Lára G. Sigurðardóttir læknir og fræðslustjóri KÍ 25. apr. 2016

Ekki vera steikt/ur

Eftir langan dimman vetur er freistandi að baka sig í sólinni loksins þegar hún sýnir sig.  En hvað ber að varast í sólinni? Grein eftir Láru G. Sigurðardóttur lækni. 

Eftir langan dimman vetur er freistandi að baka sig í sólinni loksins þegar hún sýnir sig. Hvort aðdráttarafl sólarinnar er merki um ákall á D-vítamín eða annað veit ég ekki.

En hvaða áhrif hafa sólargeislarnir? Sólin sendir frá sér margar tegundir af geislum. Við þekkjum best útfjólubláugeislana UVA og UVB sem geta skemmt erfðaefni húðfruma og þannig leitt til öldrunar húðar og húðkrabbameina. Hversu skaðlegir útfjólubláugeislarnir eru fer eftir nokkrum atriðum:

  1. Sólargeislarnir eru hættulegastir milli kl.11 og 14.
  2. Því lengur sem þú ert í sólinni því meiri skaða geturðu orðið fyrir.
  3. Eftir því sem sólargeislarnir eru nær miðbaugi því hættulegri eru þeir.
  4. Því hærra frá sjávarmáli sem þú ert því sterkari eru geislarnir.
  5. Skýin veita ekki örugga vörn og geislarnir geta endurspeglast frá sumum skýjum.
  6. Sólargeislarnir endurvarpast frá jörðinni, sérstaklega vatni og snjó.
  7. Höfuðfat og klæðnaður eða sólarvörn verndar þig gagnvart sólargeislunum.
  8. Að halda sig í skugga veitir góða vörn, sérstaklega um hádegisbil.

Sólbruni eða brún húð eru merki um að húðin hefur orðið fyrir húðskaða af völdum útfjólublárra geisla. Til langs tíma getur það valdið ótímabærri öldrun húðar með tilheyrandi línum og minnkuðum teygjanleika ásamt öldrunarblettum og öðrum blettum sem breyst geta í húðkrabbamein. Af húðkrabbameinunum eru sortuæxli alvarlegust. Auk þess að hafa skaðleg áhrif á húðina auka útfjólubláu geislarnir einnig líkur á að fá ský á auga eða önnur augnvandamál.

Þekkir þú áhættuþætti eða einkenni sortuæxla?

Þó svo að allir geti fengið sortuæxli þá eru nokkrir þættir sem geta aukið líkur á myndun sortuæxla:

  1. Húð sem brennur auðveldlega.
  2. Að hafa brunnið í sól eða ljósabekkjum, sérstaklega fyrir 18 ára aldur.
  3. Ljós húð sem þolir illa sólina.
  4. Að hafa marga fæðingabletti.
  5. Óreglulegir fæðingablettir.
  6. Ef náinn ættingi hefur greinst með sortuæxli.

Síðan er mikilægt að vera vakandi fyrir einkennum sortuæxla því yfirleitt sjáum við þau með berum augum. Ef blettur hefur eitt eftirtalinna atriða þá getur það bent til sortuæxlis:

  1. Ósamhverfur.
  2. Óreglulegir jaðrar.
  3. Fleiri en einn litur.
  4. Hefur breyst að einhverju leyti, t.d. stækkað.
  5. Kláði eða sár.

Allir sem hafa áhættuþátt eða blett með ofangreint einkenni ættu að láta lækni skoða sig. Sortuæxli er auðvelt að lækna ef það greinist á byrjunarstigi en getur verið erfitt við að eiga nái það að dreifa sér. Því er svo mikilvægt að gæta hófs í sólböðum eins í öðru í lífinu. Ekki steikja á sér húðina, við þurfum á heilbrigðri húð að halda alla ævi.

Lára G. Sigurðardóttir, læknir og fræðslustjóri Krabbameinsfélagsins


Fleiri nýjar fréttir

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Egils Þórs Jónssonar

Egill Þór telur að hann væri ekki á lífi ef hann hefði þagað í gegnum sína meðferð og hvetur alla til að sækja sér alla þá hjálp sem í boði er, nýta sér stuðningsfélögin sem eru að styðja við þá sem greinast. Jafningjastuðningur hafi verið honum afar mikilvægur, að finna fyrir sterkri tengingu við einhvern sem búinn var að ganga í gegnum það sama og hann var að ganga í gegnum í fyrsta sinn, hafi verið ómetanlegt.

Lesa meira

22. mar. 2024 : Gleðilegan Mottudag

Mottumars nær hámarki í dag, föstudaginn 22. mars, þegar Mottudagurinn er haldinn hátíðlegur. Krabbameinsfélagið hvetur alla landsmenn, konur og karla, til að gera sér glaðan dag með fjölskyldunni, vinum og vinnufélögum og vekja þannig athygli á baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?