstum helmingi tilfella dauðsfalla af völdum krabbameina megi rekja orsök meinanna til áhættuþátta sem koma mætti í veg fyrir. Á meðal þessara áhættuþátta eru þeir þrír helstu tóbaksreykingar, áfengisneysla og of mikil líkamsþyngd.

Um helmingur allra dauðsfalla vegna krabbameina á heimsvísu er talinn stafa af orsökum sem koma mætti í veg fyrir.

Rannsóknin er líklega sú umfangsmesta sem ráðist hefur verið í með það að markmiði að áætla hve stóran hluta krabbameina á heimsvísu megi rekja til ákveðinna áhættuþátta.

Notuð voru gögn frá 204 löndum sem náðu yfir tímabilið 2010-2019 og tók rannsóknin til 23 mismunandi tegunda krabbameina og 34 áhættuþátta.

Meðal þess sem rannsóknin sýnir, er að þeim dauðsföllum af völdum krabbameina fer fjölgandi sem stafa af áhættuþáttum sem koma mætti í veg fyrir. Er aukningin á heimsvísu um 20% frá 2010-2019.

Niðurstöðurnar koma þó ekki á óvart, fjölmargar aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að koma mætti í veg fyrir verulega mikinn hluta þess skaða sem krabbamein valda þjóðum jarðar ef breytingar yrðu á heilsuhegðun fólks og langmestu munar um að draga úr reykingum, of mikilli líkamsþyngd og áfengisneyslu.

Ljóst ætti því að vera að öflugar, víðtækar og fjölbreyttar forvarnaraðgerðir, bæði aukin fræðsla um áhættuþætti krabbameina og aðgerðir sem auðvelda og beina fólki til lífshátta sem dregið geta úr krabbameinsáhættu eru nauðsynlegar. Nýverið var skipaður hérlendis verkefnahópur sem hefur það hlutverk að vinna að mótun aðgerðaáætlunar með lýðheilsustefnu, sem hvetur fólk til að huga að eigin heilsu. Afar mikilvægt er að í þeirri vinnu sé tekið tillit til niðurstaðna eins og hér er lýst þannig að með aðgerðaáætlun sé fólki auðveldað að taka ákvarðanir sem draga úr krabbameinsáhættu.


Fleiri nýjar fréttir

21. sep. 2022 : Rannsókn á krabbameinum í Reykjanesbæ: Eru tengsl við starfsemi varnarliðsins og lífsstíl?

Íbúar á Suðurnesjum hafa lengi haft áhyggjur af mengun í tengslum við herstöðina og að hún geti hafa valdið aukinni tíðni krabbameina. Rannsókn Krabbameinsfélagsins beindist að mengun í vatnsbólum og sýnir að mjög fá krabbamein á tímabilinu 1955 - 2010 skýrast af slíkri mengun. En talsverður fjöldi krabbameina reyndist tengjast lifnaðarháttum og voru slík mein marktækt fleiri en annars staðar á landinu.

Lesa meira

16. sep. 2022 : Tryggðu þér miða á Opnunarviðburð Bleiku slaufunnar

Það styttist mjög í Bleikan október og undirbúningurinn í fullum gangi. Opnunarviðburður Bleiku slaufunnar er kominn í sölu. Bleikaslaufan.is er að gera sig klára til að taka vel á móti ykkur, Bleika slaufan sem í ár er hönnuð af Orrifinn Skartgripir er komin í hús og toppar sig enn á ný og er geggjuð!

Lesa meira

16. sep. 2022 : Bleika slaufan er komin í hús!

Það er óhætt að segja að mikil eftirvænting hafi ríkt í húsnæði Krabbameinsfélagsins í blíðunni í gær þegar við fengum símtal um að Bleika slaufan væri komin til landsins og væri væntanleg í hús kl.15:00. Það er alltaf stór stund þegar við tökum á móti Bleiku slaufunum.

Lesa meira

15. sep. 2022 : Málþing í tilefni Alþjóðadags krabbameinsrannsókna

Krabbameinsfélagið og Samtök um krabbameinsrannsóknir á Íslandi (SKÍ) standa fyrir málþingi tileinkað Vigdísi Finnbogadóttur, verndara Krabbameinsfélagsins, miðvikudaginn 21. september kl. 17:30-20:00 í Veröld – húsi Vigdísar. Léttar veitingar í boði frá kl. 17:00.

Lesa meira

15. sep. 2022 : Meðferðarkjarninn rís - vandi krabbameinsdeildar er óleystur

Krabbameinsfélagið heldur áfram að vekja athygli á þessu mikilvæga málið þangað til það verður leyst! 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?