Ása Sigríður Þórisdóttir 19. ágú. 2022

Enn styrkist þekkingargrunnurinn sem undirstrikar mikilvægi forvarna gegn krabbameinum

Niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birtust í Lancet tímaritinu í vikunni benda til þess að í næstum helmingi tilfella dauðsfalla af völdum krabbameina megi rekja orsök meinanna til áhættuþátta sem koma mætti í veg fyrir. Á meðal þessara áhættuþátta eru þeir þrír helstu tóbaksreykingar, áfengisneysla og of mikil líkamsþyngd.

Um helmingur allra dauðsfalla vegna krabbameina á heimsvísu er talinn stafa af orsökum sem koma mætti í veg fyrir.

Rannsóknin er líklega sú umfangsmesta sem ráðist hefur verið í með það að markmiði að áætla hve stóran hluta krabbameina á heimsvísu megi rekja til ákveðinna áhættuþátta.

Notuð voru gögn frá 204 löndum sem náðu yfir tímabilið 2010-2019 og tók rannsóknin til 23 mismunandi tegunda krabbameina og 34 áhættuþátta.

Meðal þess sem rannsóknin sýnir, er að þeim dauðsföllum af völdum krabbameina fer fjölgandi sem stafa af áhættuþáttum sem koma mætti í veg fyrir. Er aukningin á heimsvísu um 20% frá 2010-2019.

Niðurstöðurnar koma þó ekki á óvart, fjölmargar aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að koma mætti í veg fyrir verulega mikinn hluta þess skaða sem krabbamein valda þjóðum jarðar ef breytingar yrðu á heilsuhegðun fólks og langmestu munar um að draga úr reykingum, of mikilli líkamsþyngd og áfengisneyslu.

Ljóst ætti því að vera að öflugar, víðtækar og fjölbreyttar forvarnaraðgerðir, bæði aukin fræðsla um áhættuþætti krabbameina og aðgerðir sem auðvelda og beina fólki til lífshátta sem dregið geta úr krabbameinsáhættu eru nauðsynlegar. Nýverið var skipaður hérlendis verkefnahópur sem hefur það hlutverk að vinna að mótun aðgerðaáætlunar með lýðheilsustefnu, sem hvetur fólk til að huga að eigin heilsu. Afar mikilvægt er að í þeirri vinnu sé tekið tillit til niðurstaðna eins og hér er lýst þannig að með aðgerðaáætlun sé fólki auðveldað að taka ákvarðanir sem draga úr krabbameinsáhættu.


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?